Húnavaka - 01.05.2009, Page 81
H Ú N A V A K A 79
skíði. Voru nú uppi miklar efasemdir hvort gangan hefði verið lögleg hjá
Jóhanni. Endaði málið svo að Stefán úrskurðaði gönguna löglega.
Eitt sinn var ég að fara einn á hjóli í skólann. Krapi var á veginum og sé ég
að Guðrún á Ytri-Löngumýri stikar á mikilli ferð fram eftir. Taldi ég að fljótt
mundi draga saman með okkur, hún gangandi en ég þessi riddari á hjóli.
Aldrei dró ég hana uppi, frekar dró í sundur með okkur. Guðrún hló þegar við
vorum komin að Höllustöðum en ég var vonsvikinn yfir að stelpa gengi hraðar
en ég hjólaði.
Ég var líka í farskóla á Snæringsstöðum í Svínadal. Þá var kennari Jósep
Jóhannesson frá Giljalandi í Dölum. Hann var traustur kennari og lagði
áherslu á að við segðum þökk fyrir matinn en ekki dönskuslettuna takk. Hann
kenndi leikfimi sem fólst í því að gera armbeygjur og ýmsar æfingar. Var þetta
gert inn í stofu og þætti sá leikfimisalur lítill nú. Heimilisfólkið hlustaði á
útvarp saman á kvöldin. Svo þegar kom að Passíusálmunum ætluðum við að
rjúka út úr stofunni en þá sat Jósep við dyrnar og setti löppina fyrir okkur og
urðum við að halda kyrru fyrir uns lestri var lokið. Jósep vakti áhuga okkar og
annarra á skákíþróttinni og blómstraði hún í Svínavatnshreppi á þessum
árum. Þorsteinn Sigurjónsson á Hamri var og mikill drifkraftur í skákmálunum.
Mér fannst svolítið skrítið á þessum árum hve margir hétu sama nafni og ég í
sveitinni. Við vorum níu Þorsteinar í Svínavatnshreppi.
Veturinn 1958-1959 var ég í farskóla á Snæringsstöðum og Syðri-Grund.
Þá var kennari Dómhildur Sigurðardóttir frá Draflastöðum í Fnjóskadal. Hún
var um tvítugt, væn kona og þægilegur kennari. Þennan vetur lenti ég í mikilli
sorg þegar vitaskipið Hermóður fórst 18. febrúar. Bróðir minn, sem hafði farið
í afleysingartúr sem matsveinn, var þar um borð. Vitað er að Hermóður hafði
lagt í Reykjanesröstina í mjög versnandi veðri. Og eftir það var ekkert vitað
um skipið. Nú er vitað að það fórst undan Höfnum á Reykjanesi. Skólasystkini
mín og heimilisfólkið á Syðri-Grund lögðust á eitt að gera mér lífið bærilegt.
Þessi vetur var að öðru leyti góður og lauk ég þá um vorið barnaskólaprófi, ári
áður en til var ætlast samkvæmt lögum.
Árið eftir, 6. júní, fermdumst við síðan í Svínavatnskirkju, æskufélagarnir og
vinir, Erlingur Ingvarsson á Ásum, nú skógarbóndi á Hamri. Æskunni var
lokið og unglings- og fullorðinsárin tóku við.
Ég hef nú hér rifjað upp æskuminningar mínar, getið æskuheimilis míns og
umhverfis. Gamalt máltæki segir að fjórðungi bregði til fósturs. Hægt er að
fallast á það. Ég er fæddur að Stað í Skerjafirði, er Strandamaður og Ísfirðingur
í móðurætt og Borgfirðingur og Skaftfellingur í föðurætt. Glöggir menn geta
þó séð ýmsa húnvetnska takta í mér þar sem áhrif uppeldis og umhverfis í víðu
samhengi gætir.
Þegar ég lít til baka eru bernsku- og æskuminningar mínar á rósrauðu skýi
og bera við himinblámann yst við sjónarrönd.
❄❄❄