Húnavaka - 01.05.2008, Page 82
H Ú N A V A K A 80
Mjólkurpósturinn
Þannig var háttað á Skagaströnd að þeir sem ekki höfðu kú keyptu mjólk frá
bændum í sveitunum í kring. Bændur komu þá með mjólkina í litlum
blikkbrúsum sem þeir afhentu á hvert heimili sem keypti mjólk. Í götunni
okkar var keypt mjólk frá bændunum fyrir utan Skagaströnd eða frá
bændabýlunum; Háagerði, Brandaskarði og Efri- og Neðri Harrastöðum. Við
keyptum mjólkina af Kristjáni í Háagerði.
Bændurnir skiptust á að flytja mjólkina en á þessum árum notuðu flestir
bændur ennþá hesta og kerrur. Gunnlaugur á Harrastöðum, sem almennt var
kallaður Laugi, átti hins vegar dráttarvél af gerðinni Farmal, græna á lit.
Hann hafði kerru, sem var máluð gul með grænum strípum, aftan í
dráttarvélinni þegar hann kom með mjólkina til okkar.
Laugi var barngóður maður og vorum við krakkarnir oft í kerrunni hjá
honum þegar hann var að dreifa mjólkinni í hús á Skagaströnd, aðallega í
útbæinn. Auk þess þurfti að fara til Kristjáns Reykdals sem keypti mjólk frá
Háagerði. Kristján bjó í Mýrinni, langt uppi í innbæ, svo bændur af Skaga
fóru alla leið þangað með mjólk. Við krakkarnir hoppuðum þá oftast af
kerrunni við Siggabúð eða Karlsskála. Við vildum ekki mæta innbæingum sem
voru fjölmennari og sterkari en við.
Laugi með kerruna og alla krakkana í götunni okkar (Bankastræti) vorið 1953 eða 1954?
Við höfum raðað okkur á kerruna fyrir ljósmyndarann. Frá vinstri eru; Biggi (Birgir
Þórbjarnarson), Sveinn Torfi, krakki aftan við Svein Torfa, sennilega Árni bróðir? Almar,
Halla, Elínborg í Sólheimum, Guðrún með Höllu Jökuls, tveir litlir krakkar, annar
sennilega Árni Björn í Sólheimum? Tóta, Stína Lúlla, krakki og Laugi.