Húnavaka - 01.05.2009, Side 116
H Ú N A V A K A 114
Enn var ég að blaða í pappírum sýslumanns á safninu. Þegar ég var að
skoða töflu hans um skipakomur til sýslunnar fyrir árið 1877 tók ég eftir að
neðan við hana var skrifað: Auk ofannefndra skipa kom enska gufuskipið Rona
66 tonn á Hólanes og skipaði þar upp timbri til laxakofa á Blönduósi. Þarna
var þetta svart á hvítu, húsið hefur verið byggt sumarið 1877 og hefur því ekki
staðið lengi. Var þetta fyrsta íshúsið sem byggt var á Íslandi? Var Rona fyrsta
gufuskipið sem kom að landi í Húnavatnssýslu?
Síðasti róður úr Skipagili
Beint fyrir ofan Skipagil byggði Ágúst Andrésson sér íbúðarhús úr steinsteypu,
hæð og ris. Það bar af hinum húsunum í kring, því þau voru heldur ómerkilegri
og nöfn þeirra við hæfi, Litla-Enni, Enniskot og Skuld norðanvið og
Baldursheimur að sunnan. Enda kallaði Ágúst bæ sinn Ásgarð. Þarna bjó
hann lengi með síðari konu sinni, Þorvildi Einarsdóttur. Þau bjuggu oftast bara
í risinu en leigðu neðri hæðina út. Þar man ég eftir ýmsum leigjendum en
einna lengst var Knútur Berndsen og hans fjölskylda þarna. Í þessu húsi hófst
skólaganga mín hjá Þorvildi eða Vildu eins og hún var jafnan kölluð.
Námsgreinar voru tvær, lestur og heimspeki. Aðeins var þó lært á eina bók,
litlu gulu hænuna. Til Vildu kom ég daglega og sat hjá henni og lærði að
þekkja stafina, sem hún potaði í með stórum gráum bandprjóni. Þetta var
byrjunin en að loknu námskeiðinu var ég orðinn sæmilega læs og búinn að átta
mig á að allir eru tilbúnir að éta kökur, þó færri nenni að baka þær. Ég hafði
reyndar heyrt talað um litlu gulu hænuna áður en ég fór að læra hjá Vildu, því
Gústi átti einmitt apparat sem var kallað þessu nafni. Ég man aðeins óljóst eftir
þessu tæki en minnir að þetta hafi verið hálfgert fjölnotatæki og hægt hafi verið
að setja við það sláttugreiðu meðal annars. Ég man bara eftir því sem einhvers
konar plógi eða tætara sem karlinn notaði til að rífa upp kartöflugarðinn.
Tækinu var stýrt með tveimur handföngum sem stóðu upp og aftur af
apparatinu og hafa bensíngjöf og önnur stjórntæki verið á og við handföngin.
Eitthvað gekk karlinum illa að tempra hraðann á tækinu því hann var stundum
á harðahlaupum á eftir því og missti jafnvel fótanna og dróst flatur á eftir því.
Enda seldi hann það brátt og fékk sér dráttarvél.
Þessum nágranna mínum var margt til lista lagt því hann var afbragðs
söngvari, góð skytta og mikill veiðimaður, auk þess að vera duglegur
verkamaður. Hann byggði sér hús yfir nokkrar kýr og kindur auk hænsna, sem
hann hafði líka, á túninu norður af íbúðarhúsinu. Smiðju hafði hann í skúr við
húsið og var oft að bjástra við einhverjar smíðar. Þegar ég man fyrst eftir mér
var hann kominn með mikinn áhuga á laxveiði á stöng og stundaði kastæfingar
af kappi uppi á túninu. Ég var nógu ungur og vitlaus til að undrast þetta
háttalag en bræður mínir sögðu hann vera að veiða túnfisk. En þó ekkert
aflaðist á túninu gekk karlinum vel veiðin í ánum og varð hann brátt manna
fengsælastur þar. Ekki hætti hann þó að róa til fiskjar, því bæði átti hann litla
trillu og árabát sem hann notaði við silungsveiðar í sjónum. Á trillunni fór