Húnavaka - 01.05.1979, Side 55
HÚNAVAKA
53
áfram. En þá kom í ljós að maðurinn, sem átti að koma inná, hafði
skroppið út í Bakarí til þess að fá sér hressingu.
Leikfélagið byggðist upp af kjarna fólks, sumt hafði leikið með
gamla leikfélaginu, og aðrir með ungmennafélaginu. Það er aðili að
Sambandi íslenskra leikfélaga og nýtur þar ýmissar fyrirgreiðslu, svo
sem við hárkolluleigu, útvegun á leikritum og ýmsum búnaði. Einnig
hefur Þjóðleikhúsið aðstoðað með leigu á búningum og leikmunum.
Leikfélagið á núorðið dálítið af búningum leiktjöldum og öðrum
sviðsbúnaði, og hefur það heldur aukist með árunum.
Yfirleitt hefur fjárhagur félagsins staðið í járnum, vinna leikara og
starfsmanna hefur alltaf verið gefin. Kostnaður er einkum húsaleiga,
búningar og efni í leikmynd.
Venjulega var byrjað að æfa fyrir áramót og leikritin tilbúin til
sýningar síðari hluta vetrar. Gengu æfingar yfirleitt vel og mátti segja
að flestir bæjarbúar fylgdust með gangi mála. Mörg kvöld var okkur
fært kaffi og góðgæti af konum í þorpinu og einnig var Snorri heitinn
Arnfinnsson ávallt reiðubúinn að láta okkur allt í té sem hann gat. Oft
byrjuðum við að lesa saman á Hótelinu, fengum að vera í Hljómskál-
anum endurgjaldslaust. Vanalega var æft á hverju kvöldi og þótti
sjálfsagt. Við komumst af með fæstar æfingar á Svefnlausa brúðgum-
anum, þær urðu 17 talsins.
Tvisvar kom það fyrir að rafmagnið fór af í miðri sýningu. I annað
skiptið var kastari tengdur við bílrafgeymi, en í hitt skiptið var notað
kerti og lampaljós. Kerti var komið fyrir á borði en maður, sem sat við
það, þurfti oft að berja í borðið til þess að leggja áherslu á orð sín og þá
slokknaði á kertinu. Kristín Finnsdóttir lék vinnukonu og mátti hún
alltaf vera á þönum til þess að kveikja. Síðan var safnað saman kertum
og lömpum og sett upp á skápa og borð. Fólkið tók svona töfum vel og
sýndi stillingu.
Eitt árið vorum við búin að æfa stórt leikrit, þá kom innflúensa í
héraðið og sett var á samkomubann. Okkur var leyft að sýna einu
sinni, aðeins fyrir Blönduósinga svo litið hafðist upp úr því. Þetta sýnir
að stundum var til lítils barist.
Ekki má gleyma þætti Stefáns Þorkelssonar en hann handskrifaði
flest hlutverk fyrir leikendurna. Einnig sá Stefán um leiktjaldasmíði,
hann hafði mikinn áhuga á leiklist þótt hann léki aldrei.
Guðrún Einarsdóttir var ágætur leikari og góður félagi og hafði
gaman af að leika. Þegar við sýndum Hallstein og Dóru voru mikil