Húnavaka - 01.05.1979, Síða 161
HÚNAVAKA
159
Þau hjón eignuðust þrjú börn. Þau eru: Ásgerður, sem er húsfreyja á
Hrísbrú i Mosfellssveit; Anna Ingibjörg, starfsstúlka að Tjaldanesi í
Mosfellssveit og Jón, sem hefur búið með foreldrum sínum undanfar-
ið.
Ingibjörg var jafnlynd kona og prúð í allri framgöngu. Kröftum
sínum beitti hún á heimili sínu og vann bæði utan húss og innan. Þá
var hún í kvenfélagi sveitarinnar. Þar sem annars staðar vann hún
störf sín með því jákvæða hugarfari, sem stærsta sigra vinnur.
Ingibjörg Þorleif var jarðsett að Svínavatni 9. des.
Langa stund lifir hún í minningu þeirra sem þekktu hana. En
jafnframt lifir hún sjálf fyllra lífi, sem við ekki sjáum. „Því að nú sjáum
vér svo sem í skuggsjá, — í óljósri mynd, — en þá augliti til auglitis.“
Sr. Hjálmar Jónsson.
Guðrún Teitsdóttir, ljósmóðir í Höfðakaupstað var fædd 26. október
1889 á Kringlu i Torfalækjarhreppi. Voru foreldrar hennar Teitur
Björnsson, bóndi á Kringlu, Ólafssonar. Kona Teits, móðir Guðrúnar,
var Elínborg Guðmundsdóttir systir Guðmundar á Torfalæk, föður
Páls Kolka, læknis. Þá voru þau og skyld að öðrum og þriðja, Guðrún
Teitsdóttir og Guðmundur Björnsson, landlæknir, frá Marðarnúpi í
Vatnsdal.
Foreldrum Guðrúnar, Teiti og Elínborgu, búnaðist vel á Kringlu og
ólst hún upp með þeim í sínum systkinahópi. Guðrún Teitsdóttir þótti
snemma tápmikil og bókelsk og kom í ljós að hún hafði erft hneigð
ættmanna sinna að vera nærgætin um menn og búfé. Fór hún því á
Ljósmæðraskólann i Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1915 með ágæt-
iseinkunn. Var það þá helzti menntavegur um þessa hluti, enda hafði
mörg ljósmóðirin gegnt mikilsverðu starfi um lækningar, þar sem
samgöngur voru torveldar og erfitt að ná í lækni.
Guðrúnu sóttist námið vel og lærði auk þess nokkuð í nuddlækn-
ingum. Að afloknu námi, fór hún heim til sinna átthaga og settist að á
Kringlu í stað þess að sækja um ljósmóðurumdæmi í fjarlægu héraði,
sem henni hefði verið innan handar. Enda giftist hún um þessar
mundir, 25. júlí 1915, Árna Kristóferssyni, frá Köldukinn. Bjuggu þau
á Kringlu til 1935, er þau fluttu í Höfðakaupstað. Þau hjón eignuðust