Húnavaka - 01.05.2008, Page 9
Ávarp
Húnavökuritið hefur komið út samfellt frá því 1961. Strax í upphafi var ritinu mörkuð
ákveðin stefna og tilgangur þess skýrður. Í fyrstu ritstjórnargrein sem kölluð var „Fylgt
úr hlaði“ segir Stefán Á. Jónsson meðal annars um ritið:
Tilgangur þess er í stuttu máli sá, að flytja sem fjölbreyttast húnvetnskt efni til
fróðleiks og skemmtunar. Vildum við gjarnan tengja saman fortíð og nútíð í efnisvali,
ásamt því að horfa fram á veginn, með því að flytja jöfnum höndum þjóðlegan
fróðleik, greinar, sögur, kvæði og annað sem Húnvetningar vilja koma á framfæri.
Hugmyndin er, að rit þetta komi út einu sinni á ári á vegum Ungmennasambands
Austur-Húnvetninga og sé, eins og nafn þess bendir til, tengt fræðslu- og skemmtiviku
Húnvetninga, ,,Húnavökunni“, sem Ungmennasambandið stendur að.
Húnavakan var í fyrstu hugsuð sem fræðslu- og skemmtivika. Því miður hefur
orðið minna úr fræðsluhlutverki hennar en æskilegt hefði verið. Nú er það von okkar,
að þessu litla riti verði vinsamlega tekið og Húnvetningar stuðli að því, að það geti
orðið vísir að vaxandi fræðslugildi Húnavökunnar, þó að okkur sé ljóst að því sé í
mörgu áfátt og æskilegra hefði verið að prenta það.
Fyrstu tveir árgangar Húnavökuritsins voru vélritaðir og fjölritaðir við mjög svo
frumstæðar aðstæður. Á þeim tíma var ekki um aðra möguleika að ræða en handsnúinn
sprittfjölritara þar sem hver síða var sett upp á stensil. Árgangur 1961 var 27 síður í
A4 broti, fjölritaður beggja vegna á síðurnar og var gefin út í 200 eintökum. Árgangur
1962 varð hins vegar 48 síður í sama broti í svipuðu upplagi. Allar myndir í þessum
tveimur árgöngum voru teiknaðar og sáu bræðurnir, Halldór og Jón Þorsteinssynir, um
myndskreytingarnar.
Ritið var unnið að frumkvæði og fyrir tilstuðlan Stefáns A. Jónssonar og Þorsteins
Matthíassonar sem skrifuðu allt efni í ritið og sáu um útgáfu þess. Stefán var þá ritari