Húnavaka - 01.05.2008, Síða 149
H Ú N A V A K A 147
ÞÓRHILDUR ÍSBERG, Blönduósi:
Endurbyggjum Ytri-Eyjarstofu
Ritstjóri Húnavöku er vinsamlegast beðinn að birta hjálagt bréf sem undirrituð skrifaði til
Héraðsnefndar árið 1996. Bréfið á að vekja til umhugsunar þá miklu möguleika sem felast
í því að kynna það einstaka afrek er unnið var með því að koma á fót Kvennaskóla Hún-
vetninga árið 1879.
Kennsla í Ytri-Eyjarstofu á árunum 1879-1900, með um 40 nemendum, er auðvitað
mikið kraftaverk sem vert er að minna á.
Ég bið lesendur Húnavöku að íhuga þetta áhugamál mitt.
Héraðsnefnd Austur-Húnavatnssýslu.
Erindi þessa bréfs er að óska eftir því við Héraðsnefnd A.-Hún. að hún at -
hugi með að hin svokallaða Ytri-Eyjarstofa verði endurbyggð, þ.e. byggð upp
í sinni raunverulegu mynd.
Á Ytri-Ey bjó Arnór Árnason sýslumaður og kammerráð á árunum
1847-59, einkennilegur maður og flaumósa sem skrýtnar sagnir eru til um.
Hann hafði ráðsmann þann er Hjalti hét, bróður Bergs Thorbergs
landshöfðingja. Sýslumaður fylgdist lítt með búskapnum og vísaði jafnan til
Hjalta síns. Það kom fyrir er hann var spurður um hve margar kýr hann hefði
í fjósi eða hvað smalamaður hans héti, að hann gat svarað þessu einu. „Hann
Hjalti minn veit það“, kallaði síðan í ráðsmanninn og spurði, „Hjalti minn,
Hjalti minn. Hvað heitir helvítis smalinn okkar núna, Hjalti minn?“
Þessa skemmtilegu mannlýsingu er að finna í bókinni Föðurtún eftir Pál
Kolka lækni, útg. 1950. Og þannig lýstu Húnvetningar sýslumanni sínum,
þeim heiðursmanni Arnóri Árnasyni er kom til sýslunnar 1848, keypti Ytri-Ey
fyrir 700 rd. og byggði þar mikið og vandað timburhús. (Heimild: Brandsstaða-
annáll útg. 1941.)
Sagan af sýslumanni er góð, hún er mjög snjöll mannlýsing en hún gefur
einnig góða mynd af Húnvetningum, það var auðvitað hugsað mest um kýr
og kindur, „hvað annað“? Harðindi og fátækt mótuðu þetta fólk.
Timburhúsið á Ytri-Ey hefði frá mörgu að segja ef það væri nú uppistandandi
en því miður er það ekki svo því á þeim árum fátæktar og strits var ekki hugsað
svo langt að raunveruleg fjárfesting væri í því fólgin að varðveita sögulegar
heimildir í húsum eða bæjum, svo að við gætum á þann hátt sýnt og sannað
fyrir eftirkomendum okkar hvernig þetta var.
Í sögu Kvennaskóla Húnvetninga útg. 1939 er allgóð heimild um hvernig
að þeim málum var staðið alveg frá byrjun. Þökk sé því fólki er lét skrá niður
sögu skólans og þannig varðveiti þær heimildir svo að ekki verður um villst.