Húnavaka - 01.05.1979, Side 21
HÚNAVAKA
19
mín og fötlun bundu mig heima. En ég var í bréfasambandi við menn
víða um land og átti ágæt skipti við marga.
Safn mitt telur nú um 6000 bindi og þá meðtaldir bæklingar. f þessu
sambandi er mér auðgerð játning, að viljandi held ég að engu blaði
hafi verið fleygt hér á heimilinu á tíð okkar Elinborgar, sem kallast gat
heild, hversu smátt sem það var, og hvort heldur það var prentað eða
skrifað.
Mjög oft var það erfiðleikum bundið að hafa upp á og eignast
bækur, hefti og blöð, sem vantaði inn í heildir, sérstaklega var allt
gamalt orðið torfengið. En hér sem annars staðar var Elinborg mér
styrk stoð. Þegar hún fór til Reykjavíkur var hún iðin að leita að því
sem mig vantaði, hjá fornbóksölum, og ávallt hafði hún upp á ein-
hverju til að fylla í skarð.
Þess skal getið hér að fyrr á árum sætti ég nokkru ámæli vegna
áhuga míns á söfnun bóka. Þótti ýmsum, sem ég gæti varið fjármun-
um mínum betur en til bókakaupa, eins og kringumstæðurnar voru.
Þetta viðhorf gat átt rétt á sér hefði ég notað fé af öðrum þegið til
kaupanna. En þrátt fyrir nokkurn fjárhagsvanda á stundum, því ekki
hafði ég annað handa á milli en eigið aflafé, þá varð mér bónarveg-
urinn aldrei auðgenginn. Og satt að segja þá fannst mér ég engan
þurfa að spyrja, fyrst sá eini, sem fyrir þessa áráttu mína gat liðið,
konan mín, stóð við hlið mér og studdi mig í þessu sem öðru.
Allmiklu safni blaða og tímarita hafði ég komið upp, og var þó
aðstaða til þess óhæg sökum plássleysis. En árið 1968 var ákveðið að
bjóða það Landsbókasafninu að gjöf, og var það þegið með þökkum af
landsbókaverði, Finnboga Guðmundssyni.
Voru safninu sendir blaðapakkar næstu árin, eftir því sem mér
vannst í athugun á því hvort i vantaði. Er nú búið að senda nokkuð á
annað tonn af blöðum og dálítið er eftir enn, sem síðar verður sent.
Finnbogi landsbókavörður hefir alla tið verið mér mjög velviljaður og
hjálplegur með útvegun bóka, bókband o.fl., og ekki ætíð tekið gjald
fyrir. Sama gegndi um forvera hans í starfi, Finn Guðmundsson.
Áður en þessi frásögn mín er öll, tel ég rétt að fram komi að þegar
harðast var að okkur hjónunum sorfið vegna heilsufars míns og þröngs
fjárhags á kreppuárunum, þó kom til tals okkar á milli sá möguleiki að
bregða búi og reyna nýjar leiðir og auðveldari. Við ræddum þetta
ítarlega og frá öllum hliðum, og niðurstaðan varð ákvörðun um að
halda búskapnum áfram. Við vorum börn sveitarinnar og þekktum