Húnavaka - 01.05.1979, Side 75
HÚNAVAKA
73
dágóður hagi. Á Víðidalnum, sem um var farið seinna í þessari ferð er
gróður einnig gróskumikill og afbragðs hagi að sjá fyrir búfé. Efstu
fjöll austan og norðaustan Víðidals eru þó nokkuð ber og á leið minni
um dalinn og raunar oft síðan hefi ég velt því fyrir mér hvernig þessi
fjöll hafi litið út fyrir þúsund árum, og helst hefi ég hallast að því að
þau hafi lengi verið þvílík sem nú er og bera nöfn margra þeirra þess
merki svo sem Skakkfell, Sandfell og Molduxi.
Frá áningarstað okkar göngum við austur úr skarðinu, um eða yfir
svokailaðan Þröskuld, en svo heitir þar sem Skarðið endar og Víði-
dalur tekur við en hann gengur þarna þvert á Skarðið. Víðidalur er
einn af þeim afkimum á landi hér, sem yfir sér hafa einhvern dular-
fullan Ijóma, eitthvað leyndardómsfullt, eitthvað huldufólkskennt.
Þannig er þessi Víðidalur og þannig er Víðidalur á Fjöllum, Víðidalur
í Lóni austur og e.t.v. eru þeir fleiri Víðidalir, sem í kring um sig hafa
einhverja dulúð, eitthvert fráhrindandi seiðmagn, ef svo undarlega er
hægt að komast að orði. Sagnir eru um forna byggð á Víðidal, jafnvel
á að hafa verið þar heil kirkjusókn, sumir tala um fjórtán bæi. Heldur
þykir það þó ósennilegt og leifar húsarústa ógreinilegar á dalnum og
þá helst á tveim stöðum austan megin ár að handfastar sagnir og
einhver kennileiti eru gamallar byggðar.
Mynni Litla-Vatnsskarðsins er allmiklu hærra en dalbotninn og við
sneiðum nú brekkuna niður á grundina meðfram ánni. Fylgjum þarna
gömlum götuslóða. Allmikil bleyta er í fjallinu en þegar niður að ánni
er komið eru þurrar grundir og greiðfært til gangs. Tvær þverár koma
úr tröllafjallgarðinum vestan Víðidals. Báðar eru þær straumharðar
og önnur það vatnsmikil að hún verður ekki vaðin í stígvélum. Hér
verður að bregða sér úr sokkum og draga buxur vel upp fyrir hné og
þannig er þessari hindrun rutt úr vegi, en það er lyginni líkt hve vatnið
er kalt enda runnið undan köldum rifjum trölla og forynja.
Víðidalur liggur því sem næst frá norðri til suðurs og eftir honum
rennur all vatnsmikil á, sem þar ber nafn eftir dalnum, en snögglega
beygir farvegur árinnar næstum níutíu gráður í austur og dalurinn
þrengist og hér er Víðidalur talinn á enda og þessi þrengsli, sem þá
taka við, heita Hryggjadalur. Rétt þar sem Víðidalsá beygir í austur
kemur önnur á vestan af heiðarbungunum og úr fjalladrögum og
sameinast Víðidalsánni. Yfir þessa á þurfum við að fara og hún verður
heldur ekki vaðin í stígvélum. Aftur er því gripið til þess að setja sokka