Húnavaka - 01.05.1979, Page 31
HÚNAVAKA
29
— Það var eiginlega talsvert starf, sem aðallega fólst í því að halda
uppi reglu í skólanum, m.a. á heimavistinni. Sérstakur umsjónar-
maður var síðan í hverjum bekk, en skólaumsjónarmaðurinn var
einskonar yfirumsjónarmaður, sem átti að gæta þess að skólareglum
væri hlýtt.
Starfið var hins vegar auðvelt af því að í skólanum var samstæður
hópur og þangað voru allir komnir til þess að læra, en enginn til þess
að slæpast.
Stunduðuð þið íþróttir í skólanum?
— Já Bjarni Bjarnason, síðar skólastjóri á Laugarvatni kenndi
okkur bæði glímu og ýmsar aðrar íþróttir. En auk þess fórum við
gjarnan á kvöldin og fengum okkur sundsprett í sjónum. Ekki létum
við það á okkur fá þótt frost væri enda vöndumst við kuldanum.
Var margt góðra kennara í Flensborg á þessum árum?
— Já, kennarar voru allir afbragðs góðir. Sérstaklega minnist ég
Ogmundar Sigurðssonar skólastjóra, sem var mjög góður kennari.
Einnig vil ég nefna Lárus Bjarnason, sem síðar varð kennari á Akur-
eyri og loks skólastjóri í Flensborg.
Lárus var mikill áhugamaður um að ég færi í menntaskóla og tæki
stúdentspróf. Einnig lagði hann að Sveinbirni Högnasyni, sem síðar
varð prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, að fara í menntaskóla. Hugir
okkar Sveinbjörns stefndu þó frekar að kennslustörfum og höfðum við
áhuga á að fara í kennaraskólann. En niðurstaðan var að við ákváðum
að fara í menntaskóla.
Lárus var okkur mjög hjálplegur og kenndi okkur mikið aukalega
síðasta veturinn í Flensborg. Síðan tókum við inntökupróf í Mennta-
skólann i Reykjavík um vorið. Áður hafði verið venja að nemendur úr
Flensborg, sem ætluðu í menntaskóla læsu utan skóla einn vetur að
loknu námi í Flensborg og þreyttu síðan inntökupróf. Síðar fóru
margir nemendur þessa leið, en auk okkar Sveinbjörns tók Magnús
Kristinsson skólabróðir okkar inntökupróf um leið og við. Vorum við
því brautryðjendur á þessu sviði.
Hvernig gekk þér að hafa nœga þeninga fyrir skólagöngunni?
— Ég vann öll sumur og þegar ég var kominn í háskóla stundaði ég
kennslustörf með náminu. Námslán voru ekki þekkt á þessum árum,
en örlítinn námsstyrk fékk ég þó í háskóla.