Morgunblaðið - 27.01.2015, Side 22
FRÉTTASKÝRING
Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
Líkt og fram hefur komiðhér í Morgunblaðinu yfir-tóku nýju viðskiptabank-arnir í október 2008 lán
úr gömlu bönkunum, eftir að þau
höfðu verið afskrifuð um 50% að
jafnaði. Afskriftirnar voru mismun-
andi, sum lánin voru afskrifuð um
lægri prósentu, 20% til 30%, önnur
um 100%, en eins og sjá má í stof-
nefnahagsreikningum nýju bank-
anna sem birtust hér á mbl.is sl.
föstudag voru afskriftirnar að jafn-
aði um 50%.
Víglundur Þorsteinsson, lög-
fræðingur og fyrrverandi stjórnar-
formaður BM Vallár, hefur haldið
því fram að það væri ólögmætt að
nýju bankarnir hafi innheimt lán
sín frá hruni, miðað við 100% verð-
gildi lánanna, ekki 50%.
Bankamenn vilja bíða með að
kveða upp úr með það hvort lög hafi
verið brotin. „Það á engum að koma
á óvart að banki sem kaupir kröfu
með afslætti haldi kröfunni allri til
streitu og leiti eftir því að inn-
heimta lánið 100%,“ segir viðmæl-
andi úr bankaheiminum.
Hann líkir þessu við, til þess að
skýra mál sitt, að maður fari á bíla-
sölu, og finni bíl sem honum finnst
álitlegur og vilji kaupa hann. Bíla-
salinn segi: Bíllinn er bilaður. Hann
fái hann því með góðum afslætti.
Bílakaupandinn geri síðan við bílinn
og selji aftur með ágætum hagnaði.
Þetta sé sambærilegt við það að
kaupa léleg lán, taka svo til í lána-
safninu og innheimta svo það há-
mark sem hægt er að ná.
„Það var aldrei hugsunin með
lagasetningunni að lán væru al-
mennt færð niður um 50% og ein-
ungis 50% af upphaflega láninu
væru svo innheimt, það gengur
aldrei upp,“ segir þessi bankamað-
ur.
Bendir hann á að í hvert sinn
sem kreppa eða efnahagsleg lægð
gengur yfir landið, heiminn í þessu
tilviki, gangi ekki upp að allir þeir
sem færu offari í fjárfestingum og
lántökum, fengju lán sín niðurfærð
um 50%.
Annar viðmælandi, sem þekkir
vel til setningar neyðarlaganna í
október 2008 og lagasetningarinnar
í mars 2009, bendir á að þegar
neyðarlögin voru sett í október
2008, búnir til nýir bankar og þeir
gömlu látnir falla í fangið á erlendu
kröfuhöfunum, hafi strax verið af-
skrifaðir um 7.500 milljarðar króna,
eins og margoft hefur komið fram
og kröfuhafarnir hafi neyðst til að
taka á sig. Með afskriftum hjá dótt-
urfélögum gömlu bankanna hafi
þessi upphæð losað 12 þúsund millj-
arða króna. Þessu vilji margir
gleyma.
Með neyðarlögunum hafi inn-
lán verið gerð að forgangskröfum,
og þar með hafi ríkissjóður getað
ábyrgst innlánin og þannig hafi
Tryggingasjóður getað borgað
kröfuhöfunum og þar með talið Ice-
save, vegna þess að hann eignaðist
kröfuna á móti í þrotabú Lands-
bankans.
Kvaðst hann rifja þetta upp
vegna þess að neyðarlögin hafi snú-
ist um gríðarlega háar tölur.
„Það stóð aldrei til og er ekki
hægt að segja þegar kröfurnar eru
seldar nýju bönkunum, eins og gert
var í október 2008, með ákveðnum
afskriftum að þar með mættu nýju
bankarnir ekki innheimta meira en
sem niðurfærða eða afskrifaða lán-
inu næmi. Nýi bankinn veit, þegar
hann yfirtekur lánin úr gömlu
bönkunum, að það eru þarna mikil
útlánatöp og afskriftir og úr þeirri
stöðu verður hann að vinna eins og
best hann getur,“ segir hann.
Innheimtan á ekki að
koma neinum á óvart
Morgunblaðið/Golli
Bankar Bankamenn telja að 100% innheimta útlána, eftir að nýju bank-
arnir tóku til starfa, hafi ekki átt að koma nokkrum manni á óvart.
22
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 27. JANÚAR 2015
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Ekki skortisamstöðu
heimsbyggðar-
innar í kjölfar
hryðjuverkanna í
París. Stuðnings-
yfirlýsingar bár-
ust úr ýmsum óvæntum áttum
við tjáningarfrelsið.
Á meðal þeirra sem sendu
frá sér kveðjur vegna árás-
arinnar voru Sádi-Arabar, en
þó liðu varla tveir dagar frá
voðaverkunum þar til yfirvöld
í Ríyadh ákváðu að rétti tím-
inn væri kominn til þess að
refsa bloggaranum Raif Ba-
dawi fyrir að hafa „móðgað
íslam“. Refsingin var eitt þús-
und svipuhögg yfir lengri
tíma, fimmtíu í senn, auk tíu
ára fangelsisvistar. Hefur Ba-
dawi tekið út einn skammt af
refsingunni, en nú er óvíst um
framhaldið, meðal annars
vegna þrýstings erlendis frá,
að því er virðist.
Og hvernig móðgaði Badawi
íslam sem trúarbrögð? Hann
leyfði sér að mæla
með því að rík-
isvald og trú yrðu
aðskilin í meira
mæli í arabaheim-
inum en gert er
nú, og gagnrýndi
ríkjandi stjórnvöld í Sádi-
Arabíu. Hann mælti einnig
með auknu frjálslyndi í einu
ófrjálsasta landi heims.
Það er ekki að ófyrirsynju
að mál Badawis hefur vakið
athygli heimsbyggðarinnar á
hinu ömurlega réttarfari í
Sádi-Arabíu og skorti á
mannréttindum þar í landi.
Vonandi átta Sádar, og aðrir
sem voru fljótari til að for-
dæma voðaverkin í París en í
eigin bakgarði, sig á því að
heimsbyggðin veitir því at-
hygli sem gerist í slíkum ríkj-
um. Þau munu ekki njóta
þeirrar virðingar á alþjóða-
vettvangi sem þau hljóta að
vilja, nema láta af villimanns-
legum refsingum fyrir glæpi
sem engir eru.
Það er til lítils að
ganga um París ef
menn traðka á fólki
heima fyrir}
Tvískinnungur
Áhrif grískukosning-anna á þró-
unina í Evrópu eru
enn óljós. Leiðtogi
sigurvegaranna,
vinstri-sósíalista, er orðinn
forsætisráðherra. Kálið er
komið í ausuna, en fjarri því
sopið.
Forsætisráðherrann las
skoðanir væntanlegra kjós-
enda út úr mörgum birtum
könnunum. Þær virtust sýna
að fólkið í landinu vantreysti
Evrópusambandinu, hefði and-
úð á Þjóðverjum vegna meintr-
ar stýringar þeirra á harðræð-
inu, sem Grikkir töldu sig
sæta, en samt vildi aðeins um
fjórðungur þeirra úr evrunni.
Ótti við ógnir óvissunnar virt-
ust ráða mestu um það.
Leiðtogum ESB og stórríkj-
anna þar er vandi á höndum.
Þeir höfðu knúið Grikki til að
breyta skuldum óreiðumanna í
þjóðarskuldir grísks almenn-
ings. Nú tala þeir um að Grikk-
ir geti ekki hlaupist frá „ríkis-
skuldum.“ Láti þeir undan
nýrri grískri ríkisstjórn um
stórkostlega lækkun skulda,
mun það þegar kalla á sam-
bærilegar kröfur frá Spáni,
Portúgal og Írlandi og skapa
„freistnivanda“ fyrir Ítali,
Frakka og fleiri. Þvingi þeir
Grikki hins vegar út úr evr-
unni er það hættuspil. Ekki
vegna þess að evran sem slík
myndi ekki standa af sér brott-
för svo fámennrar
þjóðar. Færu
Grikkir hins vegar
og næðu sér til-
tölulega fljótt eftir
þann kostnað sem
þeir bera nú og viðbótarkostn-
aðinn sem felldur væri á þá,
yrði það mjög hættulegt for-
dæmi sem margir myndu
fylgja.
Helsta stuðningsafl Evrópu-
sambandsins í Grikklandi hef-
ur verið Pasok-flokkurinn,
sósíaldemókrataflokkur sem
Papandreou stofnaði 1974 og
náði meirihluta á þingi 1981 og
var síðan annar helsti valda-
flokkur Grikkja.
Papandreou yngri, sonur
stofnandans, tapaði öllu
trausti þegar hann hafði
ákveðið og tilkynnt þjóðar-
atkvæðagreiðslur um „til-
lögur“ AGS og ESB, en dró
ákvörðunina til baka að kröfu
Merkel kanslara og annarra
leiðtoga ESB. Eftir það átti
hann ekki viðreisnar von.
Fylgið minnkaði í hverjum
kosningunum af öðrum og í
kosningunum nú tapaði Pasok-
flokkurinn, undir forystu Ve-
nizelosar fjármálaráðherra, 20
þingmönnum og fékk aðeins 13
þingmenn af þeim 300 sem
skipa þingið. Klofnings-
framboðs Papandreousar,
fyrrverandi forsætisráðherra,
náði ekki manni inn á þing.
Meiri gat niðurlægingin ekki
orðið.
Oft er vandspáð í
spil stjórnmála, og
sérlega flókið nú}
Getur grískur harmleikur
loks endað vel?
Þ
egar ég var 16 ára gömul bar ég
vitni fyrir Héraðsdómi Reykja-
víkur gegn fullorðnum karlmanni
sem beitti vinkonu mína kynferð-
islegu ofbeldi.
Uppfull af réttlátri reiði og ungæðislegu
sjálfsöryggi settist ég inn og óðamála baun-
aði ég út úr mér öllu sem ég vissi á meðan
hinn ákærði og lögfræðingurinn hans horfðu
á mig glottandi út í annað. Glottin espuðu
upp reiði mína og eftir á að hyggja átti þetta
háttalag líklega einmitt að koma mér úr jafn-
vægi. Á meðan ég bar vitni sat faðir minn
fyrir utan herbergið og gerði sitt besta til að
hughreysta unga móður sem átti að bera
vitni um ódæðisverk mannsins gagnvart sex
ára dóttur hennar. Ég get ekki ímyndað mér
hvernig henni hefur liðið að mæta níðingnum
augliti til auglitis.
Sama hversu erfitt það var fyrir konuna neyddist
hún til að mæta ódæðismanninum í réttarsal. Það gildir
nefnilega einu þó að ungt barn hlaupi hálfnakið og há-
grátandi út af heimili vinkonu sinnar um miðja nótt svo
hálft hverfið vaknar, sekt þarf að sanna fyrir rétti.
Sem betur fer þurfa flest barnung fórnarlömb kyn-
ferðisbrotamanna ekki að horfast í augu við þá þegar
þau segja sögu sína. Önnur vitni, eldri en 15 ára, eru
hinsvegar skylduð til að mæta í réttarsal. Táningunum
er kippt inn í heim sem jafnvel flestir fullorðnir þekkja
aðeins úr sjónvarpsþáttum og látin horfast í augu við
misindismenn.
Þetta á til að mynda við um þrjár 17 ára
stúlkur sem vitni urðu að meintri árás
manns, sem lögregla telur mjög hættulegan,
á strætisvagnsstjóra. Forráðamenn stúlkn-
anna fóru fram á að sakborningurinn yrði
ekki viðstaddur í réttarsalnum þegar vitna-
leiðslur færu fram en bæði Héraðsdómur og
Hæstiréttur hafa hafnað kröfunni. Orðrétt
segir í niðurstöðu Héraðsdóms: „Ekki verð-
ur af gögnum málsins ráðið að nærvera
ákærða geti orðið nefndum vitnum sér-
staklega til íþyngingar.“
Það merkilega er að gögn málsins eru af-
ar skýr. Stúlkurnar segjast vera hræddar,
afhverju ekki að trúa þeim? Flestum þykir
ótti þeirra eflaust afar rökréttur og rök-
réttur eður ei þá er hann greinilega til stað-
ar og getur haft slæmar afleiðingar. Málið
snýst ekki bara um hvort þær eru í líkamlegri hættu
eða jafnvel hvort nærvera sakbornings muni hafa áhrif
á vitnisburð þeirra. Málið getur nefnilega haft slæmar
andlegar afleiðingar fyrir stúlkurnar, rænt þær svefni
og sálarró og raskað skólagöngu þeirra.
Áfallastreituröskun er lúmskur andskoti.
Fólk undir 18 ára aldri er börn í flestum skilningi
laganna og eitt helsta hlutverk samfélagsins hlýtur að
vera að vernda börn og tryggja þeim góða framtíð.
Fyrir mér ætti réttur barna til óttalausrar tilveru að
trompa rétt fullorðins og hættulegs manns til að horfa
framan í þrjár 17 ára stelpur í dómsal.
annamarsy@mbl.is
Anna Marsibil
Clausen
Pistill
Rétturinn til augnsambands
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen
Viðmælendur Morgunblaðsins
hafa ekki viljað kveða upp úr um
það hvort ásakanir Víglundar
Þorsteinssonar fái staðist.
Þannig sagði Sigmundur Davíð
Gunnlaugsson forsætisráðherra
hér í Morgunblaðinu á laugar-
dag: „Gögnin gefa til kynna að
málið sé mjög alvarlegt, en þó
vill maður ekki vera með miklar
yfirlýsingar fyrr en við höfum
skoðað málið betur og jafnvel
leitað eftir aðstoð sérfræð-
inga.“
Og Brynjar Níelsson, varafor-
maður stjórnskipunar- og eftir-
litsnefndar Alþingis, sagði í
sama blaði: „Spurningin er: Var
í einhverjum tilvikum farið á
svig við lög? … Það eru ákveðin
atriði sem ég mun tilgreina í
skýrslu minni, sem ég tel eðli-
legt að verði skoðuð nánar,
hvort farið var eftir settum
reglum og hvort mistök voru
gerð sem hafa haft alvarlegar
afleiðingar.“
Bíða skýrslu
Brynjars
ÓLJÓS AFSTAÐA