Neytendablaðið - 01.10.2009, Page 18
tilraun stóð yfir í 36 vikur) þrátt fyrir að fólk kæmi til með að nota
lyfið til mun lengri tíma.
Ráðleggingar til fjölmiðla
Höfundar benda á að fjölmiðlafólk ætti að hafa varann á þegar það
fær upplýsingar um nýja sjúkdóma sem náð hafa mikilli útbreiðslu
á skömmum tíma. Ef sjúkdómur er algengur og verulega til ama
er ótrúlegt að enginn hafi heyrt um hann áður. Fjölmiðlar þurfa
að spyrja spurninga eins og hvernig sjúkdómurinn sé skilgreindur,
hvort aðferðir við greiningu séu réttar og hvort rannsóknarhópurinn
endurspegli almenning. Þá sé vert að setja spurningarmerki við
tilhneiginguna til að trúa því að meðferð sé alltaf réttlætanleg;
er það t.d. þess virði að skipta á fótaóeirð fyrir ógleði, svima og
þreytu?
Varhugaverð umfjöllun
Höfundar segja umfjöllunina um fótaóeirð varhugaverða. Þeir telja
hana ýkja tíðni sjúkdómsins og þörfina fyrir meðferð og segja hana
ekki taka tillit til þeirra vandamála sem ofgreining hefur í för með
sér. Fjölmiðlar virðast hafa verið fengnir til liðs við framleiðendur
til að ýta undir sjúkdómavæðinguna. Höfundar segja þó auðvelt
að skilja af hverju fjölmiðlar stökkvi á þessar fréttir svo að segja
gagnrýnilaust. Sögurnar eru vissulega dramatískar. Algengur, en þó
lítt þekktur sjúkdómur herjar á almenning. Persónulegar frásagnir
eru sannfærandi. Læknar eru áhugalausir og fáfróðir og lækningin
felst í kraftaverkalyfi.
Raunveruleikinn ekki jafn spennandi?
Hin hliðin kemur hins vegar ekki fram. Það er kannski engin
heilsufarsógn, frásagnir sjúklinga gefa ekki endilega rétta mynd að
reynslu þeirra sem haldnir eru kvillanum, það getur verið rétt af
læknum að greina ekki sjúkdóm út frá vægum einkennum sem eiga
sér ekki trúverðugar skýringar og meðferð og bati eiga ekkert skylt
við kraftaverk.
Fjölmiðlar ættu, að mati Woloshin og Schwarz, að segja fréttir af
heilbrigðismálum án þess að ýta undir sjúkdómavæðinguna og það
geri þeir með því að nálgast fréttir af nýstárlegum sjúkdómum af
meiri gagnrýni. Það sé enda hlutverk fjölmiðla að upplýsa lesendur
sína en ekki gera þá veika.
Fyrir nokkrum árum birtist grein í hinu virta læknariti British
Medical Journal þar sem fjallað var um nýjan og áður óskilgreindan
sjúkdóm, „Motivational deficiency disorder“, sem gæti útlagst á
íslensku sem yfirgengileg leti. Taugafræðingurinn Leth Argos, sem
starfar við Newcastleháskólann í Ástralíu, var einna fyrstur til að
skilgreina sjúkdóminn. Hann telur að allt að einn af hverjum fimm
Áströlum þjáist af sjúkdómnum en lítið er vitað um orsakir hans.
Væg einkenni geta t.d. verið þau að fólk eigi erfitt með fara á fætur
á morgnana eða hafi sig ekki í að sinna einföldustu húsverkunum.
Í verstu tilfellum getur letin þó náð slíkum tökum á fólki að það
hættir að hafa fyrir því að anda. Sjúkdómurinn getur því reynst
lífshættulegur. Sem betur fer er þó til lyf við honum, Strivor, sem
hefur gagnast vel.
Nú eru eflaust farnar að renna tvær grímur á lesendur. Hið rétta er að
það er ekkert til sem heitir Motivational deficiency disorder. Greinin
sem birtist í British Medical Journal var skrifuð af blaðamanninum
Ray Moynihan og var aprílgabb. Markmiðið var að sýna fram á
hvernig sjúkdómar eru búnir til og seldir almenningi. Moynihan
hefur skrifað heilmikið um sjúkdómavæðinguna og m.a. gefið út
bókina Selling Sickness: how the world´s biggest pharmaceutical
companies are turning us all into patients (Að selja sjúkdóma:
Hvernig stærstu lyfjafyrirtæki heimsins breyta okkur í sjúklinga).
Á heimasíðu alþjóðasamtaka neytenda, undir www.marketingover
dose.org, má sjá grínauglýsingar og myndskeið sem gerð voru
í kjölfar frétta um tilvist letisjúkdómsins. Einnig er hægt að sjá
auglýsingarnar á Youtube. Markmiðið með herferðinni Marketing
Overdose er að berjast geng óábyrgri markaðssetningu á lyfjum.
BP
Leti - sjúklegt ástand?
Á ársfundi alþjóðasamtaka neytenda (Consumers International)
árið 2007 var sjúkdómavæðingin eitt meginumræðuefnið.
Samtökin hafa áhyggjur af þróuninni og telja að markaðs
setning lyfjafyrirtækja sé óábyrg og ósiðleg. Samtökin vilja að
sett verði lög sem banna lyfjafyrirtækjum að útdeila gjöfum
til lækna. Slíkt hefur ætíð tíðkast en lyfjafyrirtækin eiga
mikið undir því að læknar ávísi „réttu“ lyfjunum. Þá krefjast
samtökin þess að allar upplýsingar um styrki lyfjafyrirtækja til
hagsmunahópa sjúklinga (patient groups) séu uppi á borðinu.
Þá má nefna að neytendasamtök í Evrópu eru alfarið á móti
því að auglýsingar á lyfseðilskyldum lyfjum verði leyfðar eins
og tíðkast t.d. í Bandaríkjunum.
1 NEYTENDABLA‹I‹ 3. TBL. 2009