Húnavaka - 01.05.2008, Side 135
H Ú N A V A K A 133
sinnum 3 slög og að messu lokinni þrisvar sinnum 3 slög, stóru klukkunni. Eftir
að allir fóru að koma til messu á bílum og á svipuðum tíma, breyttust hring-
ingahefðir þannig að báðum klukkum er samhringt 12 sinnum 3 slög í
messubyrjun og svo þrisvar sinnum 3 slög eftir messu, stóru klukkunni.
Önnur klukkan er afar stór og nýleg, þvermál 58 cm. Á kápu er áletrun:
1911 / Ásgeir Einarsson / Guðbrandur Vigfússon / C. VOSS c SOHN
STETTIN. / NO: 1943. Skrautborðar eru á klukkunni efst, við koll og einnig
ofan á slaghring og mannshöfuð á sex endum krónunnar efst. Þessi klukka
kom í stað klukku álíka stórri sem steypt var af Joh. Berthold Holtzmann í
Kaupmannahöfn 1752 en sú klukka rifnaði við hringingu á nýársdag 1898.
Slíkir atburðir þóttu boða stórtíðindi fyrrum og var þessi talinn hafa boðað að
innan árs andaðist Jón Ásgeirsson sem fyrr var bóndi og eigandi Þingeyra,
sonur Ásgeirs Einarssonar sem lét byggja kirkjuna, mikið glæsimenni og
góðum gáfum búinn.
Á minni klukkunni er áletrun: STÖPT AF I + I + RITSMANN +
KIÖBENHAFN + ANNO 1834. Skrautkransar eru yfir og undir áletruninni,
vídd klukkunnar er 39 cm.
Viðhald kirkjunnar
Þingeyrakirkja sem var í upphafi traustlega byggð ber þess merki enn í dag, þar
er hver steinn á sínum stað. Kalkið sem límdi grjótið saman og þétti veggina
þoldi hins vegar ekki ánauð veðrunar þegar árum fór að fjölga.
Nokkuð snemma á tuttugustu öld var farið að bera á því að rifur á milli
steina væru farnar að opnast, þá var byrjað að setja múr í þær sem opnastar
voru og því framhaldið með nokkurra ára millibili, þar til að á áttunda
áratugnum var gerð mikil viðgerð sem átti að vera varanleg. Múr var settur í
allar opnar rifur og þar sem mest reyndi á var múrhúð dregin upp á steinana
svo að þeir hurfu á sumum svæðum.
Þessi viðgerð varð til þess að múrhúðin, sem var sterkari en steinninn sjálfur,
safnaði undir sig raka sem sprengdi múrinn frá veggnum í frostum og tók þá
með sér flísar af grjótinu í veggnum, þetta var sýnilega ekki hægt að búa við.
Fimmtánda nóvember 1985 gerði ofsaveður með miklum sviptivindum og
tók einn slíkur vindsveipur turnþakið af í heilu lagi og lenti því fast við
norðvesturhorn kirkjugarðsins, án þess þó að það ylli skemmdum á girðingu
garðsins. Samið var við Stíganda hf. Blönduósi um að byggja nýtt þak á
turninn, nákvæmlega eins og hitt var, það var svo fest á veggina með öflugum
festingum inni í turninum.
Árið 1997 var Jóhannes Þórðarson, múrarameistari á Blönduósi, ráðinn til
að meitla allan múr af grjótinu í veggnum og einnig úr öllum rifum, jafnt
smáum sem stórum milli steina í hleðslunni, frá því neðsta til hins efsta og
múra milli steinanna að nýju með múrblöndu sem hafði herslu til jafns við
grjótið í veggnum. Samhliða þessu voru allir gluggar meitlaðir frá veggjunum
þar sem járnið í þeim var byrjað að tærast að utan, þeir afglerjaðir og sendir