Húnavaka - 01.05.1979, Side 110
108
HÚNAVAKA
Gísli Sigurðsson er fæddur um 1738 og dáinn um áramótin 1779-80.
Hann hóf búskap i Holti vorið 1768, i tvíbýli við föður sinn og tók við
allri jörðinni 1772, en þá mun Sigurður hafa látizt. Guðrún Illuga-
dóttir býr í Holti eitt ár eftir mann sinn látinn, en flytur þá burtu úr
hreppnum og gerist húsfreyja á einu höfuðbóli sýslunnar. Að Holti
flytur þá frændi þeirra Holtsmanna, Bjarni Bjarnason frá Hrafna-
björgum, sem hafði þá i nokkur ár búið í tvíbýli við Jón Benediktsson
í Sólheimum. Voru þeir Gísli og Bjarni bræðrasynir.
Ekki er vitað til þess, að Gísli og Guðrún hafi átt annað barna en
Illuga. Flytja þau nú mæðgin upp að Holtastöðum og Guðrún giftist
bóndanum þar, ekkjumanninum Ólafi Guðmundssyni, bróður Björns
á Auðólfsstöðum, afa merkisprestsins Arnljóts Ólafssonar alþingis-
manns. Guðrún varð ekkja í annað sinn 1786 er Ólafur Guðmundsson
lézt úr bólusótt. Þau áttu ekki börn, sem lifðu. Þriðji maður Guðrúnar
Illugadóttur var Erlendur Guðmundsson frá Bakka i Vallhólmi,
bróðir séra Guðmundar Guðmundssonar á Undirfelli. Þau bjuggu
einnig á Holtastöðum. Dóttir þeirra var Ósk Erlendsdóttir, sem varð
húsfreyja í Sólheimum, kona Pálma Jónssonar. Þau voru því hálf-
systkin Ósk í Sólheimum og Illugi í Holti.
Illugi Gíslason ólst upp að Holtastöðum með móður sinni og stjúp-
um. Hann var ekki nema tvítugur (f. um 1776) þegar hann hóf búskap
á Eyvindarstöðum og eignaðist þá jörð hálfa. Bjarni Bjarnason náði
kaupum á Holti í Svínadal á Hólastólsjarðauppboðinu 1802 fyrir 312
rd. Hafði Illugi nú kaup við þá frændur sina Holtsfeðga, Bjarna
Bjarnason og Jón son hans. Flutti Illugi í Holt, en Jón hóf búskap á
Eyvindarstöðum, og er frá honum nánar sagt í þáttum þessum
(Húnavaka 1978, bls. 67-68).
Illugi í Holti varð stórbóndi og auðugur að löndum og lausum
aurum. Hafði hann árin 1816-32 jörðina Stóra-Búrfell í félagi við
Þorleif í Stóradal. Á þeim árum komst lausafjártíund hans upp i 46
hundruð, og varð bú hans með þeim allra stærstu í sýslunni.
Illugi giftist 14. maí 1799 þingeyskri konu, sem Þuríður hét Ás-
mundsdóttir (d. 26. júní 1837, 65 ára). Hún var frá Fjöllum í Keldu-
hverfi. Faðir hennar, Ásmundur Pálsson, býr enn á Fjöllum við
manntalið 1816, þá 83 ára. Hann hefir verið tvígiftur og er Þuríður
eftir fyrri konuna. Seinni kona Ásmundar, Kristbjörg Stefánsdóttir,
býr með gamla manninum 1816 og er talin 36 árum yngri en hann.
Eiga þau hjón alls 7 börn, sem eru á aldrinum 6-24 ára.