Húnavaka - 01.05.2008, Síða 33
H Ú N A V A K A 31
sólarlandaferð, eins og menn segja en við höfum ferðast miklu meira eftir að
við losnuðum við kýrnar. Við keyptum okkur húsbíl og höfum náð að
,,transportera“ eins og heilsa Helgu hefur leyft.
Ég hef alltaf þótt frekar latur við að mæta í fjölskyldusamkomur, fermingar
og giftingar og bar þá vanalega við að ég gæti ekki farið frá kúnum en nú er
það búið og ekki hægt að bera því við lengur. Mágur minn sá við mér er ég
varð að lofa honum því, að þegar hann gifti sig þá myndi ég mæta í gift ingar-
veisluna hans. Já, ég lofaði þessu og ég man ekki hvort hann vildi fá þetta
skriflegt hjá mér. Svo fékk ég heljarmikið boðskort og áminningu um gefið
loforð að mæta í giftingarveisluna hjá honum, nema hvað, þá er hún í Stað í
Aðalvík og þetta varð dálítið mikið ferðalag.
Við höfum bæði gaman að því að syngja og vorum mikil dansfífl hér áður
fyrr og Helga söng í kirkjukórnum í mörg ár. Ég söng alllengi í kirkjunni á
sjómannadaginn á meðan Kristján Hjartarson stjórnaði sjómannakórnum en
þegar hann hætti þá hætti ég líka. Svo var maður að gutla við að spila á
harmoniku, lærði einn vetur hjá Karli Jónatanssyni og glamra svona fyrir
sjálfan mig á gítar.
„Römm er sú taug“
Við Helga eigum tvær dætur, Þórhildi Björgu og Herdísi Þórunni. Þórhildur
er búsett á Sauðárkróki og er gift Óla Péturssyni og eiga þau tvær dætur,
Hallfríði Sigurbjörgu og Ragnheiði Petru. Herdís er í sambúð með Árna Geir
Ingvarssyni og býr á Skagaströnd og á þrjár dætur, Helgu Dögg, Silfá Sjöfn og
Ásdísi Birtu.
Ég las einu sinni bók um merkan prússneskan keisara sem átti í stríði við
Rússa, Englendinga og Frakka. Það voru allt saman drottningar sem réðu
þarna ríkjum og hann sagði að þetta væri stríðið við pilsin þrjú. En ég er búin
að vera í stríði við konuna, tvær dætur og fimm afastelpur svo ég kalla það bara
stríðið við pilsin átta og merkilegt hvað eftir er af mér enn.
Ég seldi kýrnar og kvótann 2002 og var þá orðinn þreyttur á þessari miklu
bindingu sem þeir menn hafa sem eru með mjólkurframleiðslu. Ég var búinn
að tala við dætur mínar um það hvort þær vildu taka við búskap á Árbakka en
svo var ekki. Þær voru komnar með sínar fjölskyldur og búnar að koma sér
fyrir með öðrum hætti. Konan mín á við mikil veikindi að stríða svo það var
eiginlega sjálfhætt. Þetta hætti eiginlega á sama tíma, mjólkurframleiðslan og
oddvitastarfið nema hvað ég sá nú sýnu meira eftir beljunum en oddvita-
starfinu.
„En ,,römm er sú taug“ og það hefur aldrei mátt ræða það í mín eyru að
selja Árbakka enda þótt að maður viti að sá tími kemur að maður verður að
taka pokann sinn og hypja sig. Kannski er ég búinn að gera jörðinni stórskaða
með því að hafa ekki haft vit á því að hverfa á braut en svona er það.
Raunverulega finnst mér ég hvergi eiga heima nema á Árbakka. Þegar ég
kem upp úr Hvalfjarðargöngunum þá kem ég alltaf réttu megin upp úr þeim