Húnavaka - 01.05.2009, Page 95
H Ú N A V A K A 93
stokkfrusu en þá tíðkaðist ekki að kvenfólk gengi í buxum eins og síðar varð.
Seinna fór svo Lína, systir hennar, að fara með henni til verka en hún var um
tveimur árum yngri, var það bæði til léttis og skemmtunar.
Ein bernskuminning var mömmu ofarlega í huga, þá átti fjölskyldan heima
í Enni og hún var fimm ára. Á bænum var tvíbýli og börn nokkur, þar á meðal
hún, lágu í bæjarbrekkunni um vor og horfðu á skip á Húnaflóanum, stórt og
skrautlegt. Konur voru að gera hreint í geymslu heima í bænum og vildu nú
velta tunnum niður brekkuna ofan að læk til að þvo þær. Kölluðu konurnar til
barnanna að færa sig burtu og gerðu þau það öll nema mamma sem lá kyrr
og horfði á skipið þegar tunna kom fljúgandi í höfuð henni. Hún heyrði óp og
móður sína kalla: ,,Ætlið þið að drepa barnið fyrir mér?”
Vissi hún ekki af sér meira fyrr en daginn eftir að móðir hennar var að
reyna að láta hana borða nýjan fisk af fallegum diski en faðir hennar hafði
komið heim kvöldið áður færandi hendi. Hann vann oft niður á Blönduósi og
var afar duglegur að draga björg í bú, góður veiðimaður, og aldrei varð sultur
í búi þrátt fyrir mikla ómegð. En erfiðlega gekk henni að borða þó svöng væri
því hún var mikið bólgin og framtennurnar brotnar.
Ekki var nú verið að rjúka til læknis þó svona kæmi fyrir í þá daga. Auðvitað
hafa tennurnar komið seinna en höfuðverkur sótti mikið á hana alla ævi en var
aldrei neitt rannsakaður.
Öðru atviki mundi hún vel eftir, þá var hún orðin eldri og þau áttu heima í
Skrapatungu. Hún fór með föður sínum að reka hross úr túninu en þau komu
handan yfir á. Gamall hundur var með þeim sem hét Tryggur, fylgdi hann
þeim og gelti í hrossunum. En þegar reka átti þau yfir ána fannst karli föður
hennar seint ganga reksturinn og hvatti gamla Trygg sem mest hann mátti,
Benedikt Blöndal, Brúsastöðum. Sveinbjörg Helga Jónsdóttir, Brúsastöðum.