Neytendablaðið - 01.10.2009, Side 14
Í bókinni Ferðalag stuttermabolsins um hagkerfi heimsins segir
Pietra Rivoli, prófessor í hagfræði við Georgetown-háskólann,
áhugaverða sögu um uppruna stuttermabols sem hún keypti á
ferðalagi í Flórída.
Bolinn umrædda keypti Rivoli á 6 bandaríkjadali. Hann er merktur
fyrirtækinu „Sherry manufacturing“, sem hefur aðsetur í Miami en
kaupir boli frá Mexikó, El Salvador, Bangladesh, Kína, Pakistan og
Botswana og prentar á þá suðrænar myndir sem falla ferðamönnum
í geð. Það var Xu Zhao Ming, eigandi Shanghai knitwear, sem
seldi bolina til Sherry manufacturing og Rivoli mælti sér mót við
Ming næst þegar hann átti leið til Washington, þar sem Rivoli
er búsett. Ming tók vel í hugmynd Rivoli þegar hún sagðist vilja
fræðast um bolinn og rita sögu hans. „Komdu til Kína og ég sýni
þér allt.“ Rivoli sagðist vilja alla söguna; gæti hann sýnt henni hvar
bolirnir eru saumaðir? Hvar efnið er ofið og hvar garnið sem er
notað til að sauma saman bolina er framleitt? Ming hélt að það yrði
nú ekki vandamál. En hvað með bómullina? Kína er einn stærsti
bómullarframleiðandi í heimi. Gæti hún heimsótt ræktunarsvæðið?
Ming sagði henni þá að bómullin væri ræktuð mjög fjarri Kína,
nefnilega í Texas. Rivoli ákvað því að hefja ferðalagið þar.
„Bómullarlegasta“ borg í heimi
Lubbock, sem er í vesturhluta Texas, er að sögn heimamanna „the
cottonest city in the world.“ Gríðarmikið ræktunarland umkringir
borgina og 25% af allri bómull sem ræktuð er í Bandaríkjunum
hefur þar viðkomu. Þar er stærsta bómullarsamvinnufélag í heimi
og ein stærsta bómolíuverksmiðja (cottonseed oil mill) í heimi.
Bændurnir á svæðinu hafa mikla þekkingu á bómullarrækt og njóta
náinnar samvinnu við háskóla og rannsóknarsetur á svæðinu, s.s.
Texas Techháskólann sem er leiðandi í rannsóknum á bómull.
Bandaríska landbúnaðarráðuneytið hefur lagt sitt af mörkum með
styrkjum til þróunar og nýsköpunar í bómullargeiranum.
Háþróaðar bómullarrannsóknir
The Plains Cotton Cooperative Association (PCCA) er samvinnufélag
bómullarbænda á svæðinu og það hefur markvisst unnið að því að
bæta gæði bómullarinnar en lengi vel þótti bómullin frá vesturhluta
Texas ekki góð að gæðum. Áður voru gæði bómullarinnar metin
með því að kaupandi greip handfylli af bómull en í dag eru
notaðar háþróaðar aðferðir þar sem tölvur og smásjár leika stærsta
hlutverkið. PCCA sér um að selja bómullina fyrir bændurna á
svæðinu og notar meðal annars rafrænt sölutorg (TELECOT)
sem gefur seljendum um allan heim færi á að geta nálgast allar
nauðsynlegar upplýsingar um bómullina á netinu.
Drottna á bómullarmarkaði
Bandaríkin hafa náð að halda heimsyfirráðum á bómullarframleiðslu
í meira en 200 ár, en hvernig hefur þeim tekist að ná þessu
forskoti? Svarið liggur að hluta í þeirri staðreynd að ræktendum
í Bandaríkjunum hefur tekist, með dyggri aðstoð yfirvalda, að
bægja allri markaðsáhættu frá og takmarka samkeppni í stað
þess að taka þátt í henni. Árið 1791 var bómullarframleiðsla í
Bandaríkjunum óveruleg eða um þúsund tonn á ári meðan Asía
framleiddi um 200.000 tonn. Á einum áratug jókst framleiðslan í
Bandaríkjunum tuttuguogfimmfalt og um 1860 var ársframleiðslan
komin upp í meira en 500.000 tonn. Á árunum 1815 til 1860 mátti
rekja um helming útflutningstekna Bandaríkjanna til bómullar og
meira en 70% af framleiðslunni var flutt út, aðallega til Englands
þar sem eftirspurnin var mest. Á stuttum tíma náðu Bandaríkin
yfirburðastöðu á bómullarmarkaði og halda henni enn í dag.
Þrælahald
Bómullarræktendur Í Bandaríkjunum hafa aldrei viljað treysta á
frjálsan vinnumarkað og hafa beitt ýmsum brögðum til að komast
hjá því að þurfa að semja um kaup og kjör verkafólks eins og tíðkast
í öðrum geirum. Þrælahald var fyrsta „opinbera stefnan“ sem gekk
út á að tryggja hag bómullarbænda og vernda þá gegn samkeppni.
Vinna á bómullarökrum er líkamlega erfið og bómullarplantan
krefst mikillar umönnunar. Veðrið getur hæglega sett strik í
reikninginn og því gátu ræktendur illa áætlað þörfina fyrir vinnuafl
fram í tímann. Ef rigndi mikið gat þurft að fjarlæga illgresi sex
sinnum sem gat þýtt að helmingi fleira starfsfólk þurfti til. Þegar
kom að uppskerutíma skipti veðrið sköpum. Ekki er hægt að tína
bómullina blauta og eftir rigningu geta liðið 3 til 4 dagar áður en
hún er orðin þurr. Um leið og bómullin er opin og þurr þarf að tína
hana hið fyrsta. Þegar kom að uppskeru vantaði öll bómullarbýli
á svæðinu vinnuafl á sama tíma. Það hugnaðist því ekki bændum
að reiða sig á frjálsan vinnumarkað. Ræktendur sem héldu þræla
náðu fljótt yfirburðum því þeir gátu stækkað ræktunarlandið og
náð meiri afköstum.
Saga stuttermabolsins
Bómullarræktun verður að teljast
nokkuð áhættusöm. Bómullin má
hvorki verða of heit né of köld.
Plantan er viðkvæm fyrir of miklu
vatni en þrífst líka illa fái hún of lítið
vatn og hún er of viðkvæm til að þola
haglél og slagveður. Bómullarplantan
er mjög viðkvæm fyrir illgresi og
skordýrum og þá er verð á afurðinni
mjög breytilegt.
1 NEYTENDABLA‹I‹ 3. TBL. 2009