Húnavaka - 01.05.2009, Side 62
H Ú N A V A K A 60
skoðunum sínum. Þarflaust er að rekja efni þeirra nákvæmlega en saman veita
þau miklu fyllri mynd af innanflokksátökum í Sjálfstæðisflokknum í Austur-
Húnavatnssýslu sumarið og haustið 1959 en áður hefur komið fram.10
Páll lét til skarar skríða með því að skrifa sitt hvort bréfið til þeirra Jóns
Pálmasonar og Ólafs Thors þann 18. júlí, þremur vikum eftir kosningar. Hann
vissi að tíminn var naumur og ekki eftir neinu að bíða. Í bréfinu til Jóns segir
Páll að Jón hefði átt að lýsa því yfir fyrir júníkosningarnar að þær yrðu hans
síðustu og þá myndu þær hafa farið á annan veg. En þessa yfirlýsingu hafi skort
og Páll kveðst vera nægjanlega góður mannþekkjari til þess að vita „að fólk
verður, þegar til lengdar lætur, leitt á sama lækni eða sama þingmanni og fer
að finna þeim ýmislegt til foráttu með réttu eða röngu. Ég fyrir mitt leyti ætla
því ekki að sitja hér sem læknir lengur en sætt er með góðu móti... . Ég held,
að þú ættir að fara eins að sem þingmaður.“
Með þessum orðum gefur Páll hvort tveggja til kynna að hann geti hugsað
sér til hreyfings og að Jóni sé hollast að gera slíkt hið sama. Enda sé það
„heiður en ekki vansæmd að fylgja dæmi okkar ágætu flokksbræðra, Jóns á
Reynistað og Péturs Ottesens [(1888–1968) á Ytra-Hólmi], og draga þig í hlé
frá þingstörfum.“ Síðan ráðleggur hann Jóni að taka þriðja sætið á lista
Sjálfstæðisflokksins í komandi haustkosningum ef hann vilji fram og „sam-
komulag verður um það innan flokksins“. Húnvetnskir sjálfstæðismenn hafi
farið verst út úr júníkosningunum af þeim sem myndi nýja kjördæmið og þar
með sé eðlilegast að Skagfirðingur fari í fyrsta sætið á komandi lista
Sjálfstæðisflokksins og Siglfirðingur í annað. Verði það ofan á lofar Páll að
styðja framboð Jóns í þriðja sætið en með augljósum semingi þó.11 Bréfinu
lýkur hann með sterkri brýningu til Jóns um að enda ekki langan og glæsilegan
stjórnmálaferil „með því að stofna til flokkadráttar milli héraðanna“ með því
að krefjast fyrsta sætisins á verðandi lista.
Þennan sama dag skrifaði Páll Kolka flokksformanni sínum annað bréf og
sendi honum jafnframt afrit af bréfinu til Jóns á Akri. Í bréfinu til Ólafs Thors
kveður við fastari tón en í því bréfi sem fyrr er lýst. Páll segir um Jón:
„Sannleikurinn er sá, að hann hefur alltaf litið á Sjálfstæðisflokkinn í A.H. sem
einkafyrirtæki sitt og okkur kjósendur sína sem búpening sinn. Það hefur orðið
baráttu flokksins í innanhéraðsmálum til ýmislegs ógagns og við erum orðnir
þreyttir á því. Það bar mjög á því fyrir þessar kosningar, að ágætir flokksmenn
töldu tímabært fyrir hann að hætta þingmennsku þótt þeir vildu unna honum
þess heiðurs að enda þingmannsferil sinn með sigri, sem því miður brást.“
Bréfinu lýkur Páll með brýningu til Ólafs um að halda aftur af Jóni „og firra
með því vandræðum“.
Páll leggur í báðum þessum bréfum til að Jón á Akri fari í þriðja sætið á lista
10 Sjá minningabækur austur-húnvetnskra stjórnmálamanna: Andrés Kristjánsson.
1979. Vopnaskipti og vinakynni. Ævifrásögn Hannesar Pálssonar frá Undirfelli, bls. 137–144;
Gylfi Gröndal. 1990. Ég hef lifað mér til gamans. Björn á Löngumýri segir frá, bls. 169–180;
Matthías Johannessen. 1978. Spjallað við Jón á Akri. Bókin um Jón á Akri, bls. 53–55.
11 Í bréfi til Jóns Sigurðssonar á Reynistað, þann 18. ágúst, segist Páll hafa lofað
stuðningi við framboð Jóns Pálmasonar í þriðja sætið „með lélegri samvisku“.