Húnavaka - 01.05.2008, Blaðsíða 150
H Ú N A V A K A 148
Eins og kunnugt er þá keypti sýslunefndin húsið á Ytri-Ey árið 1883 ásamt
geymsluhúsi og skúr, túnbletti þeim er húsið stóð á og það af landi Ytri-Eyjar
sem er sunnan Eyjarár. Kaupverð var kr. 2500,00. „Hart var í ári, lítið fé til
umráða og erfitt að fá lánsfé.“ (Kvennaskóli Húnvetninga 1879-1939.)
Ég sagði að Kvennaskólahúsið á Ytri-Ey hefði að sjálfsögðu frá miklu að
segja ef það væri uppistandandi nú. Þannig mætti gera sér í hugarlund hvernig
og við hvaða aðstæður stúlkur bjuggu sem á þessum árum leituðu sér
menntunar. Það mætti segja mér að orðið heimavistarskóli hafi ef til vill ekki
verið til í málinu þegar fjallað var um menntun kvenna eða skólavist fyrir
ungar stúlkur og sennilega hafi Ytri-Eyjarskólinn verið fyrsti heimavistarskóli
ungra stúlkna á Íslandi.
Við Húnvetningar eru með mjög merkilega heimild í höndunum, svo góða
heimild um hvernig skólahúsið á Ytri-Ey var í stórum dráttum, að það væri
hægt að endurbyggja Ytri-Eyjarstofu og styðjast við þær heimildir sem eru í
sögu skólans og einnig þær heimildir aðrar sem eru í skjalasafni og öðrum
plöggum skólans frá þeim tíma og eru eins og flestum er kunnugt varðveittar
í Héraðsskjalasafni A.-Hún. á Blönduósi.
Endurbygging Ytri-Eyjarstofu væri stórmerkilegt framtak og verðugt
verkefni fyrir okkar virðulegu Héraðsnefnd og einnig fyrir okkar góðu og
merku Húnavatnssýslu. Endurbygging slíkra mannvirkja mundi vissulega gefa
Heimilisiðnaðarsafni mun meira gildi. Þar væri hægt að sýna og sanna við
hvað nemendur á slíkri stofnun bjuggu, svefnpláss uppi á lofti sem hýsti um 40
nemendur og tvær stofur niðri þar sem að kennd voru fræðin, svo sem
handmennt og einnig bókleg fög, íslenska, danska, enska, reikningur, grasafræði
o.fl. Sýnileg saga um menntun kvenna fyrir um rúmlega eitthundrað árum er
auðvitað stórmerkileg heimild fyrir íslenska sögu.
Í stórum dráttum hefi ég hugsað mér að endurbygging Ytri-Eyjarstofu yrði
þannig að byggt yrði eins og áður er sagt eftir þeim heimildum, sem að til eru
um þessa stofu, þ.e. í úttektarheimildum o.fl. Þannig mætti fá mjög nákvæma
endurbyggingu. Það segir svo í sögu skólans: “Það var 15 al. langt og 11 al.
breitt, rismikið, en heldur lágt undir loft”. Þessari endurbyggingu Ytri-
Eyjarstofu má svo koma fyrir við hliðina á núverandi Heimilisiðnaðarsafni á
lóð Kvennaskóla Húnvetninga. Hún myndi þá að sjálfsögðu hýsa ýmsa muni
safnsins s.s. stóra hluti, t.d. gamla eldavél, grófari tóvinnuáhöld o.fl. o.fl. Það
yrðu ótrúlega miklir möguleikar með sýningaraðstöðu og síðast en ekki síst,
fengjust upplýsingar um menntun kvenna og menntunaraðstöðu í sveitum
landsins fyrir um eitthundrað árum en það er auðvitað gulls ígildi fyrir sögu
þjóðarinnar og ferðamenn á Íslandi.
Þessi hugmynd hefur verið nokkuð lengi að ýta við mér en nú hefi ég komið
þessu á framfæri við ykkur í héraðsnefndinni, ég veit að þið munið lesa
tillöguna og ef til vill hugleiða hana.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Ísberg.