Húnavaka - 01.05.2008, Síða 121
H Ú N A V A K A 119
fólk úti á Skaga. Færi ég á hinn bóginn frá Hvammi í þá átt, sem ég tel vera
vestur, kæmi ég í mína gömlu heimasveit og að lokum skammt frá Torfalæk.
Ég tel þarflaust að nefna fleiri dæmi.
Ég hallast að því að þær skekkjur sem fram koma í bókinni og varða þær
leiðir sem liggja beggja vegna Hlíðarár, sem fellur úr syðsta hluta Laxárdals í
Svartá hjá Bólstaðarhlíð, séu fremur misfellur á texta en áttavilla. Leiðin um
Hreppa, sunnan Hlíðarár, liggur auðvitað ekki sunnan í Botnastaðafjalli
heldur við norðurenda þess og þegar farið er hinum megin Hlíðarár, um
Höfðabrekkur, liggur leiðin sunnan eða suðaustan í brekkum Hlíðarfjalls en
ekki norðan í fjallinu eins og sagt er frá í bókinni.
Örnefni
Bók þessi hlýtur að teljast fræðirit. Því er bagalegt að sjá villur sem varða
örnefni og brjóta í bága við það sem best er vitað af nákunnugum og stangast
á við örnefnaskrár sem liggja fyrir í Örnefnastofnun. Til eru í bókinni villur
sem nánast er óhugsandi að eigi uppruna sinn hjá höfundi. Ég nefni tvö dæmi:
Tvisvar sinnum er réttilega nefnt Hólsberg sem er skammt frá bænum á
Kagaðarhóli en einu sinni er þetta örnefni kallað Kagaðarhólsbjarg en það
nafn hafa sennilega fáir eða engir heyrt áður. Það getur ekki gerst að höfundur
kalli sama örnefnið tveimur nöfnum og ekki heldur að kalla Jón S. Pálmason
á Þingeyrum, Stefánsson. Þessar villur hljóta að hafa orðið til í meðförum,
frekar við prófarkarlestur en í prentun.
Sum örnefni jarðanna Geirastaða, Akurs og Kringlu tel ég ekki rétt skráð í
þessari bók. Þau stangast á við það sem ég veit best og einnig við örnefnaskrár
jarðanna. Í bókinni er talað um Geirastaðatanga og Vaðeyri, hvort tveggja í
landi Geirastaða. Nafnið Geirastaðatangi hef ég aldrei heyrt, heldur ávallt
Ferjutangi, eins og skráð er í örnefnaskrá Geirastaða en þar segir líka, að fram
yfir aldamótin 1900 hafi lögferja verið frá Akri á milli Akurshorns og
Ferjutanga. Þar hefur ævinlega verið kallað, að fara „á milli horna“. Nafnið
Vaðeyri sá ég einhvers staðar fyrir fáum árum en fyrir og eftir það tilvik hef ég
aldrei heyrt annað en Vaðtangi eins og stendur í örnefnaskrá. Frásögnin af
Geirastaðabungu er algerlega í samræmi við það sem segir í örnefnaskrá, að
hún sé „nánast ber melur“. Mér þykir þó rétt að fram komi að breyting er á
orðin. Um og upp úr 1990 sáði eigandi Þingeyra, Ingimundur Sigfússon,
lúpínu í Geirastaðabungu og næsta umhverfi hennar. Lúpínan hefur dafnað
vel og innlendur gróður er tekinn að vaxa í skjóli hennar. Þetta land er nú að
heita má algróið.
Á merkjum jarðanna Akurs og Kringlu er hóll sem heitir Dagmálahóll frá
Akri en Náttmálahóll frá Kringlu og eru þessi nöfn í örnefnaskrám beggja
jarðanna. Í bókinni eru þessi örnefni kölluð Dagmálavarða og Náttmálavarða.
Þessi nöfn höfum við aldrei heyrt hvorki á Akri eða á Kringlu og ógerlegt að
ímynda sér hvaðan þau eru komin enda er engin varða á hólnum. Aðrar
misfellur er varða örnefni í landi Akurs skipta litlu máli. Ég hef t.d. aldrei heyrt