Húnavaka - 01.05.1979, Page 39
HÚNAVAKA
37
Ég hafði fólk til að sjá um búskapinn. T.d. kom ég aldrei nærri
hirðingu sjálfur, en á sumrin tók ég stundum í verk. Sem dæmi get ég
nefnt að ég tók alltaf á móti heyjunum sjálfur og kom þeim fyrir í
tóftunum, og einnig markaði ég lömb og folöld.
Nú var mikill heyskapur á Steinnesengjum austan Vatnsdalsár. Var það ekki
erfiður heyskapur?
— Það læt ég vera, en það var mikill og góður heyskapur á engjun-
um. Það þurfti ekki mjög mikla sprettu til þess að fá um tvö þúsund
hestburði af heyi á Steinnesengjum. Fyrri búskaparár mín lét ég ferja
allt heyið vestur yfir ána, en síðar var ég farinn að láta aka því á
vögnurn fram á Hnausabrú. Það þurfti mikinn mannskap til að vel
gengi að binda og flytja heyið heim. Afköstin fóru aðallega eftir
dugnaði bindingsfólksins, en þeir, sem fluttu að ánni og frá, máttu
heldur ekki láta sitt eftir liggja, og ferjumaðurinn varð líka að standa
fyrir sínu. Ég minnist þess að það kæmust heim 200 hestburðir á dag,
en það voru hámarksafköst:
Þú varst snemma kosinn í hreppsnefnd. Hvernig fannst þér að fást við sveitar-
stjórnarmál?
— Ég var kosinn í hreppsnefnd í fyrstu kosningum eftir að ég kom í
Steinnes og átti sæti i sveitarstjórn allt þar til ég flutti frá Steinnesi
1967. Ég hafði alla tið mikla ánægju af því að fást við sveitarstjórnar-
mál og vann þar með hinum mætustu mönnum.
Málin sem komu til meðferðar hjá hreppsnefndinni voru svipuð alla
tíð. Fjallskil og skólamál voru fastir liðir og á hverju ári lögðum við
útsvör á hreppsbúa. Á fyrstu árum mínum í hreppsnefnd var nokkuð
um útsvarskærur, en minna á síðari árunum.
Á fyrri árum mínum þurfti hreppsnefnd að sjá um þurfalinga, koma
þeim fyrir á bæjum og sjá þeim farborða. Vel gekk að koma börnum
fyrir á bæjum, en erfiðara var með þá fullorðnu, sérstaklega ef um
sjúklinga var að ræða.
Fólk reyndi nú í lengstu lög að komast hjá því að segja sig til sveitar,
en stundum átti það ekki annars úrkosta. Á þessum árum var lítið um
tryggingar. Sveitirnar áttu svolitla sjóði, sem veitt var úr til bág-
staddra. Ekki var þó um mikla styrki að ræða, fremur að veittur væri
smáglaðningur fyrir jólin.