Húnavaka - 01.05.2008, Page 119
H Ú N A V A K A 117
PÁLMI JÓNSSON:
Árbók Ferðafélags Íslands 2007
Héraðslýsing Jóns Torfasonar
Á síðasta ári kom út árbók Ferðafélags Íslands 2007. Meginefni bókarinnar er
héraðslýsing Austur-Húnavatnssýslu eftir Jón Torfason, sagnfræðing, frá
Torfalæk. Þetta er mikið verk, að mestum hluta vel unnið og lofsvert þótt sumt
megi þar betur fara.
Höfundurinn vinnur verk sitt úr nokkrum meginþáttum sem hann fléttar
haganlega saman. Hann lýsir landslagi og kennileitum, byggðum bólum og
eyðibýlum, ásamt fjölda örnefna. Þá greinir hann frá helstu samgönguleiðum
að og frá héraðinu og innan þess og kemur nokkuð að atvinnuskilyrðum,
atvinnuþróun og búsetubreytingum. Samhliða þessu öllu dregur hann fram
gríðarmikinn fróðleik um héraðið sjálft og fólkið sem þar hefur búið allt frá
landnámi. Sú saga er að sjálfsögðu ekki samfelld, heldur er minnt á marga
forvitnilega atburði sem gerst hafa í aldanna rás og þá einstaklinga sem þar
koma við sögu. Samtímafólki gerir hann lítt eða ekki skil, enda væri það
óvinnandi verkefni.
Þótt sá sögulegi fróðleikur, sem þannig kemur fram í bókinni, sé allmikill að
vöxtum er hann aðeins lítið brot af öllu því efni sem höfundurinn hefur dregið
saman við undirbúning þessa verks. Síðan hefur komið að því að velja og
hafna, því eins og hann segir sjálfur í eftirmála gat bókin „ekki orðið
endalaus”.
Ef til vill geta menn eitthvað rennt grun í það gríðarlega umfang heimilda
og fræðirita sem höfundur hefur dregið að sér við þetta verk með því að fletta
skrá um skýringar og tilvitnanir og í öðru lagi skrá um heimildir, sem samtals
þekja liðlega tuttugu blaðsíður í bókinni. Augljóst er að það tæki meðalmann
ærinn tíma að lesa öll þau fræði.
Svo sem kunnugt er hefur Jón Torfason áður ritað allmikið um húnvetnska
sögu og húnvetnsk fræði og má sumt af því kalla meiri háttar verk. Ég tel því
óhætt að líta svo á að hann sé ekki einungis mesti fræðaþulur okkar
Húnvetninga sem nú er uppi heldur sé hann einnig afkastamikill rithöfundur.
Augljóst er af héraðslýsingu Jóns að hann er ritfær í besta lagi. Hann skrifar
góða íslensku, lifandi og óþvingaðan texta, stundum næsta góðlátlegan. Aldrei
fellur hann í þá gryfju að nota þurra upptalningu, þegar hann lýsir t.d. röð af
örnefnum eða eyðibýlum, heldur fær hver staður umsögn sem gefur honum líf