Húnavaka - 01.05.2008, Page 125
H Ú N A V A K A 123
heldur eins konar húsmennskubýli frá Torfalæk og var það í daglegu tali oft
kallað „Bærinn“. Upp úr 1950 lauk búskap á Grund og á 6. áratugnum voru
hús in þar tekin niður og nú breiða rennislétt og grasgefin tún Torfalækjarbónda
sig yfir allar minjar um líf og starf fólksins sem þarna bjó. Sú saga hefur gerst
víðar.
Mér þótti fróðlegt og notalegt að lesa um hugsanlega bólfestu hollvættar í
Króksbjargi. Það þótti mikið undur, þegar drengurinn frá Króksseli féll fram
af bjarginu sumarið 1961, að hann skyldi halda lífi. Þá heyrði ég rætt um að
við tiltekin veðurskilyrði væri uppstreymi við bjargið mjög sterkt og kynni það
að hafa haft áhrif á fallhraða drengsins. Skal þó á engan hátt dregið úr mögu-
legum verndarmætti jarðvegsfyllu eða hollvættarins. Enn furðulegra er ef
hross hafa komið lítt eða ekki skemmd niður eftir slíkt fall. Fleiri stoðum er þó
hægt að renna undir kenninguna um hollvættinn.
Fyrir tveimur til þremur áratugum fór ungur maður, lítt eða ekki sofinn,
snemma morguns akandi skurðgröfu norður veginn ofan við bjargið. Honum
leiddist skarkalinn í beltavélinni við að aka eftir veginum og keyrði út á sléttan
grasbala sem er á milli vegarins og bjargsins og tók þá að mestu fyrir
skarkalann. Veður var gott, glampandi sólskin og heitt í vélarhúsinu. Maðurinn
sofnaði. Hann hrökk upp við það að vélin snarstoppaði og drap á sér. Að sögn
eins þeirra sem kom að því að ná vélinni upp sást einungis í olnboga á armi
vélarinnar frá veginum. Hún var komin niður í þrönga klauf í bjargbrúnina,
belt in á vélinni námu við brúnina sitt hvoru megin klaufarinnar og skóflan við
syllu niðri í berginu. Ef vélin hefði farið örlítið lengra var hún farin niður og
eins ef hún hefði farið örlítið meira til hægri eða örlítið meira til vinstri, þá var
hún líka farin niður. Áreiðanlega hefur trúin á hollvættinn ekki veikst við
þennan atburð.
Sögnin af Boga sýslumanni er færð í þjóðsagnastíl. „Eitt sinn fyrr á árum
var maður sá er Bogi hét…….“ Þessi byrjun á texta leiðir ókunnuga beint
aftur á tíma þjóðsagnanna, jafnvel aftur á 17. eða 18. öld. Bogi Brynjólfsson
var sýslumaður Húnvetninga 1918-1932 en þá tók við Guðbrandur Ísberg,
sbr. Húnaþing I. Bogi þótti dálítið sérkennilegur, einkum í tilsvörum og lifa
ýmis þeirra enn. En vísan sem þarna birtist er húnvetnsk kersknisvísa og gefur
engar bendingar um álit héraðsbúa á sýslumanni eða öfugt. Ég hef ekki heyrt
annað en vel látið af embættisfærslu Boga og ýmsir hafa í mín eyru borið
honum vel söguna sem yfirvaldi. Hitt skiptir svo litlu eða engu að ég heyrði
ávallt sagt að hatturinn hafi fokið út á Blöndu og „hausinn ekki fylgdi“ en
trúlega er það miklu myndarlegra að þetta hafi gerst úti á Króksbjargi og má
vel vera að svo hafi verið.
Lokaorð
Héraðslýsing þessi er mikið og merkilegt verk, sem höfundurinn, Jón Torfason,
á skilið þakkir fyrir. Lofsyrði þau sem ég lét falla í upphafi þessarar umsagnar
eru makleg og hvergi um of.