Húnavaka - 01.05.2008, Síða 39
H Ú N A V A K A 37
- Nei, þú segir ekki ! –HA- Nú var ég orðin alveg gáttuð á þessum pælingum í
þeim stutta og starði opinmynnt á hann þegar ég hváði.
- Já, ég heyrði hann nefnilega vera að tala við kallana hjá símanum um að leggja til sín
beina LSD línu.
- ADSL, leiðrétti ég eins og gömul kennslukona.
- Já eða eitthvað svoleiðis svo hann væri fljótari að fara á netið og svo ætlaði hann líka
að fá sér tölvupóst. Hann var líka að pæla í því hvað það myndi kosta en mér finnst nú alveg
rétt að kirkjan og prestakallarnir sjái um það fyrir hann því að hann sparar svo mikið ef
hann er bara heima í kjallaranum og svarar e-mailum frá fólki.
Ég varð mjög svo hugsi og þagði um stund.
- En heldurðu ekki að þú ættir að kynnast þessum Guðakalli eitthvað betur og komast að
því hvað hann er að gera hér á jörðinni – og hvort hann er yfir höfuð sá sem þú heldur?
spurði ég með efasemdartón í röddinni.
- Ha, gera hér á jörðinni? Hann Guð er alls staðar og nú er hann einmitt hér í Reykjavík
í kjallaranum hjá ömmu og heitir Kristján Jónsson, sagði Stefán ákveðinn, en ég ætti
náttúrulega að athuga hann betur, hvort hann er feik eða ekki.
- Hefur þú rætt þetta við hana ömmu þína? Grunar hana líka að herra Kristján sé sjálfur
Guð almáttugur? spurði ég.
- Nei, ekki beint en hún hrópar oft uppyfir sig; - Guð minn góður, hann er byrjaður að
slá garðinn einu sinni enn, þegar Kristján gamli æðir um garðinn með sláttuvélina og eins
hefur hún sagt, - Guð forði okkur frá því að fá einhverja ömurlega leigjendur í kjallarann,
gott að hafa þann gamla. Þannig að ég held að hún viti hver hann er.
- Já, það er nefnilega það, sagði ég og brosti.
- Jæja, nú fer ég út hér, sagði Stefán og skellti gulu húfunni á ljósan kollinn og
stóð upp, bæ, bæ.
- Já, bless og takk fyrir spjallið, sagði ég og horfði á eftir honum þar sem hann
snaraðist út úr vagninum á leið til ömmu sem hefur örugglega beðið við
eldhúsgluggann með Guð í kjallaranum.
Ég sat eftir í strætó og hugsaði um þetta skrítna en þó skemmtilega samtal
við þennan strák sem var greinilega með gott hjartalag og sá Guð í góðu fólki.
Við fullorðna fólkið ættum kannski að taka hann okkur til fyrirmyndar, hætta
að dæma og einblína frekar á það góða í hvert öðru. Svo rann það upp fyrir
mér að kannski hefði þessi ungi maður getað komist að e-mailinu hjá Guði, ég
held að það gæti komið sér vel að hafa það við höndina, ef til kæmi.