Dagblaðið Vísir - DV - 19.10.2011, Side 2
2 | Fréttir 19. október 2011 Miðvikudagur
Bjarni Ben yfirheyrður
B
jarni Benediktsson, for-
maður Sjálfstæðisflokks-
ins, hefur verið yfirheyrður
sem vitni í rannsókn sér-
staks saksóknara á Sjóvár-
málinu svokallaða. Þetta staðfestir
Bjarni í svari sínu við fyrirspurn DV
um hvort hann hafi verið yfirheyrð-
ur í málinu. „Fyrir nokkrum mán-
uðum óskaði embættið eftir vitna-
skýrslu frá mér. Það var sjálfsagt að
verða við því. Það er ekkert í rann-
sókn málsins sem beinist að mér
[…] Að mestu voru það forms atriði
sem spurt var um,“ segir Bjarni í
skriflegu svari sínu í tölvupósti til
DV. Tekið skal skýrt fram, til að taka
af allan vafa, að fyrir liggur að Bjarni
er ekki til rannsóknar í Sjóvármál-
inu og verður ekki ákærður í því.
Ástæða fyrirspurnar DV til
Bjarna var sú að rannsóknin á Sjó-
vármálinu mun vera að klárast hjá
embætti sérstaks saksóknara. Bú-
ist er við að rannsóknarferlinu ljúki
fyrir lok þessa árs og að gefnar verði
út ákærur í kjölfarið. Til rannsókn-
ar eru brot á lögum um hlutafélög,
vátryggingastarfsemi og eins hugs-
anleg brot á auðgunarbrotakafla
hegningarlaga. Þeir sem líklegastir
eru til að verða ákærðir í málinu eru
Karl Wernersson, stjórnarformað-
ur Milestone og Sjóvár, Þór Sigfús-
son, forstjóri Sjóvár, og Guðmundur
Ólason, forstjóri Milestone.
Bjarni segir að skýrslutakan hafi
verið stutt þar sem hann hafi ekki
búið yfir miklum upplýsingum um
það sem til rannsóknar er. „Þetta
var stutt skýrslutaka. Mér fannst
sjálfsagt að veita alla þá aðstoð sem
ég gat en því miður var það lítið sem
ég gat liðsinnt rannsóknarmönnum
í málinu, þar sem ég hafði enga að-
komu að því, aðra en að skrifa und-
ir veðskjöl samkvæmt umboði.“
Bjarni vildi hins vegar ekki svara
þeirri spurningu hvort hann hefði
sagt embætti sérstaks saksóknara
hverjir það voru sem skipulögðu
viðskiptin sem kennd eru við eign-
arhaldsfélagið Vafning. Líklega var
þar um að ræða Guðmund Ólason,
forstjóra Milestone, og hugsanlega
Karl Wernersson.
Gengið á bótasjóðinn
Sjóvármálið snýst um rannsókn á
meintum lögbrotum eignarhalds-
félagsins Milestone í rekstri trygg-
ingafélagsins Sjóvár fyrir íslenska
efnahagshrunið 2008. Milestone
var í eigu bræðranna Karls og Stein-
gríms Wernerssona og átti félagið
allt hlutafé í Sjóvá. Líkt og DV hefur
greint frá notaði Milestone nánast
allan bótasjóð tryggingafélagsins,
um 19 milljarða króna af tæpum
23, til að endurfjármagna lán Mile-
stone og dótturfélaga þess. Eignar-
haldsfélagið Vafningur var meðal
annars notað í þessum viðskiptum.
Vafningur var í eigu Milestone og
föður og föðurbróður Bjarna, Bene-
dikts og Einars Sveinssona.
Sjóvá, nú SJ Eignarhaldsfélag,
uppfyllti ekki skilyrði Fjármála-
eftirlitsins um vátryggingastarf-
semi eftir bankahrunið 2008 sök-
um þessara viðskipta Milestone
með fjármuni félagsins. Trygginga-
félagið átti ekki fyrir vátrygginga-
skuld sinni við viðskiptavini sína og
uppfyllti því ekki skilyrði Fjármála-
eftirlitsins um gjaldþol trygginga-
félaga. Rekstur tryggingafélagsins
var tryggður með því að færa rekst-
urinn yfir í annað félag í septem-
ber 2009. Íslenska ríkið þurfti svo að
leggja tryggingafélaginu til 12 millj-
arða króna, í formi láns sem ekki
er vitað hvort fæst greitt að fullu,
til að bjarga því frá gjaldþroti með
tilheyrandi tapi fyrir viðskiptavini
félagsins.
Aðkoma Bjarna
Aðkoma Bjarna Benediktssonar
að málinu var sú að í febrúar 2008
skrifaði hann undir veðsetningar-
skjöl fyrir hönd föður síns og frænda
þar sem eignir Vafnings voru veð-
settar fyrir láni frá Glitni. Bjarni
sagði frá því í viðtali við DV í árslok
2009 þegar fjallað var um aðkomu
hans að Vafningsmálinu í blaðinu
að hann hefði veðsett hlutabréfin í
Vafningi hjá Glitni fyrir hönd föður
síns og frænda þar sem þeir hefðu
verið staddir erlendis. „Þeir [Bene-
dikt og Einar, innsk. blaðamanns]
voru ekki staddir á landinu og báðu
mig um það fyrir sína hönd að skrifa
undir ákveðinn veðsamning þar
sem þeir voru að veðsetja hluta-
bréfin sín í félaginu […] Þetta var
veðsamningur sem gerður var við
bankann vegna lána sem bankinn
hafði veitt félaginu.“ Bjarni skrifaði
því undir veðsetningarskjölin fyrir
hönd eignarhaldsfélags föður síns,
Hafsilfurs, eignarhaldsfélags Einars
Sveinssonar, Hrómundar, sem og
fyrir eignarhaldsfélagið BNT, móð-
urfélag olíufélagsins N1, en fyrir-
tækið var í eigu ættingja Bjarna.
Samtals fékk Vafningur um 15
milljarða króna lánaða frá Glitni
en milljarðarnir voru endurlán-
aðir til eignarhaldsfélagsins Þátt-
ar Inter national, sem einnig var í
eigu Milestone og Einars og Bene-
dikts Sveinssona. Þáttur Inter-
national var einn stærsti hluthafi
Glitnis. Þáttur International notaði
peningana svo til að endurgreiða
bandaríska fjárfestingarbankan-
um Morgan Stanley lán sem félagið
fékk til að kaupa hlutabréf í Glitni
árið 2007. Morgan Stanley átti veð
í hlutabréfum Þáttar Internation-
al í Glitni og hótaði að leysa bréfin
til sín í veðkalli ef skuldin yrði ekki
greidd til baka. Vafningur tók einn-
ig við lánum frá Sjóvá sem notuð
voru til að endur fjármagna lán hjá
Morgan Stanley vegna fjárfestingar
Milestone í sænska fjármálafyrir-
tækinu Invik.
19 milljarðar afskrifaðir
Með þessum lánveitingum út úr
Sjóvá til Vafnings var gengið á bóta-
sjóð félagsins með þeim afleiðing-
um sem greint er frá hér að fram-
an. Í báðum tilfellum fóru lánin
frá Sjóvá og Glitni út úr íslenskum
félögum og íslenska hagkerfinu
og yfir í bandarískan fjárfestingar-
banka. Krafa Sjóvár á hendur Vafn-
ingi var svo afskrifuð í ársreikningi
SJ Eignarhaldsfélags, sem áður hét
Sjóvá, fyrir árið 2009 en þar seg-
ir: „Niðurfærsla viðskiptakrafna
vegna Földungur ehf. og Milestone
ehf. 19.287.037.“ Afskriftirnar vegna
lánanna út úr Sjóvá til Vafnings
og Milestone nam því rúmlega 19
milljörðum króna. Heildarskuldir
Vafnings, nú Földungs, voru tæpir
38 milljarðar í lok síðasta árs og var
um helmingur vegna lána frá Sjóvá
og helmingur vegna lána frá Glitni.
Sjóvá og Glitnir töpuðu því þeim
um 38 milljörðum króna sem lán-
aðir voru til Vafnings árið 2008 eftir
að byrjaði að harðna á dalnum í ís-
lenska fjármálakerfinu.
Bjarni segist ekki hafa vitað um
veðsetningu bótasjóðsins
Bjarni segist ekki hafa vitað að
Milestone hefði í lánaviðskiptum
sínum í febrúar lánað stóran hluta
af bótasjóði tryggingafélagsins,
meðal annars til Vafnings. Líkt
og komið hefur fram í DV skrif-
aði Þór Sigfússon, þáverandi for-
stjóri tryggingafélagsins Sjóvár, til
dæmis upp á þrjár lánveitingar út
úr Sjóvá til dótturfélaga Milestone
þann 29. febrúar 2008 sem námu
15,7 milljörðum króna eða um 67
prósentum af bótasjóði félagsins.
„Ég hafði engar upplýsingar um
að þessir aðilar væru mögulega að
tefla með vátryggingaskuld sína.
[…] Tengsl við bótasjóðinn voru
mér ókunn. Ég hafði enga aðkomu
að ráðstöfun eigna eigenda Sjóvár
eða Milestone og hafði ekki upp-
lýsingar um það hvernig samist
hafði milli þeirra og bankans um
þessi efni. Ég kom á engan hátt ná-
lægt samningum um þetta mál,“
segir Bjarni.
Hann segir jafnframt að hafi
brot verið framin í rekstri Sjóvár
sé það honum óviðkomandi. „Hafi
verið framin brot af stjórnendum
eða eigendum Sjóvá eða tengdra
félaga hefur það ekkert með mig
að gera. Ég læt ekki klína ábyrgð af
annarra manna gjörðum á mínar
herðar. Ég fyrirlít tilraunir til þess
háttar málflutnings og slíkt skal
aldrei verða samþykkt í íslensku
samfélagi.“
Samkvæmt þessum svörum
Bjarna var hann því ekki meðvitað-
ur um heildarmyndina í viðskipt-
um eignarhaldsfélagsins Vafnings
á þessum tíma jafnvel þó að hann
hefði tekið þátt í hluta þessara við-
skipta með því að veðsetja hluta-
bréfin í Vafningi fyrir láninu frá
Glitni.
Bjarni segist ekki bera ábyrgð
Bjarni undirstrikar enn frekar í svari
sínu til DV að þátttaka hans í við-
skiptalífinu hafi verið í samræmi við
lög og reglur og að hann hafi ekki
skipulagt endurfjármögnunina á
Glitnisbréfunum. Bjarni sver því af
sér ábyrgð á Vafningsmálinu. „Þrátt
fyrir að ég hafi endurtekið útskýrt
fyrir DV og öðrum fjölmiðlum að
þátttaka mín í viðskiptalífinu hafi að
öllu leyti verið í samræmi við lög og
reglur, hafa sumir þeirra gert sitt til
að vekja grunsemdir um að svo væri
ekki. Í þessu tiltekna máli hefur verið
skýrt frá fyrsta degi að ég kom hvergi
að þeim ákvörðunum sem til rann-
sóknar eru, hvorki stofnun viðkom-
andi félags, stjórnun þess eða samn-
ingum fyrir þess hönd,“ segir Bjarni
en með orðum sínum á Bjarni við
eignarhaldsfélagið Vafning.
Ingi Freyr Vilhjálmsson
fréttastjóri skrifar ingi@dv.is
„Fyrir nokkrum
mánuðum ósk-
aði embættið eftir vitna-
skýrslu frá mér.
„Ég hafði engar
upplýsingar um að
þessir aðilar væru mögu-
lega að tefla með vá-
tryggingaskuld sína.
Vitni í
Sjóvármálinu
Bjarni Benedikts-
son, formaður
Sjálfstæðis-
flokksins, var
yfirheyrður
sem vitni í
Sjóvármálinu
hjá embætti sér-
staks saksóknara
fyrir nokkrum
mánuðum.
Formsatriði Bjarni segir að yfirheyrslan hjá sérstökum saksóknara, Ólafi Haukssyni, hafi
að mestu snúist um formsatriði.
n Yfirheyrður hjá sérstökum saksóknara fyrir nokkrum mánuðum n Kom að viðskiptum
eignarhaldsfélagsins Vafnings n Segir yfirheyrsluna hafa snúist um formsatriði
sem vitni í Sjóvármálinu