Húnavaka - 01.05.2009, Síða 63
H Ú N A V A K A 61
sjálfstæðismanna en leggst alfarið gegn því að hann
leiði fylkinguna. Því sé Jón hins vegar algerlega
ósammála og leiti nú stuðnings meðal Vestur-
Húnvetninga við kröfu sína um fyrsta sæti listans.
Það leist Kolka afleitlega á og segir að útilokað sé að
setja Siglfirðing í baráttusætið. Slíkt verki aðeins
sem „grýla á bændur, a.m.k. hér í Húnavatnssýslum
(þessi tilvitnun er úr bréfi til séra Gunnars Gíslasonar
(1914–2008) í Glaumbæ, dags. 27. júlí)“. Af skrifum
Páls má auðveldlega draga þá ályktun að hann hafi
talið ólíklegt að Jón myndi taka þriðja sætið, annað
hvort fengi hann það fyrsta eða hætti ella. Sú ætlan
hans kemur síðan mun skýrar fram í þeim bréfum
sem hann átti eftir að skrifa næstu vikurnar,
einkum bréfum til Jóns Sigurðssonar á Reynistað,
Ólafs Thors og Guðbrands Ísberg (1893–1984)
sýslumanns á Blönduósi.
Þegar kom fram í ágúst hafði Páll mótað afstöðu sína skýrar og segir ítrekað
berum orðum að hann telji sig líklegastan til þess að gera þriðja sætið á lista
sjálfstæðismanna að þingsæti þótt hann sé tekinn að reskjast. Markmiðið sé
hins vegar alls ekki að níðast á Jóni á Akri föllnum. Páll var í ham þessa
ágústdaga og í bréfi sínu til Jóns á Reynistað segir hann meðal annars: „Ég er
það mikill flokksmaður og Húnvetningur að ég er bæði hryggur og reiður yfir
því að sjá fylgi flokksins grotna niður hér ár frá ári og ættarhérað mitt, sem mér
þykir vænt um, lenda í vargakjöftum Framsóknar.“ Síðar í bréfinu segir hann
að ef svo fari að Jón Pálmason haldi áfram muni hann segja embætti sínu
lausu næsta vor og ekki stíga framar ótilneyddur fæti í ættarhérað sitt. Undir
lokin segir Kolka: „Ég ætla ekki að nauðga flokknum hér til að hafa mig í kjöri,
en ég ætla að berjast gegn því með hnúum og hnefum, að J.P. verði það. Mér
þykir enn undir niðri vænt um hann, þótt hann hafi margsinnis sýnt mér
vanþakkæti og jafnvel fjandskap upp á síðkastið, og maður er harðastur í
baráttu við vini sína.“
Við sama tón kveður í bréfi til Ólafs flokksformanns, dags. 2. september, þar
sem Páll segist ekki vera svo gamall að hann hefði ekki lagt á sig „þá baráttu
og erfiði, sem það kostar að fara í baráttusætið, ef um það hefði verið að ræða
að nota aðstöðu mína og væntanlegar vinsældir sem læknir til þess að hressa
upp á listann. Ég er staðráðinn í því að leggja embætti hér að veði fyrir því,
hvernig fer um þetta mál. Ef ræfilhátturinn verður ofan á og meiri hluti
flokksbræðra minna leggur trúnað á það, að ég hafi í eiginhagsmunaskyni
ætlað að troða skóinn ofan af mínum gamla vini og samherja, Jóni á Akri, en
ekki verið að hugsa um sigurmöguleika flokksins, þá segi ég af mér tafarlaust
og það fyrir kosningar.“ Hér er skýrt til orða tekið og ljóst að héraðslækninum
var heitt í hamsi. Undir lok bréfsins segir hann Ólafi síðan frá því að það sé
undarlegt að meðal framsóknarmanna eigi hann marga af sínum „bestu og
þakklátustu vinum“ þótt hann hafi alla tíð kappkostað að gera flokki þeirra
hvað hann gat til óþurftar. Lokaorðin eru þessi: „Það er skrítið reikningsdæmi,
Guðbrandur Ísberg.