Húnavaka - 01.05.1979, Síða 13
HÚNAVAKA
11
Það var bókin, sem bjargaði íslenskri tungu, og það var tungan, sem
gerði fólkið er hér þraukaði að þjóð.
Hann er nú aldinn að árum, með festu og ró dýrkeyptrar reynslu í
svip og fasi, og sýnileg ör mikilla sára, sem hann hefir hlotið í baráttu
við óviðráðanlegan og miskunnarlausan sjúkdóm.
Það stríð hefir staðið í áratugi, og er ekki fullháð enn. Samt er þessi
aldni garpur óbugaður andlega, með furðulega trútt minni og vakandi
löngun til þekkingarleitar og fræðiiðkana.
Þessi maður heitir Jakob Benedikt Bjarnason og hefur um langan
aldur „gert garðinn frægan“ að Síðu á Refasveit, með söfnun bóka og
iðkan sögulegra fræða.
Orsökin til setu minnar nú, í stól Jakobs við skrifborðið hans, er sú,
að á nýliðnu hausti var ég staddur á Síðu þeirra erinda að herma upp
á hann loforð mér gefið fyrir alllöngu, þeirrar veru að ég mætti skrifa
upp úr fræðasyrpum hans ábúendatal Geitaskarðs, en ábúendaskrár
hefur hann unnið fyrir öll byggð ból, og óbyggð raunar líka, í
hreppnum.
Mér reyndist uppskriftin seinunnin, svo fjölvís er maðurinn að
samræður okkar spunnust til óhæfilegrar lengdar, auk þess sem í
bókasafni hans eru margir kjörgripir, sem um þurfti að spyrja og
handfjalla. Líka voru margvísleg skrifuð fræði hans svo forvitnileg að
ekki varð fram hjá þeim gengið, án þess að hnýsast í þau að nokkru.
Af þessum sökum var dagurinn hlaupinn áður en varði og mál að
snúa til heimaáttar. En áður en ég kvaddi spurði ég Jakob, hvort ég
mætti koma síðar og fá hjá honum svör við nokkrum spurningum, sem
fest yrðu á blað til birtingar á prenti við tækifæri.
Hann varð seinn til svars. Sagði svo að hvorutveggja væri, að smátt
væri að tjá og svo hefði fyrir 12 árum birtst viðtal við hann í þekktu
tímariti (H.E.B. okt. 1966) og nær sér en þar væri farið vildi hann helst
engum sleppa. Samt fór svo að lokum að loforð fékkst um spjall síðar,
með þeim fyrirvara að lengra en okkar í milli færi ekki annað en það,
sem hann samþykkti.
Og hér sit ég nú, þess albúinn að hlýða á og festa á blað, það sem
Jakob kann að hafa að segja okkur, mér og þér lesandi góður, af sér og
sínum högum. En áður en hann hefur sitt mál, tel ég eðlilegt að gera
stuttlega grein fyrir þeim kynnum, sem ég hef haft af honum til þessa.