Húnavaka - 01.05.2009, Blaðsíða 94
H Ú N A V A K A 92
RAGNHEIÐUR BLÖNDAL, Brúsastöðum:
Móðir mín
Minningabrot frá æsku, uppvaxtarárum og lífshlaupi
móður minnar, Sveinbjargar Helgu Jónsdóttur,
Helgasonar frá Skrapatungu
Mig langar, meðan minnið er ekki farið að svíkja mig, að rifja upp eitt og annað
sem móðir mín sagði mér frá þegar hún var barn og unglingur en mér fannst
sumt af því vera fremur harðneskjulegt fyrir barn. Mætti kannski hugsa til þess,
nú á okkar tímum þegar börnum er tæplega ætlað neitt að starfa, allt talið of
erfitt fyrir þau og varla farið fótgangandi neitt sem heitið getur lengur.
Móðuramma mín hét Ragnheiður Ingibjörg Sveinsdóttir Kristóferssonar.
Mamma var ein af fjórtán systkinum og má því nærri geta að hún, sem var
elst og stelpa þar að auki, hafi æði oft og mikið þurft að taka til hendi og hjálpa
til með barnahópinn. Sagðist hún iðulega hafa þurft að taka yngsta barnið í
rúmið til sín og vera því sem móðir, þegar það næsta fæddist, þó sjálf væri hún
bara lítið barn en stutt var á milli fæðinga hjá ömmu. Sagðist mamma ekki
hafa verið stór þegar hún fór að skilja að þegar móðir hennar fór að venja af
brjósti þá var nýtt barn á leiðinni.
Mamma varð snemma læs og las allt sem hún náði í, bæði ung og ávallt síðan,
hún var ákaflega bókhneigð, fróðleiksfús og kunni mikið af ljóðum, oft löng um
drápum og lagviss var hún í besta lagi. Lærði ég mikið af henni enda eina barn
foreldra minna, róleg í tíðinni og hafði gaman af að hlusta og læra.
En lífið bauð henni móður minni ekki upp á bóklestur og nám. Það voru
því stolnar stundir sem hún eyddi í þess konar og fékk ekki að vera nema einn
vetur í skóla eða síðasta veturinn sem börnum er ætlað barnaskólanám, þar eð
skólalöggjöfin komst ekki á fyrr en hún var á þrettánda árinu. Veturinn þar á
eftir og þá næstu mátti hún svo horfa á eftir systkinum sínum fara í skólann og
ekki þá kannski laust við að féllu tár, því hún öfundaði þau og langaði svo líka.
En hennar hlutskipti var að vinna og ganga undir öðrum. Meðal annars sagði
hún mér að þegar hún var á tólfta árinu hafi hún verið vakin snemma á
morgnana til að fara í fjós, gefa, brynna og bera inn vatn úr brunni þar
skammt frá, þetta þurfti að gera áður en mjólkað var.
Í minningunni fannst henni æði oft á vetrum hafa verið hríð, vont veður og
snjóþungt og hún því orðið að moka sig stundum út úr bænum og inn í fjósið.
Í þessum vatnsburði skvettist oft vatn upp á föt hennar og fætur svo pilsin