Húnavaka - 01.05.2009, Síða 64
H Ú N A V A K A 62
að sem einstaklingar virðast Framsóknarmenn vera meiri þegnskaparmenn en
Sjálfstæðismenn, þótt heildarútkoman í flokkunum standi í öfugu hlutfalli við
það.“
Afstöðu sína til héraðslæknisembættisins og tengingu þess við framboðsmál
sjálfstæðismanna áréttar Páll í löngu bréfi tveimur dögum síðar, þann 4.
september, til vinar síns, Guðbrands Ísberg sýslumanns, og er þar endanlega
búinn að gera upp hug sinn. „Mér þykir það líka hart, eftir að hafa barist fyrir
og með Sjálfstæðisflokknum í 35 ár, stundum mér til skammar, en oftar mér til
skaða persónulega, að sýslungar mínir skuli líta á mig sem varg í véum innan
flokksins. Ég hef með engu móti geð í mér til að vera hér eftir það. Þetta er
ekki geðofsi, heldur viðkvæmni fyrir heiðri mínum, óþarfa viðkvæmni ef til
vill, en jafn sterk fyrir því. ... Eftir það, sem við hefur borið í sumar, er það mér
kvöl að vera hér lengur og ég legg hana ekki á mig, ef ég kemst með nokkru
móti hjá því. ... Ég sendi þér því uppsögn á sýslunefndar- og yfirlæknisstarfinu
og ætla að reyna að fá heilbrigðisstjórnina til að gefa mér frí til vors, bæði af
því að ég þarfnast hvíldar og af því að ég á inni orlof fyrir 2–3 ár. ...
Höfuðatriðið er að losna og losna sem fyrst. Ég hlakka til, sjálfs mín vegna og
minnar góðu konu, sem líka er orðin þreytt, að setjast að í nánd við börn okkar
og barnabörn. Mig langar til að við fáum að njóta samvista við þau í nokkur
ár enn.“ Þessu opinskáa bréfi lauk Páll með ákveðinni sjálfslýsingu: „Þetta er
orðið alllangt skrif, en maður á hér ekki marga trúnaðarvini eftir þennan
aldarfjórðung, og þó að ég sé örgeðja og hafi oft hlaupið á mig, þá eru það fáir
menn, sem ég hef opnað fyrir hug minn allan. Ég á hægra með það við þig en
flesta aðra og vona, að þú skoðir það sem nokkurn vináttuvott.“
Páll sendi Guðbrandi sýslumanni annað bréf, dags. 1. október, þegar fáar
vikur voru til kosninga og kveðst þar líta svo á að sú ákvörðun að bjóða honum
ekki baráttusætið í stað Jóns á Akri „sé yfirlýsing flokksbræðra minna um það,
að ég sé svo illa þokkaður, að framboð mitt yrði til að spilla enn meira fyrir
flokknum en það að hafa hann. Eftir þá yfirlýsingu hef ég ekki geð í mér að
vera hér lengur... “.
Niðurstöður haustkosninganna 1959 urðu sjálfstæðismönnum og þá einkum
Jóni Pálmasyni mikil vonbrigði. Framsóknarflokkurinn fékk 2146 atkvæði og
þrjá þingmenn kjörna. Þeir voru Skúli Guðmundsson, fyrrverandi
kaupfélagsstjóri á Laugarbakka í Miðfirði, Ólafur Jóhannesson (1913–1984),
lagaprófessor við Háskóla Íslands, og Björn Pálsson, bóndi á Ytri-Löngumýri,
sem hrósaði þar með öðrum sigri sínum yfir frændanum á Akri.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 1900 atkvæði og tvo þingmenn kjörna, þá Gunnar
Gíslason, sóknarprest í Glaumbæ í Skagafirði, og Einar Ingimundarson
bæjarfógeta á Siglufirði. Jón á Akri féll þar með endanlega af þingi eftir 26 ára
þingsetu. Alþýðuflokkurinn hlaut 495 atkvæði og engan mann kjördæmakjörinn
og Alþýðubandalagið fékk ekki heldur kjördæmakjörinn þingmann út á sín
616 atkvæði. Hins vegar fengu báðir flokkarnir landskjörna þingmenn, hinn
fyrrnefndi Jón Þorsteinsson (1924–1994), lögfræðing í Reykjavík, og hinn
síðarnefndi Gunnar Jóhannsson (1895–1971) verkamann á Siglufirði. – Því
má til gamans bæta hér við að tíu manns skipuðu hvern hinna fjögurra
framboðslista og af samtals fjörutíu frambjóðendum voru aðeins tvær konur.