Húnavaka - 01.05.2008, Blaðsíða 177
H Ú N A V A K A 175
af sjálfsdáðum, hann var alla tíð mikill bókamaður, átti stórt bókasafn og var
víðlesinn.
Þegar fram liðu stundir varð það hlutskipti þeirra hjóna, Kristjáns og
Árnýjar, að byggja upp jörðina Steinnýjarstaði, bæði húsakost og tún. Það
gerðu þau af miklum dugnaði og eljusemi með hjálp og þátttöku barna
sinna.
Þó landbúnaðarstörfin hafi átt hug Kristjáns og hjarta vann hann ýmis
önnur störf um ævina. Á sínum yngri árum var Kristján til sjós, bæði frá
Skagaströnd og einnig frá Grindavík. Hann vann einn vetur við byggingarvinnu
á Keflavíkurflugvelli og sumarið 1963 vann hann við bryggjusmíðar á
Neskaupstað. Hann var um tíma í togaralöndun á Skagaströnd en Kristján var
fyrst og fremst bóndi sem þótti vænt um jörðina, dýrin og náungann.
Kristjáni var margt gefið og hans er sérstaklega minnst fyrir glaðværð,
heiðarleika og hjálpsemi. Hann var viljugur að taka þátt í sameiginlegum
verkum sveitarinnar og lagði þar sitt af mörkum. Hann sat m.a. í hreppsnefnd
Skagahrepps í 20 ár, var í Búnaðarfélagi Skagahrepps frá árinu 1965 og var
þar ritari til æviloka.
Kristján var trúmaður og lét sér sérstaklega annt um Hofskirkju. Hann var
formaður sóknarnefndar frá árinu 1985 til dauðadags og þeim störfum sinnti
hann ötullega. Kristján sinnti líka fleiri félagsstörfum og hafði mikinn áhuga á
að starfa með öðrum. Hann var lengi í stjórn Rauðakrossdeildarinnar á
Skagaströnd og var virkur í því eins og öðru sem hann tók sér fyrir hendur.
Hann lést á sjúkrahúsinu á Akranesi.
Útför Kristjáns Kristjánssonar var gerð frá Hofskirkju 20. október 2007.
Sr. Fjölnir Ásbjörnsson.
Gunnar Helgason,
Skagaströnd
Fæddur 23. september 1924 – Dáinn 19. október 2007
Gunnar Helgason fæddist að Háreksstöðum í Norðurárdal. Foreldrar hans
voru Helgi Þórðarson, 1877-1951 og Ingibjörg Skarphéðinsdóttir, 1890-1965.
Gunnar var yngstur átta systkina. Af þeim eru tvö á lífi, það eru Sigurlaug og
Sigríður, hin eru Lára Kristín (hálfsystir), Rögnvaldur Ingvar, Sigurþór, Laufey
og Óskar.
Gunnar kvæntist þann 14. september 1952, Elísabetu Guðmundu
Kristjánsdóttur, f. 30. september 1925, dáin. 21. mars 1991. Foreldrar hennar
voru Unnur Gíslína Björnsdóttir og Kristján Sigurðsson.
Gunnar og Elísabet eignuðust þrjú börn. Elstur er Kristján Helgi, fæddur
1952, búsettur á Skagaströnd, hans kona er Alda Ragnheiður Sigurjónsdóttur.
Næst er Eygló Kristín, fædd 1955, búsett á Skagaströnd, hennar maður er
Guðmundur Ólafsson. Yngst er Unnur Ingibjörg, fædd 1957, búsett í
Reykjavík, hennar maður er Vilmar Þór Kristinsson.
Gunnar ólst upp í Hrútafirði í Vestur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans ráku