Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.06.2008, Blaðsíða 13

Neytendablaðið - 01.06.2008, Blaðsíða 13
Jóhannes Gunnarsson forma›ur Neytendasamtakanna Hverju breytir aðild að ESB fyrir neytendur? Á það hefur ítrekað verið bent að stuðningur við aðildarumsókn að Evrópusambandinu (ESB) sé alltaf mjög mikill þegar illa árar í íslensku efnahagslífi og að sá stuðningur minnki jafnan þegar betur gengur. Það kemur því ekki á óvart að nýlegar kannanir sýna að mikill meirihluti Íslendinga vill að við undirbúum ESB-umsókn. En það dugar ekki að horfa til skamms tíma í þessu stóra máli. Það er mikilvægt að upplýst umræða fari fram um kosti og galla aðildar og að aðildarumsókn yrði þá fyrst send þegar við höfum sett okkur samningsmarkmið, það er mótað hugmyndir um hverju við teljum mikilvægt að ná fram í slíkum viðræðum. Sem lið í upplýstri umræðu létu Neytenda- samtökin Evrópufræðasetrið við Háskólann á Bifröst vinna fyrir sig skýrslu um það hverju aðild að ESB myndi breyta fyrir íslenska neytendur. Rétt er að taka fram að með þessari skýrslu eru Neytendasamtökin ekki að taka afstöðu til þess hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Neytendasamtökin vilja hins vegar leggja sitt að mörkum til að fram fari opinská og málefnaleg umræða um kosti og galla slíkrar aðildar og er skýrslan framlag sam- takanna til þeirrar umræðu. Skýrslan sýnir að hagsmunum neytenda er best borgið með því að Ísland gerist aðili að ESB. Þannig segir m.a. í helstu niðurstöðum: • Með aðild að ESB yrði Ísland um leið aðili að tollabandalagi ESB. Því myndu þeir tollar sem enn eru milli Íslands og ESB- landanna falla niður og munar þar mestu um landbúnaðarvörur. Þetta myndi skila sér í lægra verði á þessum vörum. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu í sumum tilvikum hækkað. • Með aðild að tollabandalaginu myndu netviðskipti við fyrirtæki innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum. • Ljóst er að samhliða aðild þyrfti að endurskipuleggja íslenskan landbúnað á sama hátt og Svíar og Finnar gerðu áður en þessi lönd gengu í ESB. Draga þyrfti úr stuðningi við íslenskan landbúnað en nú er sá stuðningur með því hæsta sem gerist. Sé hins vegar tekið mið af þeim samningum sem Finnar náðu fram er ljóst að við eigum góða möguleika á að ná samningum varðandi stuðning við innlendan landbúnað þar sem allt Ísland fellur undir skilgreiningu um landbúnað á harðbýlu svæði eða heim- skautalandbúnað. Vegna þessa eru mögu- leikar á að fá meiri styrki til íslensks landbúnaðar frá ESB en lönd sunnar í álfunni fá. Einnig er mögulegt að íslensk stjórnvöld fengju heimild til að styrkja landbúnað sinn meira en önnur lönd inn- an ESB mega gera. • Talið er að matvælaverð geti lækkað um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB. • Með aðild að myntbandalagi ESB má gera ráð fyrir að vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert. Erfitt er hins vegar að segja til um hve mikil sú lækkun yrði. Minnt er á að hvert prósentustig hefur mikla þýðingu fyrir heimilin. • Með aðild að ESB og myntbandalaginu myndi viðskiptakostnaður lækka og ætti slíkt að leiða til lægra vöruverðs. • Ætla má að með aðild myndu viðskipti og fjárfestingar erlendra aðila aukast hér á landi og þar með yrði samkeppnin meiri. • Með aðild að ESB gætu Íslendingar sótt í ýmsa sjóði sem ekki er mögulegt að sækja í sem stendur. Þar má nefna sjóði til styrktar landbúnaði og byggðamálum. Einnig yrði samstarf við lönd ESB öflugra á ýmsum sviðum, eins og í mennta- og menningarmálum, rannsóknum og félagsmálum. Lögð er áhersla á að hér er fyrst og fremst horft til þröngra hagsmuna neytenda. Þannig kæmi fyrst með aðildarviðræðum í ljós hvaða samningum við gætum náð í landbúnaðarmálum þó svo að margt bendi til að þar væri hægt að ná ásættanlegri niðurstöðu. Það sama gildir um sjávar- útveginn en við vitum ekki fyrr en á reynir hvort ásættanlegir samningar bjóðast. Loks þyrftum við að gera það upp við okkur hvort við viljum framselja meira vald til Brussel en við höfum þegar gert með EES- samningnum. Það er hins vegar ljóst að hugsanleg aðild leysir ekki þann vanda sem nú er við að glíma í efnahagsmálum. Til að mynda vantar mikið upp á að við uppfyllum þau skilyrði sem ESB setur varðandi upptöku evru. Skýrsla Neytendasamtakanna er hins vegar mikilvægt lóð á vogarskálina til að efla upplýsta uppræðu um hvort við teljum að sækja eigi um aðild að ESB eður ei. Enda var það tilgangurinn með gerð hennar. 13 NEYTENDABLA‹I‹ 2. TBL. 2008

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.