Húnavaka - 01.05.2008, Page 99
H Ú N A V A K A 97
JÓN ARASON, Blönduósi:
Af gömlum bókum
Nú, þegar mikið er fjallað um niðurrif gamalla húsa í Reykjavík og samtök
stofnuð til að berjast fyrir varðveislu þeirra, er eðlilegt að hugleiða hvernig
staða Blönduóss er hvað þetta varðar. Nokkuð er til af gömlum húsum, jafnvel
frá fyrstu árum byggðar. Í fljótu bragði man ég eftir sex húsum síðan fyrir 1900
og níu sem byggð eru á fyrsta áratug tuttugustu aldar, auk nokkurra sem eru
byggð 1910-1915.
Nýverið hafa orðið eigendaskipti á gömlu kirkjunni sem er mikið farin að
láta á sjá. Hinir nýju eigendur munu hafa í hyggju að gera hana upp fljótlega
og er það vel.
Önnur af þessum elstu húsum hafa flest verið gerð upp á liðnum árum eða
er verið að því. Við erum því allvel sett í þessu tilliti en nokkuð var rifið af
húsum á síðustu áratugunum fyrir aldamótin sem eftirsjá er að.
Ekki er gerlegt að halda við öllum húsum og ekki ástæða til þess því ekki
hefur alltaf verið mikið í þau lagt í upphafi. En mikilvægt er að hafa einhverja
stefnu í þessum málum svo komist verði hjá því að óhöpp verði. Það eru t.d.
innan við tuttugu ár síðan fyrsta íbúðarhúsið, sem byggt var utan ár, var rifið
og var þá í eigu bæjarins. Mér er ekki kunnugt um að ástand hússins hafi verið
athugað fyrir rifin. Trúlega hefur vanþekking á aldri hússins ráðið þarna.
Staðurinn var lengi þekktur fyrir torfbæi sína og mógrafir en færri hafa
komið auga á að Blönduósingar voru líka fljótir að taka upp steinsteypu húsa.
Það eru ekkert mörg íbúðarhús til á landinu sem voru steypt upp fyrir 1908.
Þau eru þó fjögur til og einnig er athyglisvert að gamla verslunarhús KH er
hlaðið úr múrsteini.
Við erum líka heppin með hvað staðarbúar voru fljótir að tileinka sér
ljósmyndatæknina. Hér voru, nánast frá upphafi byggðar, ljósmyndarar sem
talsvert liggur eftir af myndum. Mér er til efs að aðrir bæir landsins geti státað
af eins miklu af myndum frá upphafsárum sínum.
Elsta myndin er tekin þegar snemma sumars 1877. Þar sjást öll húsin sem
byggð voru fyrstu tvö árin á staðnum nema skúrarnir sem voru reistir utan ár
sumarið áður. Þarna eru íbúðarhús og verslunarhús Thomsens og útihús hans,
ásamt Hillebrandtshúsi í byggingu. Auk þessara húsa eru þarna tvö hús lengst
til hvorrar handar á myndinni. Þessi hús sjást líka á myndum frá 1885.
Hugsanlegt er að þau séu bræðsluhús verslananna en heimildir eru um að
bræðsluhús Möllers hafi verið fært eftir að hann var búinn að eignast báðar
verslanirnar. Því hefur þá verið snúið um leið. Hann hefur ekki þurft bæði
húsin og rifið vestara húsið, þó ekki hafi verið búið að því 1885. En þetta er
bara tilgáta.