Húnavaka - 01.05.1979, Page 120
118
HÚNAVAKA
Þegar Jónas hætti búskap verður bóndi í Stardal Sigurður Guð-
mundsson tengdasonur Jónasar hreppstjóra á Breiðavaði Jóhannes-
sonar, en hann var kvæntur Sigríði dóttur hans. Sigurður Guð-
mundsson er fæddur í Reykjavíkursókn um 1830. Bjuggu þau hjón,
Sigurður og Sigríður, á Breiðavaði 1860-73, en þá fluttu þau búferlum
að Stardal. Börn þeirra urðu a.m.k. sex. Hafa niðjar þeirra síðan búið
í Stardal. Magnús Jónasson heitir hann sem þar býr nú, og er hann
þriðji liður frá Sigurði Guðmundssyni og Sigríði Jónasdóttur. Sumir
þeirra ættmenna hafa tekið sér ættarnafnið Stardal.
Aslaug hét systir Sigríðar frá Breiðavaði. Hún giftist Ara Arasyni
Hermannssonar. Bjuggu þau á Breiðavaði 1865-69 í tvíbýli við þau
Sigurð og Sigríði.
Móðir þeirra systra, Sigríðar og Áslaugar á Breiðavaði, var kona
Jónasar hreppstjóra Sigríður Vigfúsdóttir bónda á Þröm í Staðar-
hreppi og konu hans Valgerðar Jónsdóttur frá Skeggsstöðum og er það
hin alkunna Skeggsstaðaætt.
*
GÓÐI MATURINN OG MATLEYSAN
Eiríkur á Þursstöðum hélt lítið upp á kalfi og hafði mestu andstyggð á kaffibauna-
lykt. Brennivín kallaði hann góða matinn en kaffi matleysu. Þegar hann drakk kaffi
með brennivíni í, var hann vanur að þakka konunni fyrir líkamann en bóndanum
fyrir sálina.
Einu sinni drapst kind hjá Eiríki úr bráðapest. Tók hann þá kindina með öllu eins
og hún lá í haganum og hengdi hana upp á hornunum hjá rúmi sínu uppi á lofti; hékk
svo skrokkurinn þar í marga daga. Þá kom ókunnugur maður að Þursstöðum og bauð
Eiríkur honurn til baðstofu. Þegar maðurinn kom upp á loftið, ætlaði hann að kafna af
ódaun, sá pestarskrokkinn hanga þar og spurði hvernig á þessu stæði. „Eg ætlaði
aðeins að vita,“ svaraði Eiríkur, „hvort það gæti orðið eins vond lykt af henni,
kindinni þeirri arna, eins og af brenndum kaffibaunum."
Gríma.