Húnavaka - 01.05.2008, Side 123
H Ú N A V A K A 121
gögnum eða bréfum. Gildir þá einu hvort um er að ræða byggðarlög,
sveitarfélög, stofnanir eða mannanöfn. Það hefur ekki þótt við hæfi að nota
gælunöfn eða eitthvað sem menn halda að sé mýkra í munni. Eina formlega
nafnið á okkar héraði er Austur-Húnavatnssýsla og alls engin ástæða til að
ganga fram hjá því. Augljóst er að höfundur hefur ekki skrifað verk sitt með
það að markmiði að það yrði nefnt „Húnaþing eystra“. Hvergi í texta hans er
þetta nafn að finna. Á hinn bóginn koma liðlega 20 sinnum fyrir nöfnin
Húnavatnssýsla og Austur-Húnavatnssýsla og stundum er byggðarlagið
einfaldlega kallað héraðið eða sýslan og fer hvort tveggja vel. Þá kemur alloft
fyrir orðið Húnaþing, sem er stytting á hinu upprunalega nafni, Húnavatnsþing.
Því hlýtur það að hvarfla að lesendum að einhver annar en höfundurinn hafi
fundið upp á því að kalla bókina því nafni sem á henni er.
Höfundur endursegir hluta af texta Vatnsdæla sögu og segir „að Ingimundur
gamli hafi fundið beru og tvo húna á Húnavatni. Er nafn héraðsins dregið af
þessum dýrum og notað í skjaldarmerkjum sýslanna.“ Hér er fljótræðislega
farið yfir sögu. Í fyrsta lagi var vatnið nafnlaust þegar dýrin fundust og í annan
stað er dregin af röng ályktun.
Í Vatnsdæla sögu segir: „Þetta haust voru ísalög mikil og er menn gengu á
ísana, þá fundu menn birnu eina og með henni húna tvo. Ingimundur var í
þeirri ferð og kvað það Húnavatn heita skyldu.“ Þetta nafn hefur haldist á
vatninu æ síðan.
Ekki hef ég undir höndum gögn um það hvenær fyrst var stofnað til
þinghalds í héraðinu. Áreiðanlega liðu nokkur ár frá landnámi, líklega áratugir.
En því var valinn staður nálægt miðbiki héraðsins á milli Hóps og Húnavatns
og kallað Húnavatnsþing. Nafn héraðsins varð og hið sama. Nafnið er dregið
af örnefninu Húnavatn en ekki af dýrum þeim sem áður höfðu ráðið nafni
vatnsins. Ef nafn þingsins og héraðsins hefði verið “dregið af þessum dýrum“,
eins og segir í bókinni, hefði strax orðið til nafnið Húnaþing. Þá hefðu íbúarnir
verið kallaðir Húnar og samheitið Húnvetningar aldrei orðið til.
Nær alls staðar á landinu voru þing kennd við örnefni en hvergi við dýr svo
ég muni til. Þorskafjarðarþing á sér mikla hliðstæðu við Húnavatnsþing hvað
nafngift varðar. Fjörðurinn mun hafa verið fiskisæll og hlotið nafn sitt af því.
Síðar var þar stofnað þing sem sótt var um langan veg og kallað Þorskafjarðarþing.
Fáum mun koma í hug að það dragi nafn sitt af fiskinum í sjónum heldur af
örnefninu Þorskafjörður. Þótt staðsetning Húnavatnsþings virðist eðlileg með
tilliti til aðstæðna og samgangna er hægt að hugsa sér að aðrir staðir hafi
komið til greina. Það er t.d. hægt að gera því skóna að þinginu hefði verið
valinn staður við Svínavatn. Þá hefði orðið til nafnið Svínavatnsþing, nafn
héraðsins orðið hið sama og héraðsbúar kallaðir Svínvetningar. Engin
eðlismunur er á þessum nöfnum. Bæði eru dregin af örnefnum, vötnum, sem
áður höfðu hlotið nöfn sem kennd voru við dýr. Deildar meiningar geta svo
verið um hvor dýrategundin sé merkilegri, nytjadýrin eða villidýrin.
Fleiri röksemdir þarf varla til þess að sýna fram á að nafnið á héraði okkar,
Húnavatnsþing og síðar Húnavatnssýsla, er dregið af örnefninu Húnavatn en
ekki af dýrum þeim sem fundust á ísnum forðum.