Húnavaka - 01.05.1979, Page 52
50
HÚNAVAKA
leikstjórar. I Ævintýri á gönguför urðum við að sækja mann framan úr
sveit í eina skiptið. Við fengum vetrarmanninn á Þingeyrum, Ottó
Þorvaldsson síðar í Víðimýrarseli. Hann gekk oftast á ís yfir Húnavatn
og var sóttur á bíl fram að Stóru-Giljá og svo fluttur þangað aftur. Það
var mikið á sig lagt.
Hann hafði aldrei leikið áður en hafði ágæta söngrödd og ómetan-
legt að fá hann með í þetta skipti. Þeir léku stúdentana saman hann og
Hjálmar Eyþórsson.
Þorgerður Sæmundsen lék með okkur — skínandi vel — oft hlut-
verk þar sem þurfti að syngja, t.d. Guðnýju í Lénharði fógeta, og Ásu í
Skugga-Sveini.
Árið 1948 er Fræðslu- og skemmtivika Húnvetninga, sem síðar var
kölluð Húnavaka, haldin í fyrsta skipti. Þá sýndum við Mann og
konu, og upp úr því þessi íslensku leikrit — Lénharð fógeta, Skugga-
Svein, Hallstein og Dóru, Úlfhildi og svo talsvert af þýddum leikrit-
um.
Leikritaval hvíldi mikið á herðum Tómasar en þó var alltaf mikið
samstarf um það. Yfirleitt gekk vel að fá fólk til að leika þegar vantaði
í hlutverk.
Þegar við vorum að æfa Mann og konu vantaði lengi Sigrúnu og
voru miklar bollaleggingar um hvaða manneskju ætti að fá í það
hlutverk. Allt í einu datt mér í hug tilvalin manneskja, snaraðist inn á
spítala og talaði við Boggu — Þorbjörgu Andrésdóttur frá Síðumúla
— hún var hjúkrunarkona hér þá og hjálpaði okkur mjög vel í þetta
skipti. Þegar við lékum Mann og konu átti einn af vinnumönnum
Sigurðar í Dal að kveða á kvöldvökunni og allir að taka undir. Þá vildi
svo til á einni sýningunni að bókin með kvæðinu hafði gleymst frammi
og maðurinn gat ómögulega byrjað af því að hann hafði ekki bókina.
Þá sagði Þórdís húsfreyja, sem Ósk Skarphéðinsdóttir lék: „Vill ekki
smalinn fara fram og sækja bókina sem liggur á búrhillunni“. Þar með
var þeirri sýningu bjargað.
Það þarf stillingu til að bjarga svona hlutum — í þessu tilfelli þurfti
enginn að svara. En ef einhver hefur sleppt einhverju úr er ekkert
spaug að bjarga málunum. Við óvant fólk getur verið erfitt að leiðrétta
slíkt, því það getur farið úr jafnvægi, jafnvel þótt maður haldi sig geta
það. Þá er jafnvel betra að hlaupa yfir.
Mikið átak var að leika svona stórt stykki í gamla Samkomuhúsinu.
Það voru margar sýningar. Guðmundur í Ási var þá formaður Ung-