Húnavaka - 01.05.1979, Side 86
84
HÚNAVAKA
til nokkurs barns. Hjartans barn, var mjög venjulegt ávarpsorð þegar
hann talaði til barns og gerði sig þá mjög blíðan í málrómi. Öllum
börnum, sem tekin voru að vitkast, svo að þau hefðu yndi af sögum,
var hann mjög kær, þvi að hann kunni fjölda sagna og ævintýra:
Útilegumannasögur, huldufólkssögur og tröllasögur. Var þetta sótt
að mestu leyti í Þjóðsögur Jóns Árnasonar. Aldrei heyrði ég hann segja
börnum draugasögur, því hann vildi ekki vekja hjá þeim ótta.
Sögurnar sagði hann í rökkrinu og á sunnudögum, og mátti enginn
fullorðinn vera áheyrandi. Einu sinni kom faðir minn inn frá skepnu-
hirðingu í rökkrinu, og þegar hann heyrði, að Helgi var að segja sögu,
fór hann hljóðlega. Þegar ljósið var kveikt og hann sá pabba meðal
áheyrenda varð honum æði bilt við og hætti þegar frásögunni.
Málfar hans var mótað blæ }:>jóðsögunnar. Hann sagði aldrei sög-
urnar í ágripi, heldur eins og þulu eða ljóð án úrfellingar, og frásagan
niðaði eins og lækur, sem líður hjá með hægum straum.
Mér er ekki ljóst hvernig hann hefur numið þessar sögur, hvort hann
hefur heyrt þær sagðar eða lesið þær sjálfur. Hann var mjög stirðlæs,
en næmi hans var mjög gott og minnið trútt, enda sífelld upprifjun
sömu sagna.
Gott þótti Helga vín. Faðir minn, sem var mesti hófsmaður á vin,
gaf honum einu sinni, er hann kom úr kaupstað, nærri axlafulla hálfs
annars pela flösku af brennivíni. Helgi varð léttbrýnn við, setti stút á
munn sér og svalg vínið í löngum teygum, nuggaði magann með
vinstri hendinni og tautaði milli sopanna: „Ó, gott er það blessað.“ Og
hætti ekki fyrr en búið var úr flöskunni. En þótt Helga þætti vínið
gott, keypti hann aldrei flösku. Ef hann eignaðist nokkrar krónur, sem
sjaldan bar við, því að peningar voru verðmiklir og lítið í umferð fyrir
aldamót, gaf hann þá móður sinni eða systur, sem hann hafði yndi af
að gleðja. Einkum var það Coghill, enski sauðakaupmaðurinn, sem
dvaldist löngum á Stóru-Borg hjá Pétri vini sínum, er gaf Helga
peninga, og stundum munu hafa hrotið með gullpeningar.
Coghill var gamansamur og nokkuð stríðinn, en mesta góðmenni.
Helgi þoldi illa stríðni, og var Coghill þá fljótur að gera yfirbót og
henda í hann peningum. Helgi var fljótur að sættast — vissi, að engin
alvara fylgdi glensi hans og gamanmálum. Feimni Helga átti sér engin
takmörk. Hann mun hafa fundið sárt til vanmáttar síns og líkamslýta.
Þó heyrðist hann aldrei kvarta yfir ævikjörum sínum, hvað þá heldur
að hann öfundði þá sem hraustir voru. Hann viðurkenndi feimni sína