Húnavaka - 01.05.1979, Page 12
SIGURÐUR ÞORBJARNARSON:
Þrjár konur,
þrjóska og bækur
Viðtal við Jakob B. Bjarnason, Síðu.
Ég hef lagt undir mig stól hans og skrifborð, sjálfur situr hann til
hliðar við mig í svefnsófa sínum.
Herbergið er ekki stórt, en yfir því sá sérstæði friður og hlýja, sem
fylgir bókum, en hér eru bækur hvert sem litið er. Má raunar segja að
hvergi sé hægt að drepa niður fingri fyrir bókum. Þær þekja veggina
og þær eru í stöflum á gólfi og húsgögnum. Þær eru fallegar þessar
bækur og bera með sér að um þær er fjallað af umhyggju og virðingu,
jafnvel ástúð. Sumar eru fornar, geyma innan spjalda, fræði löngu
genginna kynslóða, — eru margra alda gamlar, aðrar eru yngri, en
öllum er þeim það sameiginlegt að vera eiganda sínum meira en
hýbýlaprýði eða verðmæt eign.
Þær eru honum félagar og vinir, þær geyma hver og ein stærri eða
minni hluta síns höfundar, sem gengur fús til fylgilags við opinn og
áhugasaman lesanda. Þær eru honum nægtabrunnur fjölbreytilegs
fróðleiks. Þær eru uppfylling draums, sem æskumann dreymdi um
menntun — bóknám, sem kröpp kjör héldu þá utan seilingar. Hann
hefur ærnar ástæður til að fara hlýjum, nærgætnum höndum um
bækurnar sínar.
Kannski er hann að einhverju leyti svar við þeirri spurningu sem
mörgum hefur orðið áleitin; hver var eðlisgerð þeirra nafnlausu
manna, sem þrátt fyrir örbirgð, kulda og myrkur margra liðinna alda,
björguðu íslenskri þjóðerniskennd með sköpun og varðveislu forn-
bókmenntanna og síðan skráningu margháttaðra þjóðlegra fræða?