Húnavaka - 01.05.2008, Qupperneq 116
H Ú N A V A K A 114
UNNAR INGVARSSON frá Sólheimum:
Sjóskrímsli á Skaga
Sá sem hér frá segir er Sigurður Sigfússon, f. 1829 í Höskuldsstaðasókn en alinn upp í
Höfnum á Skaga hjá Sigurði Árnasyni og síðari konu hans, Sigurlaugu Jónasdóttur.
Sigurður Sigfússon bjó síðar á Kaldrana á Skaga ásamt konu sinni, Steinunni Ólafsdóttur.
Áttu þau dóttur, Elísabetu, f. 1857, er síðar bjó á Akureyri en tvo syni; Björn, f. 1860,
sem nefndur var Floga-Björn og Árna, f. 1865, er bjó á Brandaskarði.
Sigurður Sigfússon var röskleikamaður og veiðikló hin mesta. Hann var talinn greindur
og skilgóður. Sigurður lést árið 1877.
Í úthalli þess þriðja apríl [1854] gekk ég ofan að sjó eftir vana í refaleitir.
Þegar ég kem að Landeyjarsundi var lítið eitt að fallið og sundið grunnt. Tók
ég mér því hest og reið út í eyjuna. Sundið er mjótt um fjöru eyjarmegin,
flatarflúrur uns hærri klappir taka við. Hér skildi ég hestinn eftir, gekk upp á
eyjuna og fann þar ekkert tafarvert; fór því til baka, tók hestinn, teymdi eftir
flúrunni í fjörunni og fór á bak.
En allt í einu reis hesturinn, sem er fulltaminn og ófælinn, upp frísandi og
ærðist. Ég hrökk af baki í flæðarmálinu, reisti mig fljótt við og vildi á bak aftur.
Í sama augnabliki leit ég fælulega ókind þjóta að mér vestan sundið með
fiskiferðar hraða. Dýrið stansaði þá grynnsla kenndi en ég hörfaði norður á
flúrurnar hálf óttasleginn, þreif til byssunnar og vildi skjóta ókindina en
kveikti ekki því byssan hafði vöknað eins og ég. Þegar ég áttaði mig og óttinn
leið frá, dró ég upp skotið. Stóð á þessu nokkuð því mér var kalt, veður hvasst
og óhlýtt, auk þess hélt ég í taum hestsins sem lét alltaf illa með fælni og starði
á ókindina.
Loksins gat ég hleypt púðurleifunum úr byssunni en ekki brá dýrið við.
Hlóð ég byssuna þá mjög sem framast þorði. Meðan á þessu stóð lá dýrið
kyrrt, utan það ruggaði til beggja hliða og færðist að mér við það sem sjór
hækkaði. Ég óð út í sjóinn í hné, hleypti skotinu framan á dýrið á fjögra faðma
fjarlægð. Velti það sér þá til hálfs við til djúps og hvarf sjónum en rák í
vindgráðinu teiknaði ferð þess á sjó út. Þar eð húmað var gat ég ekki séð hvort
blóð eða feiti olli brák þessari. Ekki gaf ókindin hljóð af sér en bresta heyrðist
hátt sem líkast mundi ef skotið væri á stóran glerglugga.
Að lýsa nákvæmlega mynd þessa geigvænlega kvikindis, tjáir mér ekki svo
auðvelt, þar ég gat ekki virt það fyrir mér náglega heldur hafði hug á að drepa
það eða fæla frá mér svo ekki teptist náttlangt í eyjunni.
Líkama mikilleik sjódýrs þessa held ég fullkomlega svara tvo hesta. Framan
við það breitt og hátt að sjá, að mestu flatt fyrir; hæð þess ekki minna en 1 1/4