Húnavaka - 01.05.2009, Page 123
H Ú N A V A K A 121
-- Þetta eru ærnar og hér er kýrin, sagði stúlkan.
-- Og hér eru karl og kerling, sagði drengurinn og hampaði útskornum
bændum úr goðatafli.
Jörundur settist flötum beinum á gólfið hjá þeim og greip trékubb sem lá
þar:
-- Hér er verslunin!
-- Og hér er pakkhúsið, bætti stúlkan við og lagði annan kubb hjá hinum.
-- Þá kemur bóndinn gangandi, sagði strákur og skellti þriðja taflmanninum
inn á milli húsanna. Hann er fullur! Og syngur!
-- Og hér kemur annar! Syngjandi fullur, sagði Jörundur og lét einn
taflmanninn valsa um plássið um leið og hann söng drykkjuvísu.
-- Kýrin verður steinhissa, hrópaði stúlkan.
-- Og ærnar styggjast og segja meeee!
Jörundur tók hressilega undir og öll hermdu þau eftir ám og kúm hvert í
kapp við annað. Í því kom Schram kaupmaður inn úr dyrunum og horfði
forviða á hæstráðanda til sjós og lands, sitjandi á gólfinu. Jörundur fór að
hlæja. Guðrún tók undir og brátt hlógu allir í stofunni hjartanlega.
-- Jæja, Schram, sagði Jörundur um leið og hann stóð upp. Nú semjum við!
Ég sé að þér eigið yndislega fjölskyldu og ég hef því ákveðið að skoða yður sem
innfæddan. Í gær lagði ég hald á hús yðar, verslun og vörur. Ef þér gangið að
skilmálum mínum og gerist umboðsmaður minn eruð þér laus undan öllum
skuldbindingum við danska kaupmenn en fáið til eignar það sem ég tók af
yður í gær. Þér safnið tólg hjá bændum fyrir eitt þúsund dali sem ég greiði yður
fyrir fram út í hönd. Jafnframt takið þér við hundrað hestburðum af korni sem
hingað koma bráðum. Þér dreifið því sem þarf um sýsluna svo að enginn þurfi
að búa við neyð í vetur og sendið afganginn í Skagafjörð. Hvað segið þér um
þetta?
-- Herra minn! Því verður ekki neitað að vel er boðið, svaraði Schram og
samþykkti hvert orð sem af munni Jörundar gekk. Ákveðið var að nýliðinn í
hópnum, Árni fyrrverandi faktor, yrði eftir hjá honum og hjálpaði til við
tólgarkaupin.
Þau kvöddu heimafólk með virktum og stigu á bak óþreyttum hestum sem
Schram útvegaði. Við kirkjuna á Vindhæli var verið að jarðsetja kornabörn
sem dáið höfðu skömmu eftir fæðingu. Barnadauði virtist algengur og
Jörundur einsetti sér að hefja strax úrbætur á því sviði.
❄❄❄