Húnavaka - 01.05.2008, Page 38
H Ú N A V A K A 36
- Nú og af hverju vill hann ekki að fólk viti hvar hann er? Vill hann ekki einmitt að fólk
hitti sig og biðji til sín svo hann geti hjálpað og stutt okkur og því þá að vera að fela sig í
einhverri kjallaraholu?
- Hvað er að þér manneskja, skilur þú þetta ekki? sagði hann svolítið höstugur og
pirraður út í skilningsleysið mitt á þessu annars grafalvarlega máli. - Það yrði
alltaf fullt út úr dyrum hjá honum af fólki sem vildi hitta hann og biðja hann um hitt og
þetta. Það er miklu betra að fólk fari bara í kirkju og tali við prestana og svo koma þeir til
hans og segja honum hvað fólkið var að biðja um og svoleiðis.
- Já, það er náttúrulega satt hjá þér en koma þá ekki margi prestar að heimsækja hann?
spurði ég og var nú orðin verulega spennt yfir þessu annars óvenjulega
umræðuefni og það í strætó.
- Ja, það held ég nú ekki, allavega hef ég ekki séð neina.
En, ferð þú ekkert í heimsókn til hans? spurði ég af áhuga.
- Nei, amma segir að hann sé geimfari og vilji ekki mikið vera innanum fólk.
- Ha – geimfari? – ja, þú meinar einfari, leiðrétti ég og brosti, sá samt Guð alveg
fyrir mér sem geimfara, góð samlíking.
- Já eða eitthvað svoleiðis, annars fór ég til hans um daginn með póstinn, hann hafði
ruglast saman við ömmupóst og amma sendi mig með hann. Hann þakkaði mér rosa vel fyrir
og klappaði mér á kollinn og sagði að ég hefði nú ekkert þurft að vera að koma með þennan
póst, þetta væru bara leiðinlegir reikningar.
- Reikningar? Hver sendir eiginlega reikninga til Guðs? spurði ég og var satt að segja
frekar hneyksluð í röddinni, gat ekki alveg sé fyrir mér hvað hann þyrfti að
borga fyrir.
- Nú, þú veist rafmagns og síma og svoleiðis rukkanir og svo tuðaði hann yfir einhverju
bréfi frá skattinum, sagði Stefán, rétti sig upp í sætinu og leit út um gluggann,
svona rétt til að sjá hvort vagninn væri á réttri leið.
Ég leit mjög svo hugsandi á stráksa og sagði að mér fyndist nú alveg óþarfi
að vera að rukka Guð um rafmagn og síma. Hvaða samskipti hann þyrfti að
hafa við skattinn gat ég ekki ímyndað mér en auðvitað gerði skatturinn ekki
mannamun, angraði alla hvort sem þeir væru Guðir eða bara venjulegur Jón
eða Gunna.
En Stefán hafði miklu betri skilning á þessu heldur en ég og hélt ró sinni því
satt að segja var ég hálfpartinn farin að æsa mig yfir þessu öllu.
- Hann verður náttúrulega að borga sína reikninga eins og aðrir þótt hann sé rosalega
góður kall og hafi skapað allan þennan heim og allt það. Amma er rosalega góð og hún er
alltaf að skapa eitthvað, prjónar, bakar og gefur svo allt á tombólur og basara til styrktar
fólki í útlöndum sem á ekki einu sinni vatn. Hún er alveg rosalega góð en hún þarf samt að
borga reikningana sína og örugglega gera eitthvað fyrir þennan skattakall, sagði Stefán og
lagði áherslu á orð sín.
- Já, veistu, það er þó nokkuð til í þessu hjá þér, við þurfum að borga það sem okkur ber
hvort sem við erum góð eða ekki.
- Ég held að hann sé kominn með e-mail svo að maður getur bara sent honum
tölvupóst.
- Ha, hver? spurði ég ringluð.
- Nú, Guð í kjallaranum.