Húnavaka - 01.05.2008, Side 163
H Ú N A V A K A 161
félags hreppsins, var einnig nokkur sumur „í verðinum“ sem svo var nefnt,
frammi á Eyvindarstaðaheiði og allt fram til Kjalar.
Árið 1946, hinn 31. desember, gekk Jón að eiga Sigríði Ólafsdóttur frá
Mörk á Laxárdal. Sigríður reyndist manni sínum einkar farsæll lífsförunautur,
búsýslukona mikil, listræn til hugar og handa og jafnan virk í félagslífi sveit-
arinnar. Ári síðar hófu þau búskap í félagi við
Jónas, bróður Jóns, á jörðinni Ytra-Tungukoti,
hjáleigu frá Finnstungu. Jónas flutti síðar til
Blönduóss. Jörðina skírðu þau upp og nefndu
Ártún.
Segja má að þau breyttu koti í höfuðból. Reist
var tveggja hæða steinhús á jörðinni strax á fyrsta
búskaparári í stað gamals torfbæjar er fyrir var og
fáum árum síðar steinsteypt fjós ásamt hlöðu en
jafnan ráku þau blandað bú með mjólkursölu.
Börn Jóns og Sigríðar urðu sjö og eru talin í
aldursröð: Ingi Heiðmar, Tryggvi Þór, Guðrún
Þóranna, Klara Sólveig, Margrét, Ólöf Una og
yngstur er Ásgeir.
Árið 1976 byggði Tryggvi og fjölskylda hans íbúðarhús þar í túninu og hófu
búskap í samstarfi við foreldrana. Rak Tryggvi kúabúið en Jón sá um
kindurnar. Er heilsu hans tók að hraka síðustu árin dró hann sig út úr
búskapnum og lét alfarið í hendur syni sínum.
Félagsmálaáhugi var Jóni í blóð borinn ásamt tónlistarhæfileikum. Það var
arfur úr foreldra húsum. Jón tók sæti í hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps árið
1946 og oddviti sveitarstjórnar var hann 1961-1982 eða í rúma tvo áratugi,
einnig átti hann sæti í sýslunefnd A-Hún. frá 1961-1988. Hann sat í stjórn
Kaupfélags Húnvetninga og Sölufélags A-Hún. um árabil, einnig í stjórn
Búnaðarfélags Bólstaðarhlíðarhrepps, var formaður ungmennafélags
sveitarinnar frá 1938-1945 og fjallskilastjóri hreppsins 1946-1962.
Í félagsstarfinu átti hann hlut að ýmsum framfaramálum í sveitinni, meðal
annars byggingu félagsheimilisins Húnavers sem vígt var 7. júlí 1957 og reynst
hefur ómetanleg lyftistöng öllu menningarlífi sveitarinnar í hálfa öld.
Deilurnar um virkjun Blöndu í upphafi 9. áratugarins reyndust honum hins
vegar erfiðar. Það urðu honum vonbrigði að ekki tókst að finna málamiðlun í
þeirri deilu sem allir gætu sætt sig við. Baráttu hans fyrir verndun húnvetnskra
heiða mun lengi minnst verða í þeirri umræðu.
Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu hlaut Jón 1. janúar 1988 fyrir störf
sín að félags- og söngmálum.
Undirstöðuatriði í orgelleik nam Jón af móður sinni. Eitt námskeið sótti
hann hjá Páli Ísólfssyni í Reykjavík en var að öðru leyti sjálfmenntaður í
faginu. Faðir hans var einn af stofnfélögum Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps
og tók syni sína unga með sér á kóræfingar. Segja má því að Jón hafi að nokkru
alist upp í kórnum. Söngstjóri kórsins varð hann 1952, tók við starfinu af
Jónasi bróður sínum og ætlaði aðeins að leysa af tímabundið. En úr því