Húnavaka - 01.05.2008, Page 126
H Ú N A V A K A 124
Því þykir mér það ennþá verra að ég hef ekki talið annað fært en að ræða
nokkr ar misfellur á verkinu sem óneitanlega veikja nokkuð gildi þess.
Því fremur er það leiðinlegt, sem flestar þessar misfellur eru einfaldar villur,
sem auðvelt hefði verið að komast hjá. Varnagli Jóns í eftirmála varðandi áttir
og örnefni er því miður gagnslaus. Engin málvenja helgar missagnir verksins
um áttir og ef ótraustar heimildir eða tvíbent vitneskja er um örnefni, verður
að telja sjálfsagða kröfu að kanna örnefnaskrár og láta upplýsingar þeirra
ráða.
Þegar lokið er svona verki spyr enginn hvað það tók langan tíma. En allir
eru fljótir að reka í það augun ef einhvers staðar er ekki rétt með farið. Örfáar
vikur hefðu átt að duga höfundi til þess að lagfæra flest eða allt það sem betur
mátti fara. Þá hefði þessi ritsmíð mín orðið styttri og flutt það sem mér væri
kærara, einvörðungu lofsyrði.
PÁLMI JÓNSSON:
Leiðrétting
Í bókinni „Úr sveitinni“, sem gefin var út á síðasta ári af Gísla Pálssyni á
Hofi, er grein eftir undirritaðan um Beinakeldu og ábúendur þar í ára-
tugi, Eystein Erlendsson og Guðríði Guðlaugsdóttur.
Þar verður mér það á að taka upp, nær orðrétt og án gagnrýni, frásögn
Jónasar B. Jónssonar í grein um Giljárbræður, í bókaflokknum „Bóndi er
bústólpi“, um makaskipti á hálfu heimalandi Beinakeldu og hálfum
Sauða dal á milli Erlendar á Beinakeldu og Jóseps Skaftasens í Hnausum.
Síðar sá ég að þetta fær ekki staðist því Jósep Skaftasen er talinn látinn
1875 eða átta árum áður en Erlendur kaupir hálfa Beinakeldu.
Hafi Skaftasen komið að þessum viðskiptum hlýtur það að hafa verið í
tíð fyrri eiganda Beinakeldu, t.d. Kristjáns Benediktssonar eldra á Hæli.
Hafi Erlendur á Beinakeldu átt þar hlut að máli, hlyti hinn aðili málsins
að hafa verið síðari tíma bóndi í Hnausum, e.t.v. Magnús Steindórsson.
Slíkar getgátur eru að sjálfsögðu gagnslausar án þess að gögn séu könn-
uð, aðeins beðist velvirðingar á þessum mistökum.
❄❄❄