Húnavaka - 01.05.2009, Page 87
H Ú N A V A K A 85
af ástarbréfum og gjöfum, meira að segja frá kennurunum og tveir bekkjar-
félagar mínir bjuggu til minjagripi fyrir mig í smíðum.
Á meðan strákarnir voru í smíðum fórum við stelpurnar í heimilisfræði. Þar
lærðum við hins vegar ekki að baka og elda góðan mat eins og venja er á
Íslandi, nei, við lærðum allt það sem góða húsmóður prýðir, t.d. að snyrta
neglurnar, mála okkur, þrífa húsið og skreyta það.
Þegar ég fór að sjá fram á lok skólagöngu minnar ákvað ég að athuga
hversu langt ég gæti gengið í því að brjóta skólareglurnar því alltaf voru gerðar
undartekningar á öllu fyrir mig og það fór eiginlega í taugarnar á mér. Ég
mætti því síðasta daginn í marglituðum sokkum (sem var mjög illa séð), illa
gyrt, drakk vatn í tímum og hlustaði á ,,iPodinn“ minn. En viti menn,
kennararnir brostu bara til mín og spurðu hvort að ég væri með myndir af
fjölskyldunni minni og vinum inni á tækinu. Svo þegar síminn minn hringdi,
sem var reyndar ekki hluti af áætluninni, þá söng kennarinn hástöfum með
hringingunni og hló svo.
Fótbolti og frami
Strandlengjan við Kyrrahafið þar sem ég bjó er vöktuð og kvöld eitt bankaði
maðurinn sem vinnur í gæsluhliðinu uppá en hann hafði verið að leita að
stelpum fyrir mig sem spila fótbolta. Hann sagði mér að það væri fótboltamót
í herbúðunum næsta dag. Ég fór því niður í bæ daginn eftir og hitti þar
þjálfarann og hinar stelpurnar í liðinu fyrir utan bæjarskrifstofuna. Okkur var
svo hent upp á pallbíl í eigu hersins og keyrt í herbúðirnar. Þar gaf að líta lítinn
völl sem leit frekar út eins og hóll, með tréstöngum og gangstétt þvert yfir.
Þegar öll liðin voru mætt hélt herstjórinn ræðu sem ég skildi lítið sem ekkert í
og áður en að ég vissi af voru allir að klappa og horfa á mig. Ég var svo dregin
af einum hermanninum að markinu þar sem að búið var að stilla upp bolta
og annarri stelpu var hent í markið. Áður en að ég vissi af var ég orðin
umkringd hermönnum sem hvöttu mig til að skjóta á markið. Þegar ég lét svo
loks vaða, algjörlega grunlaus um hvað væri í gangi, brutust út þvílík
fagnaðarlæti og tónlist var sett á fóninn. Ég frétti svo síðar að ég hafði verið að
setja mótið. Við kepptum síðan við konurnar sem elda ofan í hermennina og
unnum með yfirburðum, 12-0. Ég átti 6 mörk en það var bara byrjunin á
glæstum fótboltaferli mínum hér í Guatemala!
Til að byrja með voru engar æfingar en við spiluðum reglulega. Annað
skiptið sem ég spilaði með liðinu mætti sjónvarpsstöð þorpsins og vildi taka
viðtal við mig eftir leikinn. Ég skildi ennþá litla sem enga spænsku og vissi lítið
hvað væri í gangi en Maria Isabel sem ég bjó hjá var túlkurinn minn. Þrátt
fyrir vandræðalegt viðtal stoppaði síminn hjá þjálfaranum mínum ekki eftir
þetta og fengum við fullt af tilboðum að spila í öðrum þorpum í kring. Við
fórum þá að taka fótboltann af meiri alvöru, byrjuðum að æfa á fullu, bæði á
ströndinni og á vellinum hér í þorpinu. Við mættum nú reglulega í líkams rækt-
ina sem var lítill, gluggalaus salur, fullur af sveittum kraftlyftingakörlum. Á