Húnavaka - 01.05.2008, Page 179
H Ú N A V A K A 177
sem var fædd að Gafli í Svínadal. Foreldrar hennar voru Guðlaug Hallgríms-
dóttir og Sigurvaldi Jósefsson.
Börn Haraldar og Guðrúnar eru: Óskar, Birgitta Hrönn, kjördóttir Halldórs
Eyþórssonar og Guðbjargar Ágústsdóttur, Ásgeir,
Sigurjón, Þorbjörn, Hall grím ur og Þór halli.
Haraldur bjó yfir mörgum góðum gáfum og
var næmur náttúruunnandi. Hann hafði fagra
tenórrödd og söng með Karlakór Bólstaðar-
hlíðarhrepps. Hann spilað á hljóðfæri, svo sem
mandólín, gítar, munnhörpu og ef ekki var annað
tiltækt – þá bara á sög! Hann var hamhleypa til
verka og kom víða að þar sem byggt var í
Húnaþingi á búskaparárum sínum. Haraldur
kom að smíði flestra bygginga sem reistar voru í
Svínavatnshreppi á þessum árum. Hvers konar
viðgerðir léku í höndum hans, svo sem véla- og
bílaviðgerðir og það vafðist ekki fyrir honum að
leggja raf- og pípulagnir eða að handleika múrspaða ef þurfti.
Þegar leið á ævina keypti hann sér trillubát og stundaði handfæraveiðar á
Faxaflóa sér til mikillar ánægju. Hann lagði einnig stund á listmálun og
skógrækt. Hann lærði á tölvu um sjötugt og tók að grúska í ættfræði og liggur
eftir hann allnokkur fróðleikur á því sviði. Auk þess skrifaði hann áhugaverða
og fróðlega kafla um ævi sína.
En ekki síst var Haraldur hagyrðingur og ljóðskáld. Hans kunnasta vísa er
sjálfsagt meðfylgjandi vísa sem hann orti á Hveravöllum um Gísla heitinn
Jónsson, gangnaforingja á Stóra-Búrfelli:
Klút og pontu kann að meta,
kær er einnig stúturinn.
Létt hann Blesa lætur feta,
lifi gangnaforinginn.
Haraldur lést á Landspítalanum. Útför hans var gerð frá Neskirkju þann 7.
nóvember 2007.
Sigrún Ásta Haraldsdóttir.
Aðalbjörg Guðrún Þorgrímsdóttir,
Holti
Fædd 20. apríl 1918 – Dáin 22. nóvember 2007
Aðalbjörg var fædd í Syðra-Tungukoti sem nú er Brúarhlíð. Foreldar hennar
voru Guðrún Ingibjörg Björnsdóttir og Þorgrímur Jónas Stefánsson, bændur
að Syðra-Tungukoti. Hún var elsta barn þeirra. Systkini hennar voru Stefán,
Björn Jón, Konkordía Sigurbjörg, Emelía Svan björg og Vilhjálmur, hann dó
þriggja ára gamall. Öll eru þau systkini látin. Tvö fósturbörn ólust upp á
heimilinu, þau Hannes Ágústsson, hann er látinn og Pálína Kristín Pálsdóttir.