Húnavaka - 01.05.2008, Page 181
H Ú N A V A K A 179
tvær dætur, Helenu Mörtu og Hildegard sem búsett er í Hannover í Þýskalandi.
Helena ólst upp í foreldrahúsum í Pirna. Í verslunarskólanum í Pirna tók hún
verslunarskólapróf árið 1940 og að loknu prófi starfaði hún í nokkur ár á
skrifstofu flutningafyrirtækis.
Árið 1946 flutti Helena til Eutin í Norður-Þýskalandi, þar kynntist hún
Horst Hulsdunk, þau giftu sig árið 1947 og fluttu tveimur árum seinna til
Íslands eða árið 1949. Á eftirstríðsárunum flutti
margt fólk frá Þýskalandi hingað til lands. Helena
og Horst réðu sig í sveitavinnu í Húnavatnssýslu.
Þau eignuðust saman dótturina Sólveigu. Helena
og Horst slitu samvistum.
Helena vann á ýmsum bæjum í sýslunni, m.a.
á Torfalæk og Leysingjastöðum. Á Leysingjastöð-
um lágu saman leiðir hennar og Georgs
Hjartarsonar, múrara frá Skagaströnd en hann
kom þangað til að vinna að hlöðubyggingu. Þau
giftu sig í nóvember 1956.
Helena og Georg eignuðust þrjú börn: Ástu
Hjördísi, hennar sambýlismaður er Ingólfur Birg-
isson, Georg Ottó, hans sambýliskona er Linda
Velander. Yngstur er Sigurður Arinbjörn, hans sambýliskona er Sólveig
Guðmundsdóttir. Sólveigu, barn Helenu af fyrra hjónabandi, ættleiddi Georg
og gekk henni í föður stað. Maður Sólveigar er Hans Kristján Guðmunds-
son.
Helena átti gott með að læra og hún vildi vera sjálfstæð. Á Íslandi lærði hún
ljósmóðurfræði og lét þá gamlan draum rætast. Hún vann sem ljósmóðir á
Skagaströnd og á Blönduósi árin 1958 til 1972. Í rúmt ár var hún ljósmóðir á
Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað og síðar einnig sem ljósmóðir í
afleysingum á Blönduósi árin 1975-1979. Á farsælum ljósmóðurferli tók hún á
móti um það bil 300 börnum.
Helena tók hjúkrunarfræðipróf árið 1974 og starfaði sem hjúkrunarfræðingur
á Héraðshælinu á Blönduósi eins og sjúkrahúsið hét áður. Þar var hún í tíu ár
eða frá 1975 -1985. Í starfi sínu á Blönduósi leysti hún af sem hjúkrunarforstjóri.
Helena var eitt ár hjá Náttúrulækningafélaginu í Hveragerði.
Síðustu árin á starfsferlinum vann hún hjá Hrafnistu í Reykjavík við
umönnun aldraðra.
Hún missti mann sinn árið 2001. Eftir lát hans flutti Helena til Blönduóss
að Flúðabakka 1 og þar átti hún heimili síðast. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni
á Blönduósi. Útför hennar var gerð frá Blönduósskirkju 3. desember. Að
hennar ósk var bálför gerð og síðan jarðsett í leiði Georgs, mannsins hennar, í
Spákonufellskirkjugarði á Skagaströnd.
Sr. Sveinbjörn Einarsson.