Dagblaðið Vísir - DV - 09.09.2013, Blaðsíða 2

Dagblaðið Vísir - DV - 09.09.2013, Blaðsíða 2
2 Fréttir 9. september 2013 Mánudagur Snúningur með gas Bjarni Ármannsson heldur Gasfélaginu eftir snúning með fjárhagslega endurskipulagningu þess í gegnum Íslandsbanka. Bjarni fær arð og afskrift af gasinu n Lagði 132 milljónir inn í félagið n Tók þær aftur út eftir milljarðsafskrift G asfélagið ehf., sem er í eigu Bjarna Ármannssonar, fjárfestis og fyrrverandi bankastjóra Glitnis, skilaði 44 milljóna króna hagnaði í fyrra og skuldar nú aðeins rúmar 100 millj­ ónir á móti nærri 430 milljóna króna eignum. Þetta kemur fram í ársreikn­ ingi félagsins sem nýlega var skilað til ársreikningaskrár Ríkis skattstjóra. Ekki er gerð tillaga um greiðslu arðs út úr félaginu á þessu ári þrátt fyrir góða stöðu þess. Gasfélagið er fyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu og dreifingu á gasi. Staða félagsins er þannig um þess­ ar mundir að Bjarni gat tekið 132 millj­ ónir króna út félaginu fyrr á árinu; 132 milljónir sem hann hafði lagt inn í fé­ lagið árið 2011. Því var um útgreiðsla hlutafjár að ræða sem var ígildi arð­ greiðslu: Í staðinn fyrir að hafa fjár­ munina áfram inni í félaginu voru þeir teknir út úr því þar sem staða þess er þannig, líkt og áður segir, að eignirnar eru miklu meiri en skuldirnar. Í lok síðasta árs var eiginfjárhlutfall Gasfé­ lagsins meira en 76 prósent. Skuldirnar afskrifaðar Góða stöðu Gasfélagsins nú má rekja til þess að árið 2011 var stór hluti skulda félagsins, sem var gengis­ tryggður, færður niður. Félagið skuld­ aði rúmlega 1.600 milljónir króna í lok árs 2010 en árið eftir voru skuldirnar komnar niður í 220 milljónir króna. Þá var einnig búið að breyta skuldum félagsins í íslenskar krónur. Árið áður, 2010, var staða félagsins mjög slæm: Eiginfjárstaðan – eignir mínus skuldir – var neikvæð um nærri milljarð króna. Árið eftir var hagnað­ ur félagsins nokkurn veginn sá sami: Rúmur milljarður króna. Milljarður hafði því verið afskrifaður hjá Gasfé­ laginu og félagið fékk að starfa áfram. Íslandsbanki afskrifaði Í ársreikningi Gasfélagsins árið 2010 sagði meðal annars í skýrslu frá endurskoðanda félagsins: „Án þess að gera um það fyrirvara í áritun okk­ ar viljum við vekja athygli á skýringu 12 með ársreikningnum þar sem fram kemur að félagið uppfyllir ekki ákvæði lánasamninga við Íslands­ banka hf. Samningarnir kveða á um að fari eiginfjár­ og rekstrarhagnaðar­ hlutfall niður fyrir tiltekin viðmið sé bankanum heimilt að gjaldfella þá. Félagið hefur verið í samningavið­ ræðum við Íslandsbanka hf. um var­ anlega lausn á skuldavanda félagsins og bankinn mun ekki nýta rétt sinn til að gjaldfella lánasamninga að upp­ fylltum ákveðnum skilyrðum.“ Viðskiptabanki Gasfélagsins er því Íslandsbanki, bankinn sem Bjarni stýrði fram til ársins 2007, en hann keypti einmitt Gasfélagið á því ári. Bjarni vann að fjárhagslegri endur­ skipulagningu Gasfélagsins og gjald­ felldi Íslandsbanki ekki lánasamninga félagsins að „uppfylltum ákveðnum skilyrðum“. Bjarni er því búinn að eiga Gasfélagið frá því fyrir hrun og ber því að hluta til ábyrgð á skuldum félags­ ins. Hann keypti félagið í ágúst 2007 af Hjálmari Blöndal, lögmanni og fyrr­ verandi blaðamanni og fleira. Hjálm­ ar hafði aftur keypt félagið af Jóni Þor­ steini Jónssyni sem yfirleitt er kenndur við Nóatún. DV hefur ekki heimildir fyrir því hvaða skilyrði þetta voru sem um ræð­ ir í ársreikningi Gasfélagsins. Í sam­ tali við DV segir upplýsingafulltrúi Ís­ landsbanka að hann geti ekki veitt upplýsingar um hvað fólst í þessum skilyrðum því það sé trúnaðar mál. Út frá ársreikningum félagsins að dæma sést hins vegar að árið 2011, árið sem Bjarni fékk afskriftina hjá Íslands­ banka, lagði hann 132 milljónir inn í félagið í formi nýs hlutafjár. Þetta er sama upphæð og hann hefur nú tek­ ið út úr félaginu aftur. Skilyrði Íslands­ banka fyrir afskriftinni hefur því verið hlutafjáraukningin líkt og oft er í slík­ um viðskiptum. Hlutafé inn – hlutafé út Í lok mars síðastliðinn óskaði Bjarni Ármannsson svo eftir því fyrir hönd Gasfélagsins að fá að lækka hlutafé félagsins um 132 milljónir. Óskin um heimildina barst atvinnuvega­ og nýsköpunarráðuneytinu í lok þess mánaðar en ráðuneytið þarf að veita eignarhaldsfélögum sem ætla sér að lækka hlutafé sitt sérstaka undan­ þágu frá innköllunarskyldu. Þetta þýð­ ir í einföldu máli að hlutafjárlækkunin getur aðeins farið fram með vitund og vilja lánardrottna félagsins – Íslands­ banka í tilfelli Gasfélagsins. Í erindi Gasfélagsins kom fram að skuldastaða félagsins væri það góð, öf­ ugt við það hvernig hún var árið 2010, að ekkert væri því til fyrirstöðu að hlutafjárlækkunin færi fram. Þá voru skuldir félagsins einungis rúmlega 100 milljónir króna en eignir nærri 430 milljónir. Keypti félagið aftur á 132 milljónir Staðan hjá Gasfélaginu er því sú að Bjarni Ármannsson samdi við kröfu­ hafa félagsins – Íslandsbanka – um að hann kæmi inn með nýtt hlutafé í fé­ lagið en að í staðinn þá myndi bank­ inn afskrifa stóran hluta af skuldum þess. Gasfélagið var ekki rekstrarhæft fyrir þessa endurskipulagningu. Bjarni kom þá inn með 132 milljónir króna – segja má að hann hafi í reynd keypt Gasfélagið af bankanum aftur þar sem staða þess var þannig – en í staðinn af­ skrifaði bankinn eiginlega allar skuldir félagsins, meira en milljarð króna. Fyrr á árinu tók Bjarni þetta hlutafé svo aft­ ur út úr félaginu eftir afskriftina og í dag er hlutafé félagsins jafn mikið og það var fyrir hlutafjáraukninguna árið 2011: 500 þúsund krónur. Með þessum snúningi hefur Bjarni Ármannsson náð að halda Gasfélaginu, félagi sem á eignir upp á meira en 400 milljónir króna, og hann keypti fyrir hrun. Íslandsbanki hefði getað selt Gasfélagið hæstbjóðanda, og örugglega fengið meira fyrir það en 132 milljónirnar sem Bjarni lagði inn sem nýtt hlutafé og tók svo aftur, en kaus að gera það ekki en afskrifa þess stað nær allar skuldir félagsins. Bjarni hefur því í eiginlega tekið kaupverð Gasfélagsins aftur út úr því en á félag­ ið áfram eftir umræddar afskriftir. Ef hann hefði ekki tekið umrædda fjár­ muni út sem hlutafé þá hefði hann allt eins getað tekið þá sem arð. Ekki náðist í Bjarna við vinnslu fréttarinn­ ar. n Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttastjóri skrifar ingi@dv.is „Bankinn mun ekki nýta rétt sinn til að gjaldfella lána- samninga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þak fauk af sumarbústað Illviðri gekk yfir vestanvert landið á laugardag og þurftu björgunar­ sveitir víða að veita aðstoð. Í Mið­ dal við Meðalfellsvatn voru björg­ unarsveitirnar Kyndill og Kjölur kallaðar út um kvöldið þar sem þak hafði fokið af sumarbústað. Mun þakið hafa fokið af í heilu lagi með tilheyrandi tjóni en björg­ unarsveitirnar fóru í það að fergja þakið og koma í veg fyrir frekara tjón. Í Kópavogi bárust fregnir af því að Hjálparsveit skáta hefði verið kölluð út þar sem þakplötur höfðu losnað af einbýlishúsi þar í bæ. Óveðursaðstoð á höfuð­ borgarsvæðinu lauk á tólfta tím­ anum á laugardagskvöld þar sem veður var tekið að ganga niður. Vilja stærra Barnahús „Það er orðið brýnt að fjölga starfsfólki og bæta allar aðstæður svo hægt sé að sinna þessum erf­ iðu verkefnum á sem bestan hátt með hagsmuni barnanna í fyrir­ rúmi,“ segir Eygló Harðardóttir, félags­ og húsnæðismálaráðherra, en stjórnvöld auglýsa nú eftir rúmlega 400 fermetra húsnæði á höfuðborgarsvæðinu undir starf­ semi Barnahúss. Leitað er að húsnæði til kaups eða leigu og er óskað eftir því að tilboðum sé skilað til ríkiskaupa eigi síðar en miðvikudaginn 25. september næstkomandi. Barna­ hús var opnað árið 1988 í Sól­ heimum 17 í Reykjavík en þar er sinnt málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Barnaverndar­ stofa fer með reksturinn í um­ boði velferðarráðuneytisins. Mikil ásókn þýðir að þörf fyrir stærra húsnæði er orðin brýn. Núver­ andi húsnæði Barnahúss er 254 fermetrar. Eygló segist binda miklar vonir við að Barnahús verði komið í nýtt og betra húsnæði áður en langt um líður. Gáfu makríl í mótmælaskyni Makrílhátíð Heimssýnar og annarra samtaka sem standa gegn aðild Ís­ lands að Evrópusambandinu fór fram á Ingólfstorgi á sunnudag. Andstæðingar Evrópusambandsins vildu gefa sem flestum gestum tæki­ færi til að smakka makríl og sögðust ætla að halda áfram að gefa meðan birgðir entust. Félagsmenn sögðu í samtali við DV að markmið gjörningsins væri fyrst og fremst að mótmæla ofríki Evrópusambandsins í makríl­ deilunni sem og að sýna Græn­ lendingum og Færeyingum sam­ stöðu. „Makríllinn er íslenskur ríkisborgari,“ sagði einn kokkanna að lokum.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.