Dagblaðið Vísir - DV - 04.11.2009, Blaðsíða 14

Dagblaðið Vísir - DV - 04.11.2009, Blaðsíða 14
 Miðvikudagur 4. nóvember 200914 Bækur Æviminningar Mannsævi í MörguM lönduM Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, hefur víða kom- ið við á langri ævi. Hann fædd- ist og ólst upp í Reykjavík, nánar tiltekið fyrir vestan læk, en hélt ungur til náms vestur í Ameríku og dvaldist þar um nokkurra ára skeið, reyndar mun lengur en til stóð í upphafi. Að námi loknu lá leið hans til Parísar, þar sem hann starfaði um skeið hjá OEEC, eða Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, eins og hún hefur verið nefnd á íslensku. Eftir stutta dvöl í Reykjavík tók Einar við starfi á vegum utanríkisþjónustu Íslands í París og kom þá, auk annars, mjög að undirbúningi inngöngu Íslands í EFTA. Hann varð síðan sendiherra Íslands í mörgum löndum um liðlega tveggja ára- tuga skeið. Lengst hafði hann aðsetur í Lundúnum og París, en sendiherraferl- inum á erlendri grund lauk Einar vestur í Washington. Frásögn af starfsferlinum erlendis er meginstefið í endurminningum Ein- ars, enda kom hann, ýmist beint eða óbeint, að mörgum veigamestu málum í sögu íslenskra utanríkismála á síðari hluta 20. aldar. Þarna er margur góður fróðleiksmolinn og að minni hyggju hlýtur þessi bók að verða góður fengur öllum þeim, sem vilja fræðast um sögu íslenskra utanríkismála og -viðskipta á tímabilinu frá því eða skömmu fyrir 1960 og fram undir árþúsundamótin. Í 6. kafla bókarinnar fjallar Einar um föðurfólk sitt. Sú saga er öll hin fróð- legasta, ekki síst það sem segir af dapurlegum örlögum Svölu föðursystur hans og þýðingum á skáldskap afa hans, Einars Benediktssonar, á enska tungu. Í þessum kafla víkur hann einnig að ýmsu, sem skrifað hefur verið um Einar skáld á undanförnum árum og áratugum og gerist þá þungorðari en endra- nær. Ég get vel skilið gremju og sárindi Einars í þessu efni, en hygg að þrátt fyrir allt hafi að minnsta kosti sum þessara skrifa orðið til þess að auka áhuga á æviferli, hugsjónum og skáldskap Einars eldri. Að mínu viti nýtur hann nú einna mestrar virðingar allra íslenskra ljóðskálda síðari tíma, að Jónasi Hall- grímssyni einum undanskildum. Sjöundi kafli fjallar um ættingja höfundar suður á Nýja-Sjálandi og er magnþrungin frásögn af mannlegum örlögum. Þeim kafla hefði hins vegar mátt ritstýra eilítið betur en gert er. Hann er eiginlega lengd gerð af blaðagrein og stöku setningar í honum eru sem endurtekning á því, sem þegar hefur kom- ið fram framar í bókinni. Loks er í bókarlok fróðleg frásögn af viðfangsefnum höfundar eftir að hann lét af starfi sendiherra í Washington og fluttist heim. Öll er frásögnin í þessari bók einkar hófstillt og viðkunnanleg, auk þess að vera stórfróðleg. Bókin er prýdd allmörgum ljósmyndum og allur frágangur hennar er til fyrirmyndar. Jón Þ. Þór að skilJa heiMinn – æviMinningar sendiherra Einar BenediktssonHófstilltar og viðkunnan- legar endur- minningar. Útgefandi: Bókafélagið Ugla Ævisaga risapáskaegg í fallhlíf Ævisögur innihalda alltof oft lýsing- ar á lífshlaupi þar sem skáldskap- urinn ber veruleikann ofurliði. All- ir hafa eitthvað í pokahorninu sem þeim finnst erfitt eða jafnvel óbæri- legt að bera fram fyrir almenning. Og það er einmitt þar sem skilur á milli góðrar ævisögu og froðunnar sem ætlað er að fela raunveruleik- ann eða fegra hann. Það liggur í loftinu er í senn ævi- saga hjónanna Birnu Óladóttur frá Grímsey og Dagbjarts Einarsson- ar frá Grindavík og að hluta saga byggðarlaganna sem fóstraði þau. Höfundurinn, Jónas Jónasson, vef- ur þessa tvo þræði saman af snilld. Því er lýst með rómantískum hætti þegar leiðir turtildúfanna liggja saman. Þar er strax sleginn sá tónn að ástin er hvikul. Bráðskondin frásögn er af því hvernig Dagbjartur stýrimaður í Grindavík verður að vinna hug Birnu sem hafði fallið fyrir vélstjóra. Áður hafði vonbiðillinn tjáð ást sína með þeim afgerandi hætti að leigja flugvél frá Reykjavík til að senda þeirri útvöldu risastórt páskaegg sem hent var út í fallhlíf yfir Grindavík. Skömmu síðar voru þau hringtrúlofuð. Það er augljóst að Jónas Jónasson hefur fengið hjónin til að segja nánast allt um líf sitt og ástir. Eftir áralangt hjónaband kom babb í bátinn og þau Dagbjart- ur og Birna lýsa því þegar hann tók upp ástarsamband við vinkonu Birnu. Það komst upp þegar útgerðarmaðurinn kom heim að morgni í öfugum nærbuxun- um. Hjónin lýsa þeim ólgusjó sem hjónabandið lenti í þegar Dagbjartur braust út úr lygavefnum og játaði að hafa árum saman átt í sambandi við konuna. Þessi hluti bókarinnar er staðfesting þess að höfundurinn fær allt upp á borðið. Fáheyrð einlægni. Dagbjartur er einn af þekktustu útgerðarmönnum Íslands. Hann segir söguna af stofnun Fiskaness í Grindavík og lýsir því þegar brestur kemur í samstarf hans og Björgvins Gunnarssonar, svila hans. Eftir áratuga vináttu og samstarf urðu vin- slit. Því er einnig lýst þegar Fiskanes sameinaðist hinu risafyrirtækinu í Grindavík, Þorbirninum. Niðurstaðan varð sú að Fiskanesmenn lentu úti í kuldanum. Loks segir af fjárfestingu fjölskyldu Dagbjarts í erlendu flugfélagi sem reyndist vera hið versta feigðarflan. Eitt það mikilvægasta við bækur er titill og kápa. Í báðum tilvikum bregst mönnum bogalistin. Titillinn, Það liggur í loftinu, gerir ekkert fyrir bókina fremur en tilþrifalaus kápan. En höfundarverkið er enn ein staðfesting á snilld Jónasar. Dagbjartur og Birna segja sína sögu undanbragðalaust. Það verður enginn svik- inn af þessari bók. Væntanlegir kaupendur mega ekki láta blekkjast af umbúðun- um. Innihaldið er fullkomlega þess virði að verja kvöldstund í að skyggnast inn í líf hjónanna í Grindavík. Bókin er einskonar risapáskaegg í fallhlíf. Lítur ekkert sérstalega vel út en smakkast þess betur. reynir traustason Það liggur í loftinu – saga Birnu óladóttur og dagBJarts einars- sonar í grindavík Jónas JónassonHöfundar- verkið er enn ein staðfesting á snilld Jónasar. Útgefandi: Skrudda Starfsævisaga Jónasar Kristjánssonar ritstjóra er snubb- ótt smíð miðað við alla þá reynslu og þekkingu sem maður ímyndar sér að hann hljóti að búi yfir. Jónas starfaði í blaðamennsku á Íslandi í 45 ár, frá árinu 1961, þegar hann hóf störf á Tímanum, og þar til 2006, þegar hann hætti sem ritstjóri DV. Hann kom dagblöðum á laggirnar, Dagblaðinu og síðar DV, fylgdist með fréttum og umræðunni í samfé- laginu og tók þátt í henni í öll þessi ár – og hann var rek- inn þrisvar af ólíkum ástæðum. Samt er starfsævisaga hans, Frjáls og óháður, hvorki fugl né fiskur. Efniviðurinn ætti að vera þarna til að skrifa áhugaverða og mikilvæga bók fyrir sögu íslenskrar blaðamennsku á seinni hluta tuttugustu aldar en þessir áratugir Jónasar í eldlínu samfélagsumræðunnar skilja lítið eftir sig. Áhrifavalduríblaðamennsku Óhætt er að fullyrða að fáir íslenskir blaðamenn hafi haft eins mikil áhrif á fagið á síðustu áratugum og Jónas hef- ur gert. Upp í hugann koma einna helst nöfn Moggarit- stjóranna, Matthíasar og Styrmis, og svo kannski Gunn- ars Smára Egilssonar sem hefur stofnað nokkur blöð í gegnum tíðina sem náð hafa að verða mikilvæg, meðal annars Fréttablaðið. Jónas er guðfaðir þess konar blaða sem kalla má götublöð: harðra, gagnrýninna og ópólitískra blaða sem leyfa sér að ganga lengra í efnistökum en þau íhalds- samari. Segja má jafnframt, líkt og kemur fram í bók- inni, að Jónas hafi átt þátt í því, með stofnun Dagblaðs- ins og DV, að lyfta íslenskri blaðamennsku upp úr hinum hvimleiða flokksblaðapytti sem lengi vel einkenndi dag- blaðamarkaðinn hér á landi: Mogginn fylgdi Sjálfstæð- isflokknum, Tíminn Framsókn og Alþýðublaðið Alþýðu- flokknum. Ævistarf hans verður því óhjákvæmilega að teljast merkilegt þótt Jónas geri þessu langa starfi ekki nægilega góð skil í bókinni. Stoppaðstuttvið Ástæðan fyrir því að bókin veldur vonbrigðum er fyrst og fremst vegna þess að Jónas gefur sér ekki nægilega mikinn tíma til að segja frá þessari löngu og merkilegu starfsævi sinni. Bókin er stutt, 150 blaðsíður, í litlu broti og með fáum orðum á blaðsíðu. Jónas fer á hundavaði yfir feril sinn án þess að stöðva við einstök atriði eða ræða smáatriði. Bókin verður því yfirborðsleg og stutt- araleg fyrir vikið. Ég las bókina á þremur tímum eða svo. Um svipað leyti og ég las bók Jónasar las ég bók eftir kollega hans, fyrrverandi aðstoðarritstjóra Washington Post, Ben Bradlee, sem er einna frægastur fyrir að hafa verið einn aðalmaðurinn í að koma upp um Watergate- hneykslið. Starfsævi Bradlees var álíka löng og Jónasar en bókin hans er 500 blaðsíður, í stóru broti og er afar ítarleg. Ég var nokkra daga að lesa þá bók. Sú bók var tæmandi um starfsævi Bradlee. Bók Jónasar er það ekki. Þetta er synd þar sem halda má því fram að starf Jónasar hafi verið álíka mikilvægt fyrir íslenska blaðamennsku og starf Bradlees á Washington Post var fyrir bandaríska blaðamennsku. Báðir voru þeir miklir frumkvöðlar á sviði rannsóknarblaðamennsku og uppljóstrana um hneykslis- og spillingarmál. Það er því eins og Jónas hafi ekki nennt að eyða mikl- um tíma eða orðum í bókina. Þess vegna stendur les- andinn oft eftir og spyr sig: Bíddu, já en ...? um einstök atriði. Jónas moðar því lítið úr miklu og gerir minna úr starfsævi sinni en ástæða er til. Skýringuna á þessu kann meðal annars að vera í finna í því sem Jónas segir sjálfur í bókinni: að hann hafi fyrst og fremst verið ritstjóri og hafi þar af leiðandi ekki verið mjög vanur að skrifa mikið af texta fyrr en eft- ir að hann hætti í blaðamennskunni – Jónas heldur nú úti einni vinsælustu bloggsíðu landsins. Eins kann skýr- ingin að vera sú að Jónas byrjaði ekki að skrifa bókina fyrr en í vor og hefur því komið henni frá sér á nokkrum mánuðum. Hann hefði því kannski, miðað við afrakst- urinn, átt að gefa sér meiri tíma eða fá einhvern annan höfund til að vinna þetta verk. Skorturáefnislegriumfjöllun Jónas fer til að mynda sjaldan og lítið ofan í einstök fréttamál sem hann hefur komið að í gegnum tíðina sem ritstjóri. Áhugavert hefði verið að heyra eitthvað um þau: Hvaða Jónasi fannst markverðast, hvaða mál voru mikilvægust á ferli hans, hvaða mistök hann gerði og hverju hann sér eftir. Það er helst að kynferðisbrota- málið á Ísafirði – sem kostaði hann ritstjórastólinn á DV í ársbyrjun 2006 eftir að því var slegið upp á forsíðu og brotamaðurinn framdi sjálfsmorð – fái einhverja efnis- lega umfjöllun. Palladómarogafdráttarleysi Eitt af einkennum bókarinnar eru palladómarnir sem í henni er að finna. Sterkar og afdráttarlausar skoðanir Jónasar eru flestum þeim sem lesið hafa bloggsíðu hans vel kunnar. Af þeim er vitanlega nóg í þessari bók. Dav- íð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson fá meðal ann- ars sinn skerf af gagnrýni sem og ýmsir samstarfsmenn Jónasar í gegnum tíðina. Bók Jónasar mun því væntan- lega koma illa við einhverja þeirra sem hann potar í. Jónas talar þó auðvitað líka mjög vel um marga af sam- ferðar- og samstarfsmönnum sínum. Eins og oft er raunin um bækur þar sem mikið er af slíkum palladómum þá er bók Jónasar ágætlega skemmtileg og hressileg. Hún minnir raunar dálítið á sjálfsævisögu Sigurðar Stefánssonar, prests í Vigur, að þessu leyti en beðið var með það í áratugi að gefa þá bók út vegna þess hversu eldfim hún var. Stíll Jónasar, sem er frægur fyrir að vera afar knapp- ur og beittur, í bókinni fylgir efnistökunum: Hann er af- dráttarlaus og afgerandi. Jónas talar í staðreyndum, eins og sá sem höndlar og útdeilir sannleikanum. Honum leiðast fyrirvarar, málalengingar og að setja fram mikil rök fyrir skoðunum sínum. Jónas slær meiningum sín- um fram sem Sannindunum. Viðtengingarháttur er eit- ur í hans beinum. Að þessu leyti er heimssýn hans svart-hvít og líkt og oft gildir um menn sem hafa slíka sýn þá þurfa þeir oft að skipta um skoðun þegar sannleikurinn þeirra er ekki alveg eins og málin í raun – Jónas segir reyndar í bókinni að honum finnist ekkert athugavert við það að skipta um skoðun á málunum. Af þessum sökum er erfitt að greina einhverja tiltekna heimssýn hjá Jónasi. Snitta Kannski er þetta einmitt eitt helsta vandamál Jónasar sem bloggara og bókarhöfundar. Lesandi stendur nær alltaf eftir með margar spurningar eftir að hafa lesið það sem hann skrifar því hann undirbyggir það ekki nægi- lega vel. Líklega finnst honum hann ekki þurfa þess því hann er svo viss um að hann hafi rétt fyrir sér. Þetta er helsti galli þessarar starfsævisögu hans: Lesandi hefði viljað fá meira því hann kynnist hvorki manninum Jónasi Kristjánssyni né starfsævi hans svo nokkru nemi. Góður maður gagnrýndi þessa bók Jónasar á þeim forsendum að þó hún væri fín aflestrar væri hún í raun og veru bara eins og forréttur því það vantaði svo mikið í hana. Ég ætla að ganga lengra: Bókin er snitta og er hún því vitanlega langt í frá mettandi. ingi f. vilhJálMsson stuttaraleg starfsævisaga BÆKUR: EftirdagsverkiðJónas Kristjánsson fjallar um ævistarf sitt í bókinni Frjáls og óháður. Bókin er hressileg aflestrar en ristir grunnt: Jónas fer á hundavaði yfir nærri 50 ára starfsævi. frJáls og óháður Jónas KristjánssonJónas gerir að öllum líkind- um minna úr ferli sínum en efni standa til. Útgefandi: Sögur útgáfa

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.