Dagblaðið Vísir - DV - 19.03.2010, Síða 22
22 FÖSTUDAGUR 19. mars 2010 HELGARBLAÐ
Um það bil eitt af hverjum þúsund börnum fæðist með Downs-heilkennið en lífslíkur einstaklinga með
heilkennið eru alltaf að aukast og ævin að lengjast. Sunnudagurinn 21. mars er alþjóðlegur dagur um
Downs-heilkennið en dagsetningin vísar í þrístæðu á 21. litningi. Helgarblað DV ræddi við fjóra einstakl-
inga með heilkennið og forvitnaðist um líf þeirra og tilveru. Öll taka þau virkan þátt í samfélaginu, eru í
skóla eða vinnu og eiga sér mörg og áhugaverð áhugamál.
LÍFIÐ MEÐ DOWNS-HEILKENNI
Ég er ánægður í vinnunni enda hef ég unnið á sama staðnum í 20 ár,“ seg-ir Ólafur Gunnarsson Þormar sem starfar hjá Plastprent í Mosfellsbæ.
Ólafur, sem er með Downs-heilkenni, er mik-
ill íþróttamaður og hefur keppt fyrir Íslands
hönd á Ólympíuleikum fatlaðra þar sem hann
kom heim með gullmedalíu. Hann segist allt-
af hafa haft áhuga á íþróttum. „Ég man ekki
hvenær ég byrjaði að æfa en ég hef alltaf hreyft
mig mikið. Í dag æfi ég lyftingar hjá World
class og fer líka reglulega í sund,“ segir Ólafur
sem sigraði í boccia á Ólympíuleikunum.
Aðspurður segist hann hafa verið afskalega
ánægður með gullpeninginn. „Ólympíuleik-
arnir í Peking voru frábærir og það að koma
heim með gullið var mjög skemmtilegt. Ég var
mjög stoltur af sjálfum mér og veit að pabbi
var líka mjög ánægður með strákinn sinn,“
segir hann og bætir við að hann vonist til að
komast á næstu Ólympíuleika sem haldnir
verða árið 2012.
Vill jákvæðari fréttir
Ólafur er nýfluttur í nýja íbúð í sambýli. Hann
er ánægður með að búa einn og fær þá hjálp
sem hann þarfnast. „Þetta er flott íbúð. Ég á
marga góða nágranna og við spjöllum reglu-
lega saman svo ég er ánægður,“ segir hann og
bætir við að hann taki strætó í vinnuna. „Ég er
líka duglegur að hjóla þegar veðrið er gott en
þegar ég kem heim eyði ég oftast einhverjum
tíma í tölvunni. Þá les ég fréttirnar því ég vil
fylgjast með því sem er að gerast,“ segir hann.
Aðspurður segist hann þó vera kominn með
leið á neikvæðum kreppufréttum. „Það eru
allir að tala um kreppuna í vinnunni en ég
vil miklu frekar tala um eitthvað skemmti-
legra. Ég er viss um að Ísland muni jafna sig
á þessu,“ segir Ólafur sem þó mætti reglulega
á Austurvöll á síðasta ári til að taka þátt í mót-
mælunum.
Rooney er bestur
Ólafur segir fötlun sína ekki koma í veg fyrir að
hann lifi skemmtilegu lífi og taki þátt á vinnu-
markaðnum en hann vinnur alla daga eftir
hádegi. Hann segir börn og krakka oft forvitin
um hans hagi og að þau séu oftast almennileg
við hann. „Mér finnst skemmtilegt að tala við
fólk og krakkar koma oft til mín og spyrja og ég
hef bara gaman af því,“ segir Ólafur sem hefur
ferðast mikið um ævina. „Við pabbi erum bún-
ir að fara víða og Spánn er uppáhalds landið
mitt. Ég vil vera í sólinni. Svo langar mig líka
að fara til Frakklands, til Svíþjóðar og Brasil-
íu. Vonandi verður af því seinna,“ segir hann
og bætir aðspurður við að önnur áhugamál
hans séu vinnan, kvikmyndir og fótbolti. „Ég
er duglegur að fara í bíó og fór í vikunni að sjá
nýjustu myndina hans Leonardo DiCaprio.
Hins vegar er Avatar besta myndin sem ég hef
séð lengi. Hún er rosalega góð. Í boltanum er
það Man. United og Rooney er bestur.“
Ólafur á stóra fjölskyldu og nýtur þess þeg-
ar þau hittast. „Ég á tvær systur og tvo bræð-
ur og það er ofsalega gaman þegar við borð-
um saman um helgar. Ég hef gaman af því að
borða og sérstaklega eitthvað nýtt þótt uppá-
haldsmaturinn minn sé rjúpurnar hennar
mömmu.“
indiana@dv.is
Ólafur Gunnarsson kom heim með gullmedalíu þeg-
ar hann keppti í boccia á Ólympíuleikum fatlaðra í
Peking. Ólafur er nýfluttur í nýja íbúð og er ánægður
með lífið og tilveruna.
Stoltur af gullinu
Duglegur í vinnunni Ólafur hefur
unnið á sama vinnustaðnum í 20 ár.
MYND RAKEL ÓSK SIGURÐARDÓTTIR