Húnavaka - 01.05.2008, Page 84
H Ú N A V A K A 82
Grýlu en allavega fundum við stóra spýtu í fjörunni fyrir neðan hana sem
bjarga varð í land. Til þess voru hinir strákarnir sóttir og gengu menn í
spýtubjörgunarmálið með mikilli elju.
Þegar spýtan var komin heim í Tjaldklauf var rætt um að eiginlega hefði
Grýla ekki verið reið heldur sent Halla til að fá okkur til að ná spýtunni. Óx
hróður Grýlu um allan helming við þetta og fórum við oftar á hennar fund.
Grýla varð líka við bónum og bænum sem lagðar voru fyrir hana. Ég bað
hana einu sinni að útvega mér sturtubíl. Svo fékk ég sturtubíl í jólagjöf.
Í hamrinum utan við Vækilvíkina stóð líka steingervingur sem líktist trölli
og horfði út á Húnaflóa eins og Grýla. Hann var kallaður Leppalúði. Hann
var ljótari en Grýla og við krakkarnir í Tjaldklaufinni skiptum okkur lítið af
honum. Hann var líka utan við okkar svæði.
Þegar ég kom í Höfðann sumarið 2002 með leikfélögum mínum, Tótu,
Guðrúnu, Stínu og Pöllu frétti ég að búið væri að eyðileggja Grýlu. Mér féll
allur ketill í eld. Hvernig var það mögulegt? Nú myndi einhver verða fyrir
alvarlegu áfalli.
Vofur og draugar í Höfðanum
Það var seint um haustið 1953 að við krakkarnir vorum úti í Réttarholti hjá
afa og ömmu Bigga, Jóni og Þorbjörgu, að hjálpa til við að ljúka heyskap og
fleira. Veður var hálf dumbungslegt og hráslagalegt og það var að bæta í vind.
Við lukum verkum og var boðið inn í kakó áður en við færum heim.
Þegar við komum út aftur var farið að skyggja og kominn austan vindur.
Við gengum af stað í áttina upp hálsinn og fram hjá nýju beitarhúsunum.
Þegar nær dró Höfðanum og við komum á móts við Ægissíðu var orðið
nokkuð skuggsýnt og vindurinn byrjaður að ýlfra og veina í klettum og
staurum. Okkur leist nú ekki á. Við heyrðum allstaðar vein og óhljóð í vofum
og vættum og þóttumst líka sjá drauga. Allt í einu fórum við að hlaupa við fót
og brátt var komin talsverð ferð á okkur. Er nær dró grjótnáminu í Höfðanum
heyrðist okkur að ýlfrið og kveinin ykjust.
Við vorum nú farnir að hlaupa hraðar. Biggi var fyrstur og svo ég, þá Almar
og svo hinir krakkarnir. Árni bróðir byrjaði að kalla: Bíðið eftir mér, bíðið eftir
mér! Ég hægði ferðina og beið eftir Árna en þegar hann kom til mín heyrðist
mér að kvæði við ógurlegt ýlfur og vein mikið í Höfðanum. Ég setti nú á
ofsaferð á eftir Bigga og fór á harðaspretti fram hjá grjótnáminu í Höfðanum,
framhjá sprengjuskúrnum, Valhöll og Sólheimum og náði Bigga inn við
ljósastaurinn fyrir utan Steinholt. Við stóðum svo þarna við ljósastaurinn,
móðir og másandi og biðum eftir hinum. Hvernig hafði þeim reitt af ? Við
hálfskömmuðumst okkar fyrir að hafa hlaupið frá þeim og töluðum um að fara
til baka. En þá komu þau hálfgrátandi og skelkuð yfir að við höfðum skilið þau
eftir og látið þau fara ein fram hjá vofum og draugum í grjótnáminu í
Höfðanum.
En þeir yngstu skildu ekki hvers vegna við fórum að hlaupa. Heyrðu þið