Húnavaka - 01.05.2009, Page 97
H Ú N A V A K A 95
mamma fékk hana nýlega fædda. Þetta var tápmikil gimbur og fékk frá upphafi
gott uppeldi enda dafnaði hún vel. Hún át allt sem tönn á festi og varð gott af,
fékk sér graut með hænsnunum, brá sér svo inn í bæ og stal nýbakaðri jólaköku
ef svo bar undir. Hún gekk í túninu og hvar sem henni hentaði og leiðst allt,
því mamma hélt yfir henni verndarhendi, þýddi ekkert um að tala. Svo fékk
hún alltaf pelann sinn þó hún væri orðin stór enda voru lömbin hennar
stæðileg þegar að því kom.
Golsa eignaðist lamb gemlingsvorið sitt, sem vó 20 kg við slátrun og seinna
átti hún tvo ævintýralega stóra lambhrúta, var annar þyngsta lamb á
sláturhúsinu eitt haustið, 32 kg, hinn var 26 kg. Þetta voru tvílembingar. Þetta
var ótrúlegt en satt og þau urðu æði mörg stóru lömbin hennar Golsu.
Ófá voru líka lömbin sem mamma kom lífi í á vorin eftir hret en þá var
kannski búið að sleppa töluverðu á hálsinn á þessu stóra ógirta svæði sem þá
var fyrir nokkrum bæjum. Ég man að Guðmundur í Ási var þeysandi um allt
að gá að fénu og tína heim það sem var illa á sig komið, hann var lausamaður
heima þá en átti orðið margt fé. Móðir mín var líka öll vor að ganga til ánna
og naut þess í sauðburðinum að taka móti lömbunum og sýsla við féð. En
hennar mesta ánægja í lífinu má segja að hafi verið að sinna skepnum og sagði
hún stundum að hefði hún mátt kjósa sér lífsstarf hefði hún viljað verða
dýralæknir.
Tvo drauma dreymdi hana þegar hún var orðin vel við aldur en mér fannst
draumar þessir merkilegir. Hún sagði mér að sig hefði dreymt að hún væri
komin yfir í aðra veröld og dálítið ráðvillt þar. Þá fannst henni pabbi minn,
sem var þá látinn fyrir nokkru, koma þeysandi með tvo til reiðar á móti sér og
sá sem hann teymdi var litli Stjarni, þægilegi indæli töltarinn okkar. Gladdist
hún heldur betur, fór á bak honum og saman þeystu þau inn í einhverjar
óravíddir.
Hinn draumurinn hennar var á þá leið að henni fannst hún vera á gangi
eftir grænni víðáttumikilli sléttu og er hún leit til baka sá hún hvar slóðin
hennar lá en upp úr öllum sporunum uxu undurfalleg blóm. Hún vissi með
sjálfri sér að sléttan græna var ekki af þessum heimi og það er mín trú að
blómin fallegu, sem uxu upp úr sporunum, hafi verið tákn um góðverkin
hennar í lífinu.
❄❄❄